Fara í efni

LÍTIL FRÆÐI Í SAGNFRÆÐI GUÐNA

Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson skrifar í Fréttablaðið í dag og gerir grein fyrir sinni sýn á forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar. Þar víkur hann sérstaklega að Icesave samningunum. Ekki þykja mér skrif Guðna endurspegla skilning á því máli. Fjarri lagi.  

Hann segir:  ,,Línur í Icesave-deilunni hafa ætíð markast af því hvort menn sitja í stjórn eða stjórnarandstöðu. Sjálfskipaðir sigurvegarar munu reyna að skrá söguna og eru reyndar byrjaðir á því. En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu þegar upp er staðið. Til þess eru staðreyndirnar of skýrar. Þetta á líka við um forsetann. Valdhöfum í Lundúnum og Haag má hann þakka fyrir að hafa losnað úr Icesave snörunni. Þeir neituðu að samþykkja fyrirvara Alþingis og því þurfti að semja upp á nýtt."

Í fyrsta lagi er það rangt að afstaða til Icesave samninganna hafi alltaf farið eftir flokkspólitískum línum. Í Vinstrihreyfingunni grænu framboði voru á Icesave-tímanum nokkrir þingmenn andvígir samningunum og einn ráðherra sagði af sér embætti af þessum sökum. Þetta er söguleg staðreynd sem ekki verður horft framhjá. Allra síst af hálfu sagnfræðings.

Í öðru lagi endurspeglar það mikið skilningsleysi á málinu að tala um að Bretar og Hollendingar hafi skorið forsetann niður úr „Icesave snörunni" með því að samþykkja ekki fyrivara Alþingis sem settir voru eftir miklar deilur á þingi í sumarlok 2009. Á hvern hátt var forsetinn skorinn niður úr „Icesave snörunni"?

Það skyldi þó aldrei hafa verið þjóðin sem losaði úr snörunni Alþingi og þær ríkisstjórnir sem setið höfðu frá hausti 2008, beittar ítrekuðum þvingunum af Bretum, Hollendingum, Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þar liggja skýrar staðreyndir á borðinu.

Ef Guðni Th. Jóhannesson ætlar sér að skrifa fræðibækur um þessa atburði er ég hræddur um að hann þurfi að bæta þekkingu sína og þar með fræðin.

Þetta leyfi ég mér að segja með fullri virðingu fyrir honum og skrifum hans um ýmis efni.