LEKAMÁLIÐ OG FJÖLMIÐLAR
28.01.2015
Birtist í DV 27.01.15.
Mörgum þótti nóg um þráhyggju DV í lekamálinu svokallaða sem í haust leiddi til afsagnar fyrrverandi innanríkisráðherra og nú síðast áfellisdóms embættis umboðsmanns Alþingis um óeðlileg afskipti ráðherrans af rannsókn þessa máls.
Rannsókn vegna fréttaflutnings DV
Staðreyndin er sú að ef DV og síðar annarra fjölmiðla hefði ekki notið við og málinu ekki haldið til streitu af þeirra hálfu, er hætt við að það hefði ekki orðið það sem það varð. Það var á grundvelli frétta DV sem umboðsmaður Alþingis ákvað að taka málið til sérstakrar rannsóknar og hefur hann vísað þar til frásagnar blaðsins í júlílok þar sem staðhæft var að innanríkisráðherra hefði átt í samskiptum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu „um rannsókn á meðferð trúnaðarupplýsinga úr innanríkisráðuneytinu á sama tíma og rannsóknin var í gangi“.
Stjórnskipunarnefnd með málið í sigti
Til haga skal haldið að áður hafði málið verið tekið fyrir í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Það gerðist í desember 2013 og rúmum fjórum mánuðum síðar, í maí mánuði 2014 var fært til bókar í nefndinni að málið væri að öllum líkindum svo alvarlegt að það hlyti að koma til kasta nefndarinnar. Þegar hins vegar embætti umboðsmanns Alþingis ákvað að taka málið til rannsóknar var sjálfgefið að nefndin myndi halda að sér höndum meðan á þeirri rannsókn stóð enda fyrirsjáanlegt að ella myndi embætti umboðsmanns láta af sinni rannsókn.
Umboðsmaður fái eðlilegt svigrúm
Í því sambandi var m.a. horft til sambærilegs fordæmis frá Danmörku frá því í lok níunda áratugar síðustu aldar en lyktir urðu ekki í því máli fyrr en líða tók á tíunda áratuginn. Í svokölluðu Tamílamáli, sem laut að málefnum innflytjenda frá Sri Lanka, var dómsmálaráðherra Danmerkur sakaður um greina rangt frá í þinginu. Umboðsmaður danska þingsins hóf rannsókn en lét af henni þegar þingið tók málið upp. Þetta vildu nefndarmenn Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis ekki að henti í þessu máli enda hefur umboðsmaður Alþingis það lögskipaða hlutverk að sinna eftirlitshlutverki gagnvart stjórnsýslunni fyrir hönd Alþingis og eðillegt að hann fái ótruflað svigrúm til að sinna því hlutverki sínu.
Rangfærslur á þingi þarf að leiðrétta
Út af standa ýmsir aðrir þættir þessa máls og þá til dæmis hvort fyrrum ráðherra vilji hafa sama hátt á gagnvart Alþingi og gert var gagnvart embætti umboðsmanns og leiðrétta fyrri staðhæfingar á þingi en þess er að geta að þingmenn sem hreyfðu málinu í sölum Alþingis á málefnalegan og yfirvegnaðan hátt voru sumir hverjir sakaðir um annarlegar hvatir og að taka þátt í pólitískri aðför að ráðherra.
Alþingi eflir aðhaldshlutverk sitt
Embætti umboðsmanns Alþingis hefur tvímælalaust með þessari rannsókn enn sannað gildi sitt og treyst sig í sessi sem einn af hornsteinum opins lýðræðisþjóðfélags sem við viljum flest að hér sé við lýði. Sömuleiðis er Alþingi jafnt og þétt að efla eftirlitshlutverk sitt. Þar gegnir Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd veigamiklu hlutverki.
Spurning til fjölmiðlafólks
Lekamálið hefur vakið ýmsar spurningar um ábyrgð stjórnmálamanna, stjórnsýslunnar og fjölmiðlanna. Við hljótum að spyrja hvort fjölmiðill sem býr yfir upplýsingum um að heimildarmaður segi ekki rétt frá og varpi þar með grun á saklaust fólk, hafi skyldur gagnvart honum á kostnað sannleikans. Getur þetta verið svo?
Fjölmiðlar og fjármagn
Mikilvægt er að allir þeir aðilar sem hafa aðhalds- og eftirlitshlutverki að gegna standi sína vakt. Það er vissulega áhyggjuefni hvernig eignarhaldi á fjölmiðlum er háttað og virðist enn sækja í einokunarfarveg. Á sama tíma og ég lofa fjölmiðla fyrir árvekni í þessu tiltekna máli er ástæða fyrir okkur sem hrærumst í fjölmiðlaheiminum að hafa auga með samspili fjölmiðla og eigendafjármagns.
