Fara í efni

LÍFEYRISKERFIÐ ÞARF AÐ STOKKA UPP

DV -
DV -

Birtist í DV 20.02.12.
Sl. fimmtudag fór fram umræða á Alþingi um nýútkomna skýrslu um lífeyrissjóðina. Almennt þótti mér umræðan góð. Margir vildu skilja fortíð til að byggja á nýja framtíð. Vonandi var þetta vísbending um vilja til  að læra af brotalömum í kerfinu, mistökum liðins tíma í lagasmíð og fjárfestingarstefnu. Forsenda þess að eitthvað gott komi út úr þessari naflaskoðun varðandi lífeyriskerfi framtíðarinnar er gagnrýnin og upplýst hugsun. En þá duga heldur ekki alhæfingarnar.

Meðvirknin söm við sig

Alhæfingarnar hafa hins vegar ekki látið á sér standa eftir að skýrslan kom út. Mér sýnist að því minna sem menn vita þeim mun alhæfingarsamari verði þeir. Þannig var að skilja á stöku þingmanni við umræðuna á fimmtudag að vandi lífeyrissjóðskerfisins væri sá einn að allir stjórnarmenn í öllum lífeyrissjóðum hefðu verið „bullandi meðvirkir" í arfavitlausri fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna. Þetta var í góðum samhljómi við þær raddir sem nú heyrast að allir þeir sem enn sitja í stjórn lífeyrissjóða og voru þar fyrir hrun, eigi að hypja sig hið bráðasta því þeir hafi farið illa með fjármuni almennings. Einskorðist umræðan við þetta er hætt við að hún skili okkur afar litlu til framtíðar. Meðvirkni getur nefnilega birst okkur í ýmsum myndum, líka í því að taka gagnrýnislaust undir síðustu kennisetniguna sem fram er sett.

Tíu milljarðar á mánuði!

Íslenskir lífeyrissjóðir fjárfesta á ári hverju á bilinu 110-120 milljarða króna. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins fjárfestir þannig í mánuði hverjum um það bil tvo milljarða króna. Tvö þúsund milljónir! En hvar á að setja fjármunina svo þeir tapist ekki? Þetta er viðfangsefnið sem verður að ræða og er jafn nauðsynlegt að takast á við, burtséð frá því hverjir sitja í stjórn lífeyrissjóðanna. Ef menn trúa því, sem ég geri, að vandinn sé kerfislægur þá verður hann ekki  leystur með því að skipta um áhöfn. Þar þarf annað og meira að koma til.
Samkvæmt lögum mega lífeyrissjóðirnir ekki fara með meira en helming eigna sinna út fyrir landsteinana. Eftir standa þá að lágmarki 60 milljarðar sem beina þarf inn í fjárfestingu hér á landi. Ekki bara einhverja heldur fjárfestingu sem skilar verulegum og varanlegum arði. Að öðrum kosti rís sjóðaleiðin ekki undir sjálfri sér.

Rostungur í baðkari

Á árunum í aðdraganda hrunsins gáfu ríki og sveitarfélög út takmarkað magn af skuldabréfum. Þá var ekki annað að gera en að snúa sér til markaðarins en lögum samkvæmt máttu sjóðirnir aðeins fjárfesta í skráðum félögum - eðlilega. Á okkar litla landi var ekki um mjög auðugan garð að gresja fyrir risafjárfestingar lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins var einhverju sinni líkt við rostung í baðkari. Nokkuð er til í því, þegar litið er til umfangsins, annars vegar fjárfestinganna og hins vegar okkar agnarsmáa hagkerfis.
Á árunum upp úr aldamótum fjárfestu lífeyrissjóðirnir um 30% eigna sinna  í hlutabréfum og skuldabréfum öflugustu fyrirtækja landsins, almennt í samræmi við stöðu þeirra í Úrvalsvísitölunni.
Stærst voru fjármálafyrirtækin en síðan var reynt að leita jafnvægis hjá öflugum frameliðslufyrirtækjum: Össuri, Marel, Bakkavör og fleirum.

Rökstuddum grun um misferli eytt

Síðar kom á daginn hve feyskið kerfið allt var og hve víða það byggði á sviksemi. Mikilvægt er að rökstuddum grunsemdum um misferli verði svarað með viðeigandi rannsókn. Það er mikilvægt allra vegna, ekki síst þeirra sem sjálfir tengjast eða hafa tengst þessu kerfi og kæra sig ekki um að sitja undir órökstuddum dylgjum. Sjálfur hef ég sannfæringu fyrir því að okkar smáa hagkerfi rísi ekki undir því fyrirkomulagi sem við höfum smíðað og að við verðum að endurskoða sjálfan grunninn. Í því sambandi er vert að íhuga að smæð hagkerfis okkar er ekki einn áhrifavaldur. Þessa dagana erum við að verða vitni að fallvaltleika á kauphallarmörkuðum víðs vegar um heiminn.

Nýtt fyrirkomulag

Við umæðuna á Alþingi setti ég fram tillögu að slíkum umræðugrundvelli, með nýrri blöndu almannatrygginga og sjóða. Ég tel að minnka þurfi sjóðshluta kerfisins, hverfa frá áformum um að láta lífeyrissjóði alfarið taka yfir hlutverk almannatrygginga hvað varðar lífeyri og hugleiða nýja tekjustofna sem ætla má að verði viðvarandi til framtíðar. Þar kæmi helst til álita Auðlindasjóður sem rætt er um að koma á laggirnar. Nú þurfum við á nýhugsun að halda. Kerfið í sinni núverandi mynd þarf að taka breytingum svo það verði traustara auk þess sem mikilvægt að þannig sé búið um hnútana að ævisparnaði okkar sé þannig varið að hann gagnist sem allra best til samfélagslegrar uppbyggingar.