LISTAMAÐUR Á HEIMSMÆLIKVARÐA
28.05.2012
Kannski er ekki við hæfi að segja að listamaður sé óborganlegur. Það á þó við um Bernd Ogrodnik, leikbrúðuhönnuð með meiru. Hann hefur nú fært sögu Ernst Hemingways, Gamli maðurinn og hafið á svið í brúðusýningu í Þjóðleikhúsinu (Kúlunni) og var frumsýningin á laugardag í tengslum við Listahátíð. Sýningin er listilega gerð. Handrit, brúðugerð, sviðsmynd og flutningur er höndum Bernds Ogrodniks en leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson.
Raddir, sviðsmyndir, hljóð og ljós, allt frábærlega vel gert.
Óborganlegur segi ég, en kannski óborgaður. Alla vega voru þau hjón Hildur Magnea Jónsdóttir og Bernd Ogrodnik sem ráku Brúðuheima í Borgarnesi tilneydd til að loka og flytja af landi brott - alla vega um stundarsakir. Á meðan hljótum við sem fyllum raðir fjárveitingavaldsins að íhuga hvað þarf til að ílendast hér á landi með eins frábæra starfsemi og Brúðuheima. Mín tilfininng var sú að hreiðrið sem þau hjón höfðu gert sér í Borgarnesi fyrir þessa starfsemi hafi verið „góður staður" til að vera á, einsog segir í auglýsingunni.
Sjá nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/kraftaverkafolk-i-borgarbyggd
Tinna Gunnlaugdóttir, leikhússtjóri, tjáði mér að samningur hefði verið gerður um reglulegar sýningar Bernds í Þjóðleikhúsinu á komandi misserum. Það þóttu mér góðar frétir. En betur má ef duga skal.
Aftur að sýningunni, Gamli maðurinn og hafið. Þar er þemað líf gamals manns sem heyr einn á báti - í orðsins fyllstu merkingu - bárattu fyrir lífsbjörginni úr sjávardjúpinu.
Eftrifarandi segir í sýningartexta: „Hið sígilda stef um manninn sem þarf að kljást við náttúruöflin og sýna hugrekki og dug við lífshættulegar aðstæður, á sér samhljóm meðal Íslendinga enda segir sagan að Hemingway hafi fundið innblástur fyrir bókina við lestur meistaraverks Gunnars Gunnarssonar, Aðventu, sem skrifuð var árið 1933 og var síðar þýdd yfir á ensku."
Ekki hafði ég heyrt þetta áður og þótti fróðlegt. Varð þetta mér tilefni til að lesa Aðventu, Gunnars Gunnarssonar, sem reyndar hefur verið í uppáhaldi hjá mér, áhrifarík og eftirminnileg saga, sem venja hefur verið að lesa í Ríkisútvarpinu á aðventunni.
Í Aðventu segir frá svaðilför þríeykisins, bóndans Benedikts, hundsins Leós og hrútsins Eitils, upp í örævin á aðventu. Sagan byrjar þannig: „Þegar hátíð fer í hönd búa menn sig undir hana hver á sína vísu. Það getur gerzt á margan máta. Benedikt hafði sinn hátt á því sem öðru. Hann var sá, í byrjun jólaföstu, helst á sjálfan aðventusunnudag ef veður leyfði, lagði hann upp ... á fjarlægar fjallaslóðir þar sem um þetta leyti árs var ekki annað kvikt á ferli en harðgerðir ránfulgar, refir og einstöku eftirlegukindur, sem leitarmönnum hafði sézt yfir í síðustu göngu og nú ráfuðu milli snapanna í reiðuleysi. Það voru þessar flökkukindur sem hann var á höttunum eftir, þær skyldu ógjarna krókna eða horfalla á heiðum uppi af þeirri einni ástæðu að enginn nennti eða treysti sér til að leita þeirra og bjarga þeim til byggða. Einnig þetta voru lífverur, skepnur gæddar lífi og blóði, og það hafði æxlast svo að hann bar eins konar ábyrgð á þeim. Það sem fyrir honum vakti var einfaldlega að finna þær og koma þeim heilu og höldnu undir þak áður en hátíðin mikla færðist yfir frónið kalda..."
Í einræðu gamla mannsins hans Hemingways, sem átti sér þann draum að veiða stórfiska sjávarins, var virðingin og væntumþykjan fyrir bráð veiðimannsins og lífi sjávarins sem rauður þráður. Vissulega var þarna samnefnara að finna.
En upp úr stendur hinn óborganlegi en kannski (að hluta til) óborgaði leikbrúðulistamaður, Bernd Ogrodnik, en enginn vafi leikur á að þar er á ferð listamaður á heimsmælikvarða.
Honum og öðrum aðstandendum sýningarinnar Gamli maðurinn og hafið, færi ég þakkir.