Leyndarmál Guðjóns Ólafs Jónssonar
Í dag fóru fram utandagskrárumræður á Alþingi um skort á skattskilum Impregilo og undirverktaka við Kárahnjúka. Steingímur J. Sigfússon hóf umræðuna fyrir hönd Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs en Geir H. Haarde, fjármálaráðherra var til svara. Reyndar var hann ekki einn um að vilja svara. Varaþingmaður Framsóknarflokksins Guðjón Ólafur Jónsson vakti athygli allra sem viðstaddir voru, fyrir ákafa sinn. Kvað hann umræðuna sprottna upp úr óánægju þingmanna VG með framkvæmdir við Kárahnjúka og væri markmiðið að skrumskæla veruleikann. Eitthvað hefur Guðjón Ólafur fylgst illa með, því langt er síðan upplýst var að skattar væru ekki greiddir eins og lög gera ráð fyrir af launum til erlendra starfsmanna við Kárahnjúka. Oddur Friðriksson, aðaltrúnaðarmaður á svæðinu greindi frá þessu í haust en það er fyrst núna að yfirvöld rumska.
En það er víðar pottur brotinn en í skattamálum. Þannig er til skammar hvernig búið hefur verið að verkafólkinu. Nú eru jafnvel taldar líkur á að nánast allt íbúðarhúsnæði á svæðinu verði lýst óíbúðarhæft ef að nýju gerir mikil veður eins og nú um daginn og í ljós kemur að ekki hafi tekist að kítta upp í rifur og hindra leka eins og varð í nær öllu íbúðarhúsnæði á svæðinu. Þetta bentu talsmenn verkalýðshreyfingarinnar á að væri fyrirsjáanlegt þegar húsnæðið var reist síðsumars: Þá var staðhæft af þeirra hálfu að þetta húsnæði myndi ekki standast íslenskar aðstæður. Nú hefur sannast að þeir höfðu rétt fyrir sér.
Á fundi sem þingflokkur VG átti í dag með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar var farið yfir þessi mál. Þar bar einnig á góma margvísleg brot á samningum, óboðlegar vinnuaðstæður og einnig var kvartað yfir því að reglur um starfsréttindi væru ekki virtar. Þetta var öllum þingmönnum VG ofarlega í sinni þegar utandagskrárumræðan hófst. Hefðu margir viljað rýmri tíma til að ræða um ábyrgð íslenskra eftirlitsstofnana svo sem Vinnueftirlitsins, sem á að fylgjast með aðbúnaði og hollustuháttum, að ógleymdum starfsréttindunum. Það verður að bíða betri tíma.
Að loknum umræðunum í furðuðu menn sig á hamagangi Framsóknarmanna og hversu langt þeir gegngu í að réttlæta allt stórt og smátt við Kárahnjúka. Það er engu líkara en þeir séu sakbitnir, varð einhverjum á orði. "Það er ekkert undarlegt hvað Guðjón Ólaf Jónsson áhrærir," sagði þá annar, "hann er jú formaður stjórnar Vinnueftirlits ríkisins."