Mörgum þótti nóg um þráhyggju DV í lekamálinu svokallaða sem í haust leiddi til afsagnar fyrrverandi innanríkisráðherra og nú síðast áfellisdóms embættis umboðsmanns Alþingis um óeðlileg afskipti ráðherrans af rannsókn þessa máls.
Rannsókn vegna fréttaflutnings DV
Staðreyndin er sú að ef DV og síðar annarra fjölmiðla hefði ekki notið við og málinu ekki haldið til streitu af þeirra hálfu, er hætt við að það hefði ekki orðið það sem það varð. Það var á grundvelli frétta DV sem umboðsmaður Alþingis ákvað að taka málið til sérstakrar rannsóknar og hefur hann vísað þar til frásagnar blaðsins í júlílok þar sem staðhæft var að innanríkisráðherra hefði átt í samskiptum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu „um rannsókn á meðferð trúnaðarupplýsinga úr innanríkisráðuneytinu á sama tíma og rannsóknin var í gangi“.
Stjórnskipunarnefnd með málið í sigti
Til haga skal haldið að áður hafði málið verið tekið fyrir í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Það gerðist í desember 2013 og rúmum fjórum mánuðum síðar, í maí mánuði 2014 var fært til bókar í nefndinni að málið væri að öllum líkindum svo alvarlegt að það hlyti að koma til kasta nefndarinnar. Þegar hins vegar embætti umboðsmanns Alþingis ákvað að taka málið til rannsóknar var sjálfgefið að nefndin myndi halda að sér höndum meðan á þeirri rannsókn stóð enda fyrirsjáanlegt að ella myndi embætti umboðsmanns láta af sinni rannsókn.
Umboðsmaður fái eðlilegt svigrúm
Í því sambandi var m.a. horft til sambærilegs fordæmis frá Danmörku frá því í lok níunda áratugar síðustu aldar en lyktir urðu ekki í því máli fyrr en líða tók á tíunda áratuginn. Í svokölluðu Tamílamáli, sem laut að málefnum innflytjenda frá Sri Lanka, var dómsmálaráðherra Danmerkur sakaður um greina rangt frá í þinginu. Umboðsmaður danska þingsins hóf rannsókn en lét af henni þegar þingið tók málið upp. Þetta vildu nefndarmenn Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis ekki að henti í þessu máli enda hefur umboðsmaður Alþingis það lögskipaða hlutverk að sinna eftirlitshlutverki gagnvart stjórnsýslunni fyrir hönd Alþingis og eðillegt að hann fái ótruflað svigrúm til að sinna því hlutverki sínu.
Rangfærslur á þingi þarf að leiðrétta
Út af standa ýmsir aðrir þættir þessa máls og þá til dæmis hvort fyrrum ráðherra vilji hafa sama hátt á gagnvart Alþingi og gert var gagnvart embætti umboðsmanns og leiðrétta fyrri staðhæfingar á þingi en þess er að geta að þingmenn sem hreyfðu málinu í sölum Alþingis á málefnalegan og yfirvegnaðan hátt voru sumir hverjir sakaðir um annarlegar hvatir og að taka þátt í pólitískri aðför að ráðherra.
Alþingi eflir aðhaldshlutverk sitt
Embætti umboðsmanns Alþingis hefur tvímælalaust með þessari rannsókn enn sannað gildi sitt og treyst sig í sessi sem einn af hornsteinum opins lýðræðisþjóðfélags sem við viljum flest að hér sé við lýði. Sömuleiðis er Alþingi jafnt og þétt að efla eftirlitshlutverk sitt. Þar gegnir Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd veigamiklu hlutverki.
Spurning til fjölmiðlafólks
Lekamálið hefur vakið ýmsar spurningar um ábyrgð stjórnmálamanna, stjórnsýslunnar og fjölmiðlanna. Við hljótum að spyrja hvort fjölmiðill sem býr yfir upplýsingum um að heimildarmaður segi ekki rétt frá og varpi þar með grun á saklaust fólk, hafi skyldur gagnvart honum á kostnað sannleikans. Getur þetta verið svo?
Fjölmiðlar og fjármagn
Mikilvægt er að allir þeir aðilar sem hafa aðhalds- og eftirlitshlutverki að gegna standi sína vakt. Það er vissulega áhyggjuefni hvernig eignarhaldi á fjölmiðlum er háttað og virðist enn sækja í einokunarfarveg. Á sama tíma og ég lofa fjölmiðla fyrir árvekni í þessu tiltekna máli er ástæða fyrir okkur sem hrærumst í fjölmiðlaheiminum að hafa auga með samspili fjölmiðla og eigendafjármagns.