LÍMDUR VIÐ HALLGRÍM
Ég ákvað að njóta lífsins til fulls í dag. Drakk heitt súkkulaði, skrifaði á nokkur jólakort, hlustaði á Mozart og Ragga Bjarna, leit við í Kringlunni hjá þeim Sæma Rokk og Ingólfi Margeirssyni, gömlum vini og skólabróður, þar sem þeir undirrituðu nýútkomna bók sína. Síðan var það Hallgrímur okkar Pétursson, sálmaskáldið mikla. Í nýútkominni skáldsögu Úlfars Þormóðssonar um ævi Hallgríms - sem ég reyndar var búinn að óska mér í jólagjöf - en gafst upp á að bíða - er dregin upp ljós mynd af aldeilis mögnuðum manni. Ég opnaði Hallgrím í dag - og límdist samstundis við hann.
Úlfar Þormóðsson þekki ég af góðu. Fáa menn hef ég eins gaman af að tala við og Úlfar, svo góður er hann sögumaður. Frábær penni. Í bókinni um Hallgrím nýtur Úlfar sín til fulls. Og þeir báðir. Kærar þakkir.