Fara í efni

LESENDUR DV EIGA BETRA SKILIÐ!

DV
DV

Birtist í DV 25.01.10.
Einhvern veginn finnst mér að lesendur DV eigi annað og betra skilið í umfjöllun um Icesave en greinar blaðamannanna Jóhanns Haukssonar og Vals Gunnarssonar á undanförnum vikum. Í stað málefnalegrar greiningar eru endalausir palladómar um einstaklinga og stjórnmálaflokka. Innihaldsrýrir, en þeim mun rætnari. Sjálfur hef ég fengið vel útilátna skammta. Valur hafði það um undirritaðan að segja að hann hefði innibyggð svikagen sem vöknuðu til lífsins með reglulegu millibili og Jóhann er með þá fullyrðingu stöðugt á lofti bæði í DV og á bloggsíðu blaðsins að sami maður sé bæði upptekinn af eigin hégóma og ógnvaldur við núverandi stjórnarsamstarf : "Svo langt hefur þú (og fleiri) gengið fram á bjargbrúnina í stjórnarsamstarfinu við jafnaðarmenn, að endrum og sinnum hefur stefnt í stjórnarslit þessarar fyrstu ríkisstjórnar jafnaðar- og vinstrimanna frá stofnun lýðveldisins. Með herhvöt á vörum um að bjarga velferðarkerfinu hefur þú gengið til verka. Ekki megi fórna því fyrir Icesave. Því stóðst þú ekki bara í lappirnar og settir undir þig hausinn þegar þú varst heilbrigðisráðherra? Stilltir persónu þinni utan við leiksviðið, lagðir kalt og hlutlægt mat á aðstæðurnar og hugsaðir: Koma tímar koma ráð. En nei. Þú strýkur Sigmundi Davíð og færð hrós á Morgunblaðinu og AMX. Varst þú nokkuð að halla þér að sjálfstæðismönnum ...?"

Lausnin að auka flokksræði?

Þetta er boðskapurinn í skrifum Jóhanns Haukssonar nú síðast í DV fyrir fáeinum dögum þar sem hann m.a. segir mig og fleiri varla "stjórntæka",  nokkuð sem hann síðan kórónar á vefsíðu með því að tala fyrir því að beita flokksræði á slíka kóna: "Meðan við höfum stjórnmálaflokka ættu þeir að bera ábyrgð á sínu fólki sjálfir. Ráðherrar eru settir af t.d. á Norðurlöndum vegna ákvarðana flokkanna sjálfra eða þrýstings frá þeim. Sumir eiga afturkvæmt eftir betrun og bót..."
Hvernig væri nú til tilbreytingar að reyna sig við málefnalega umræðu um Icesave og alla vega gera tilraun til að praktisera sjálfur hið margrómaða "kalda mat" ? Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um þjónustu við lesendur.
Eigum við til dæmis að fara í gegnum rök þeirra  sem véfengja greiðsluskyldu íslenskra skattborgara en telja á hinn bóginn að við kunnum að vera skaðabótaskyld vegna vanrækslu? Þetta varð afstaða Alþingis samkvæmt fyrirvörunum sem samþykktir voru í ágúst og aftur í desemberlok. Eigum við að leggja mat á mikilvægi þess að ná vöxtum niður fyrir íslenska skattgreiðendur og þar með velferðarkerfið? Eigum við að ræða þá möguleika sem nú gætu verið að opnast eftir að öllum varð heyrinkunn andspyrna þjóðarinnar gegn Icesave? Væri ekki fróðlegt fyrir lesendur DV að fá kynnigu á röksemdum Alains Liebitz, Michael Hudsons, Martin Wolfs, Evu Joly,.....og allra þeirra sem reyna nú að skapa Íslendingum betri færi í vörn og sókn?.

Hvernig væri að ræða málefnalega?

Vill Jóhann ræða tillögur sem ég flutti um að leita til utanaðakomandi sérfræðinga og sáttasemjara í aðdraganda þess að ég sagði af mér sem heilbrigðisráðherra? Eigum við að ræða þær röksemdir sem ég og aðrir hafa teflt fram í Icesave málinu? Gæti verið að það væri meira gefandi en palladómar og brigslyrði?
Jóhann Hauksson er sá blaðamaður sem ég hef lofsamað hvað mest á undanförnum árum fyrir upplýsandi skrif. Vonandi tekst honum að nýta betur sína góðu og ótvíræðu kosti í stað þess að liggja nánast í öngviti af skelfingu yfir því að alvöru umræða um brennandi mál samtímans valdi öldugangi á hinum pólitíska haffleti með tilheyrandi veltingi stjórnarskútunnar.
Ríkisstjórnir verða að þola gagnrýna umræðu - hvaðan sem hún kemur - að því tilskildu að hún sé málefnaleg. Ríkisstjórnir eiga ekki að vera í pólitískri gjörgæslu blaðamanna. Slíkt er engum til góðs.