LEYFIST AÐ SPYRJA UM LEIÐTOGA?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 19/20.11.22.
Hvernig lögum við meinsemdirnar sem herja á mannkynið, með leiðtogum eða lýðræði? Leiðtogarnir segja eflaust að þetta sé nátengt enda séu þeir sjálfir afurð lýðræðisins, kjörnir til að leiða þá sem kusu þá til valda. Þetta þykjast þeir hafa umboð til að segja hvort sem þeir heita Pútin, Biden, Trump eða Bjarni Ben.
En lýðræðið er flóknara en þetta. Þannig hlýtur það að vera umhugsunarvert að þeir sem kosnir eru til valda gera að afloknum kosningum sjaldnast það sem hugur almennings stendur til og lofað var fyrir kosningar. Eða hve margir skyldu vilja stjórnarhætti sem viðhalda fiskveiðikerfi sem færir tilteknum einstaklingum í reynd prívat eignarhald á auðlindum sjávar, áhættubröskurum banka á silfurfati, gera olíufélag að óþörfum millilið í sölu á orku sem er sameiginleg eign landsmanna og býður út líknardeild á Vífilstöðum?
Þarna ráða greinilega önnur öfl ferðinni en hin lýðræðislegu.
En leiðtogarnir, sem kalla sig svo, vilja náttúrlega fá að vera alvöru leiðtogar. Í breska þinginu er til embætti sem heitir “whip”, svipan. Og samkvæmt orðanna hljóðan beitir “whip” svipunni á flokksmenn á þingi svo þeir hlýðnist leiðtogum þar. Fyrir fáeinum árum uppnefndi tiltekinn íslenskur forsætisráðherra þau úr stjórnarmeirihlutanum ketti sem ekki dönsuðu samkvæmt fyrirskipaðri línu. Samlíkingin var sú að köttum væri erfitt að smala og því væri þetta réttnefni um þau sem ekki hlýðnuðust smalanum. Þetta reyndist náttúrlega vera óheppileg samlíking því nú leituðu menn víðar í dýraríkinu að samlíkingu við þá sem væru smalanlegir og fundu fyrir sauðina sem létu vel að stjórn.
Og þá aftur að meinsemdum heimsins; hvort fyrirkomulagið sé betra, öflugur leiðtogi með sína svipu og sauðahjörð eða lýðræði sem byggir á því að virkja almannaviljann; þar sem horfið er frá hjarðmennskunni og leitoganum gefið frí.
Leiðtogahyggjan hefur heldur verið að styrkjast á undanförnum árum og þá á kostnað þess lýðræðis sem við viljum held ég flest sjá, nefnilega frelsi til skoðana og tjáningar, að almannavilji sé virtur, að stjórnmálamenn geri það sem þeir gefa sig út fyrir að vilja fyrir kosningar, að engum sé gert að vera sauður í hjörð.
Nýlokið er enn einni ráðstefnu kvenleiðtoga í Reykjavík. Þessar ráðstefnur ákváðu ríkisstjórn og Alþingi fyrir okkar hönd að skattgreiðendur skyldu fjármagna um eitthvert árabil. Þarna koma saman leiðtogar, fyrrverandi, núverandi og vafalaust líka tilvonandi leiðtogar því að ein af röksemdum fyrir því að hampa kvenleiðtogum er að gefa stúlkum þá mynd að konur ekkert síður en karlar eigi að stýra heiminum. Hér á landi var þetta ágæt röksemd fyrir nokkrum áratugum, jafnvel aðeins fáum árum. Þannig hafði það án efa mikil og jákvæð áhrif á sjálfsmynd íslenskra stúlkna þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörinn forseti Íslands.
Að sama skapi eru íþróttir að taka miklum breytingum af nákvæmlega sömu rót. Stúlkur eru blessunarlega að fá viðurkenningu á borð við strákana þótt enn sé langt í land. Alllt er þetta prýðilegt. Nema ég er ekki tilbúinn að skrifa upp á hugmyndina um leiðtogann og gildir þá einu hvort um er að ræða karl eða konu.
Leiðtogadekur er ekki bara hvimleitt og bjánalegt heldur beinlínis skaðlegt. Leiðtogar vita sem er að til að þeir fái þrifist sem slíkir þurfa þeir hjörð í kringum sig. Sú hjörð þarf síðan að gerast gagnrýnislaus á gjörðir leiðtogans og fyrr en varir er lýðræðið fyrir bí – óhætt að leiða almannaviljann hjá sér. Útboð á líknardeild og óþarfa prívat milliliður í orkugeira sem við eigum öll sameiginlega gengur nú upp.
Ekki hef ég skoðað leiðtogana sem hér voru að þinga fyrr í mánuðinum en fróðlegt væri að vita hvað þessir leiðtogar hafa gert annað en að kallast leiðtogar. Hafa þessir leiðtogar leitt þjóðirnar til farsældar og þá hvernig eða hafa þeir reynst eftirsóknarverðar fyrirmyndir annarra með dygðugu lífi sínu?
Ég þykist vita að einhverjum finnist það vera ótilhlýðilegt að spyrja. En þar sem ég borga brúsann þá ætla ég nú samt að leyfa mér að gera það.