LEITAÐ ÁSJÁR HJÁ STRÍÐSGLÆPAMÖNNUM
Ég heyrði ekki fréttir í gærkvöldi. Ekki heldur fréttirnar af samningaviðræðum við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um framhald á "varnarsamningi". Ég hef fregnað að Kani hafi einkum viljað vernda okkur fyrir spillingu og mansali! Halda samningamenn Bush ef til vill að þeir séu staddir í Eistlandi? Og skyldu þetta vera réttu aðilarnir til að vernda þjóð vora fyrir spillingu og mansali, sömu menn og flytja fanga utan dóms og laga landa á milli til að verða pyntaðir?
Undirlægjuháttur íslenskra stjórnvalda er með ólíkindum. Það er hrikaleg tilhugsun að stjórnarerindrekar Íslands skuli liggja á hnjám frammi fyrir verstu stríðglæpamönnum veraldarinnar í betlibæn um að þeir verndi íslenska þjóð gegn öllu illu! Hvílík niðurlæging!!
Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde eru skelfingu lostnir yfir þeirri tilhugsun að Ísland verði án loftvarna. Hvaðan skyldu þeir vera að búast við loftárás, Geir og Halldór? Frá Englandi, Skotlandi, Noregi eða Rússlandi? Til hvers er ætlast í viðlögum frá hendi pyntingameistaranna frá Abu Grahib og Guantanomo? Hver er skýringin á að þeir eru beðnir ásjár? Að sjálfsögðu er þetta Íslendingum á engan hátt samboðið. Auðvitað á að segja þessum sendiboðum Georgs Bush að fara til síns heima; segja þeim að við viljum ekkert með þá að hafa. Síðan eigum við að hyggja að því sjálf hvernig við best tryggjum öryggi okkar. Það getum við hæglega gert og miklu betur en með aðstoð Bandaríkjamanna eða einhverra evrópskra NATÓ manna sem Samfylkingin, Framsókn og Frjálslyndir virðast nú einblína á. Þar er á ferðinni svartasta afturhald Evrópu og upp á það gapa íslenskir kratar!
Ef við nú gefum okkur að helsta ógnin séu hryðuverk, þá er augljóst að helst yrði okkur ógnað ef við yrðum áfram í slagtogi með ranglátasta yfirgangsríki veraldarinnar, nú um stundir, Bandaríkjunum. Okkar besta vörn væri í því fólgin að fylgja sanngjarnri og réttlátri stefnu á alþjóðavettvangi.
Þá vil ég biðja lesendur að íhuga tvo kosti, annars vegar íslenskar öryggissveitir eða "sérsveitir" lögreglu, einsog við þekkjum þær, til að taka á hryðjuverkaógn og hins vegar bandaríska hryðjuverkasveit, hugsanlega sérþjálfuð í Fallujah í Írak. Þar lærðu menn að fremja stríðsglæpi. Vonandi verður okkur forðað frá slíkum "verndurum."!