Fara í efni

LEIÐTOGAR HINS VESTRÆNA HEIMS?

Væri ég Bandaríkjamaður hefði sennilega verið hægt að telja mig á að kjósa Kamölu Harris í verðandi forsetakosningum í BNA vegna afstöðu hennar til ýmissa innlendra mála og þá einnig til að forða mér og heimsbyggðinni allri frá lygum, lágkúru og ómerkilegheitum Donalds Trump – að ógleymdri stefnu hans í ýmsum samfélagsmálum.

En eftir því sem ég hlusta meira á Harris þeim mun fráhverfari verð ég henni. Hún er nefnilega að mínu mati stórhættuleg heimsfriðnum, ekkert sÍður en núverandi forseti Bandaríkjanna, Jo Biden og utanríkisráðherrann Anthony Blinken sem hafa sleitulaust staðið fyrir hervæðingu um allan heiminn og eru síðan uppvísir að því að velja stríð þar sem samningar eru í boði. Þannig talar einnig Kamala Harris. Markmiðið er að tryggja yfirráð Bandaríkjanna í einpóla heimi.

Hlustið á þetta:

https://www.youtube.com/watch?v=YZgGFv1rb1Q

Trump stærir sig af því að hafa pínt Evrópuríkin til að stórauka hernaðarútgjöld sín – koma þeim „í stríðsham“ eins og þetta var kallað með velþóknun í Brussel. Hann er engu að síður uggandi um kjarnorkustríð. Kamala Harris leiðir á hinn bóginn ekki hugann að þeim möguleika að gjörðir Bandaríkjastjórnar kunni að leiða okkur út á ystu nöf kjarnorkueyðileggingar. Tilgangurinn helgi meðalið. Gleymum því aldrei að bandarísk stjórnvöld hafa aldrei viðurkennt að kjarnorkusprengingarnar í Hiroshima og Nagasaki hafi verið óréttlætanlegar.

Kamala Harris sem hefur stutt innrásir eigin ríkis í fjölda ríkja talar síðan fjálglega um hve heilög landamæri ríkja séu og hve frelsi þjóðanna sé dýrmætt.

Niðurstaða mín er sú að hvorugt þeirra Donalds Trump eða Kamölu Harris gæti ég kosið. Fyrst Ralph Nader er ekki í framboði myndi ég sennilega krossa við græna aktívistann Jill Gail.

Auðvitað er ljóst að Jill Gail verður ekki kosin forseti Bandaríkjanna og skal auk þess játað að ekki þekki ég skoðanir hennar í þaula. Veit aðeins að hún er græn og heitir hvorki Trump né Harris. Niður á þetta plan erum við komin.

Stóra spurningin er svo sú hvort ekki sé kominn tími til að þau sem valist hafa til forystu í okkar hluta heimsins sameinist um að hætta að láta Bandaríkin, sem bjóða upp „leiðtoga“ eins og höfuðkeppinautana í komandi forsetkosningum, leiða sig á asnaeyrunum.

En þá er um tvennt að velja fyrir okkur sem kallast almenningur. Asnarnir með eyrun hætti að vera asnar eða við losum okkur við asnana með asnaeyrun. Það er sem betur fer enn hægt þótt ýmis merki séu um það að þrengt sé sífellt meir að lýðræðinu.

Tími til kominn að vakna áður en það verður um seinan.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.