Fara í efni

LÍFEYRISSJÓÐIR Á VILLIGÖTUM


Þegar ég sat í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR, var reglulega rætt um vexti enda tekin um um það ákvörðun í stjórn hvaða vexti lán sjóðsins ættu að bera hverju sinni. Ekki voru menn alltaf sammála í þessu efni. Af minni hálfu var því sjónarmiði jafnan haldið á loft að okkur bæri að halda vaxtastiginu eins lágu og við treystum okkur til enda lífeyrissjóðurinn áhrifavaldur á fjármálamarkaði.

Rökin voru þessi: Lífeyrissjóðunum gæti aldrei vegnað betur en ríkissjóði og atvinnulífinu, einfaldelga vegna þess að þangað þyrfti sjóðurinn að sækja geymd réttindi þegar á þyrfti að halda; til heimila sem tekið hefðu lán hjá sjóðnum, í ríkisbréfin og í eignarhluti í atvinnufyrirtækjum. Þessum aðiljum mættum við aldrei ofgera með of háum vöxtum. Handhafar fjármagnisins yrðu að gæta hófs. Hraus mér hugur við því í hve miklum mæli fjármagn var flutt frá heimilum og verðmætaskapandi atvinnurekstri  yfir til fjármagnseigenda.

Víðast hvar erlendis er það látið gerast þegar kreppir að í efnahagslífinu, að hagstærðir eru rýrðar. Það er gert markvisst. Vextir eru keyrðir niður og verðbólgan étur síðan niður höfuðstólinn. Þetta á hins vegar ekki við hér á landi. Vísitölubindingin veldur því.

Nú bregður svo við þegar kallað er til þjóðarátaks til að létta á skuldaklafanum að lífeyrissjóðirnir ganga fram fyrir skjöldu og segja að lækkun vaxta sé eignaupptaka sem stangist á við stjórnarskrá! Síðast heyrði ég Bjarna Þórðarson, tryggingastærðfræðing,  hafa uppi svona boðskap í Spegli RÚV.  Af þessum sökum yrðu lífeyrissjóðirnir að standa til hlés, sagði hann.

Ég ætla að leyfa mér að vera þessu algerlega ósammála. Í fyrsta lagi erum við að tala um verðtryggð lán með vöxtum í ofanálag. Í öðru lagi er ákvörðun um vaxtaprósentuna mannanna verk og jafnan mikið álitamál hvert vaxtastigið eigi að vera. Þegar vextir hafa verið of háir sem greinilega hefur verið um skeið, því þeir eru umfram greiðslugetu, þá er eignaupptakan á hinn veginn ef menn yfirleitt vilja nota slík hugtök. Ef okkur tekst með vaxtalækkun að hjálpa skuldsettum heimilum og fyrirtækjum og örva greiðslugetu þeirra þá mun það ekki veikja lífeyirssjóðina til frambúðar heldur styrkja þá. Efnahagslega er þetta því skynsamlegt.

Félagslega er þett ekki bara skynsamlegt heldur lífsnaðsyn. Lækkun fjármagnskostnaðar límir þjóðfélagið betur saman, tryggir sátt og stuðlar að samlyndi. Voru lífeyrissjóðirnir ekki skapaðir til þess? Að bæta lífskjörin og efla jafnaðasamfélagið? Ég stóð í þeirri trú.
Menn mega ekki láta ímynduð efnahagslögmál bera skynsemina ofurliði.