LESIÐ Í ORÐ DÓMSMÁLARÁÐHERRA
Birtist í Morgunblaðinu 28.04.23.
Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að óska eftir viðtali við dómsmálaráðherra í kjölfar viðtals við hann í Morgunblaðinu laugardaginn 15. apríl um framtíð fjárhættuspila á Íslandi eða skrifa blaðagrein þar sem ég reyndi að ráða í yfirlýsingar ráðherrans. Ég valdi síðari kostinn vegna þess að ef ríkisstjórnin er í þann veginn að kynna okkur lagabreytingar á sviði fjárhættuspila þá er eðlilegt að opin umræða um málefnið hefjist sem fyrst.
Það sem þarf að ræða
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, er yfirleitt afdráttarlaus í svörum við fjölmiðla. Í umræddu viðtali talar hann hins vegar í véfréttarstíl þegar hann segir í upphafi að verið sé að meta ”hversu langt (sé) hægt að ganga í þessum efnum.”
Hvaða efnum; hve langt og í hvaða átt? Þetta er þá viðfangsefnið sem þarf að lesa í og skilja – og í kjölfarið ræða.
Blaðamaður Morgunblaðsins minnir á að miklar upphæðir fjár renni úr landi inn á erlendar vefsíður spilavíta og að þar séu íþróttaveðmál sífellt fyrirferðarmeiri.
Þarna er ráðherra vel með á nótunum, segir ekki hafi náðst samstaða í starfshópi um málefnið en hann hafi hitt “hagsmunaaðila” og að “samtal (sé) í gangi um það hvernig framtíðarskipanin verður”; verið sé “að undirbúa þingmál fyrir haustið,“ en ótímabært sé að ræða hvernig löggjöfin verði útfærð: „Það liggur ekki fyrir hvaða leið við munum fara. Þó er ljóst að það verður að gera ákveðnar breytingar, bæði til að jafna samkeppnisaðstöðu innlendra aðila og til að opna fyrir meiri nútímavæðingu í þessu.“
Tekið skal fram að ráðherrann lætur þess getið að taka þurfi tillit til veikleika fólks sem fer “lengra en það ætlar sér” en að sama skapi þurfi að verja “hagsmuni innlendu aðilanna, þessara mikilvægu samtaka sem standa í þessum rekstri.”
Þar höfum við það. Allt þetta þarf þá að ræða og meira til því þessi mál eru að taka örum breytingum um allan heim sem kalla á ný úrræði.
Gamlar tillögur
Árið 2013 lagði undirritaður fram frumvarp um að sett yrði á laggirnar sérstök eftirlitsstofnun, Happdrættisstofa, til að hafa eftirlit með spilaiðnaðinum sem velti þá þegar milljörðum króna. Jafnframt var kynnt sú framtíðarsýn að allur rekstur sem tengdist fjárhættuspilum yrði settur undir sama hatt líkt og gert hafði verið í Noregi en þetta þýddi að ekki yrði um að ræða samkeppni á milli rekstraraðila um að innleiða sífellt ágengari spilavélar eins og raunin væri hér á landi. Þá yrðu skorður reistar við netspilun og aftur var horft til þeirra þjóða sem vildu slíkt. Hugmyndin var sú að netspilun yrði leyfisskyld en sú starfsemi sem ekki heyrði undir íslensk lög alfarið bönnuð.
Frumvarpið um Happdrættisstofu dagaði uppi í þinginu þótt ég hefði flutt það í nafni ríkisstjórnar. Það er mín skoðun að hver svo sem framtíð fjárhættuspila verður á Íslandi þurfum við á slíkri stofnun að halda til að hafa eftirlit með happdrættum. Sá hluti starfseminnar, hin hefðbundnu happdrætti, sem eru að því er ég veit best óumdeild, þurfa á eftirliti að halda.
Gæta þarf að því að þeir sem hafa fjárhagslega hagsmuni af rekstri hvers kyns happdrætta komi hvergi nærri stjórnun slíkrar stofnunar enda kennir reynslan að fjárhagslegir hagsmunir lama dómgreind og slæva siðgæðisvitund.
Úrelt sjónarmið – breyttir tímar
En þótt eitthvað nothæft standi eftir í þessum tillögum mínum þá hefur engu að síður komið á daginn að þau sjónarmið sem ég hélt á lofti á árum áður eru sum úrelt orðin og eiga því ekki lengur við.
Á þeim tíma sem liðinn er hefur komið í ljós á enn afdráttarlausari hátt en fyrir lá, hve gríðarlega skaðleg þessi starfsemi er og að við megum engan tíma missa til að losna algerlega við þessa óværu. Áfangana sem ég boðaði eigi með öðrum orðum, að því er ég tel nú, að taka í einu skrefi: Blátt bann.
