Loftárásir nú og þá
Sjálfstæðisflokkurinn hefur núið Samfylkingunni því um nasir að vera ekki alltaf sjálfri sér samkvæm varðandi beitingu hervalds og er þá vísað annars vegar í gagnrýni á árásirnar á Írak og hins vegar í stuðning talsmanna Samfylkingarinnar við loftárásir Nató á Balkanskaga vorið 1999. Einar Ólafssson rithöfundur rekur ýmsar yfirlýsingar talsmanna Samfylkingarinnar um þessi efni og skoðar þær í ljósi aðdraganda að loftárásunum 1999 í grein sem í dag birtist í dálkinum Frjálsir pennar. Einar byrjar grein sína á því að fagna því að Samfylkingin gagnrýni árásarstríð Bandaríkjamanna og Breta á hendur Írökum og tek ég þar undir með honum. Einari finnst hins vegar nokkuð skorta á að málflutningur flokksins sé sannfærandi þegar fjallað er um atburðarásina vorið 1999. Einnig þar tek ég undir með Einari Ólafssyni.