Hvað spilakassana áhrærir þá eru það fyrst og fremst þeir sem haldnir eru veikleika spilafíknar sem eru helsta tekjulindin. Og þeir sem gera út á þessa veikleika eru “hagsmunaaðilarnir” sem Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra á nú í viðræðum við. Hann segir það vera hlutverk stjórnvalda að verja stöðu þeirra. Það getur ekki þýtt annað en að þeir skuli áfram eiga tryggan aðgang að uppsprettu fjárins, vösum þess fólks sem haldið er veikleikum spilafíknar.
Því fer fjarri að Jóni Gunnarssyni verði kennt um hvernig komið er því það á við um alla ríkisstjórnina að hún hefur ekki sýnt snefil af ábyrgðarkennd í þessu efni. Það hefur þjóðin hins vegar gert því samkvæmt yfirgripsmikilli könnun sem Gallup gerði á þjóðarviljanum fyrir fáeinum misserum vill yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga banna spilakassa og nokkrir aðilar sem haft hafa drjúgan ávinning af þessum vítisvélum hafa úthýst þeim úr sínum húsakynnum. Minnist ég fjölskyldu sem rekur greiðasölu í Þorlákshöfn sem sagði að þrátt fyrir gróðann vildu þau ekki slíkar vélar í sínum húsum, þau hefði séð nóg af óhamingjunni sem þeir sköpuðu.
Nei við netspilun
Þá eru það netspilin. Þau eru orðin mjög samtvinnuð veðmálum í íþróttum sem áður segir og sem slík verulegt áhyggjuefni víða um lönd. Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnuhetja, sem þekkir spilafíkn af eigin raun, sagði í viðtali nýlega að hann fagnaði því að bresk knattspyrnuhreyfing hefði ákveðið að banna auglýsingar veðfyrirtækja á búningum leikmanna.
Þróunin í Bretlandi ætti að verða öllum víti til varnaðar, einnig íslenskum stjórnvöldum sem eiga ekki að horfa framhjá því að þessi rekstur er þegar orðinn að veruleika hér á landi og er ekki annað að skilja en að innlendu “hagsmunaaðilarnir” hafi nú helst augastað á netgróðanum; vilji helst útiloka erlenda aðila á íslenska “markaðnum” til að geta setið einir að bráð sinni.
En hvað þá með fyrri hugmyndir um að heimila leyfisskylda netspilun? Ef við í alvöru viljum horfa til þeirra sem gerst þekkja þá er eins og nú er komið ekki um annað að ræða að mínu mati en að taka algerlega fyrir alla netspilun. Það þarf ekki annað en að horfa til þess sem íslenska íþróttahreyfingin leyfir sér að gera með hvatningu til fólks, ungra sem aldinna, um að leggja peninga undir til að setja spennu í leikinn!
Þeir hagsmunaaðilar sem stjórnvöld ættu fyrst og fremst að hlusta á eru að sjálfsögðu samtökin sem horfa til þeirra sem á endanum borga brúsann. Það eru Samtök áhugafólks um spilafíkn. Þau samtök hafa talað fyrir banni en jafnframt sérhæfðum meðferðarúrræðum fyrir það fólk sem ánetjast hefur spilafíkninni. Sú meðferð er ekki til hér á landi og ætti heima innan almenna heilbrigðiskerfisins.
Ég hef lagt mig eftir því að fylgjast með fréttum af þessu málefni um langt skeið. Nú þykir mér skyndilega engu líkara en að auglýsingastofa sé farin að hanna tiltekna atburðarás og er hún þessi: Rekstraraðilar reyna að læsa sig saman, fallast á málamynda tilslakanir með spilakortum, bann gegn erlendum veðmálasíðum, eða öllu heldur að banni sem er við lýði verði framfylgt, en innlendum aðilum gert kleift að sitja einir að “markaðnum”. Síðan verði eitthvert fjármagn látið renna til SÁÁ til að veita “meðferð” og allir brosa og eru sáttir.
Auglýst eftir afstöðu
Svo er alltaf annað veifið látið heyrast að þegar allt kemur til alls þá sé þetta bara græskulaust gaman þótt einhverjir ráði ekki við sig í þessu mikla gamni.
En þá kemur mér í hug spurningin sem formaður Áhugafólks um spilafíkn einhvern tímann varpaði fram, hvort þeir sem þannig töluðu fari einhvern tímann sjálfir í Casínó Háskóla Íslands eða spilasali Rauða kross Íslands og Landsbjargar með fjölskylduna á sunnudegi til að eiga þar ánægjulega gleðistund.
Að sjálfsögðu ekki. Það gerir einvörðungu það fólk sem er ekki sjálfrátt gerða sinna.
Ég auglýsi nú eftir því að fulltrúar Háskóla Íslands, Rauða kross Íslands, Landsbjargar og SÁÁ leggi orð í belg um fyrirhugaðar breytingar á lögum um spilamarkaðinn.