LÖG Á ÁKVÖRÐUN KJARARÁÐS EÐA HINIR LÆGSTU FÁI MILLJÓN Á MÁNUÐI!
Lengi hef ég horft til þess að hjá hinu opinbera verði tekin ákvörðun um að hinn hæstlaunaði megi aldrei verða hærri en nemur þreföldum lægstu launum. Sjálfur gæti ég fallist á minna launabil en gott og vel, setjum svo að samkomulag næðist um þetta, en meira bil mætti það ekki vera. Ég hef oft um þetta fjallað og staðfest með þingmáli þessa efnis: https://www.ogmundur.is/is/greinar/varnarvisitala-laglaunafolks-komin-fram-a-althingi
Nú hefur Kjararáð ákveðið að hækka Alþingismenn um 44% eða tæpar þrjú hundruð og fjörutíu þúsund krónur á mánuði, þannig að þeir fái eina komma eina milljón í mánaðarlaun og ráðherrar tæpar tvær milljónir, forsætisráðherra rúmar tvær. Forseti Íslands sem efstur trónir fær tæpar þrjár milljónir í mánaðarlaun eftir þessa ákvörðun.
Samkvæmt fyrrgreindri reglu ættu lægstu laun núna því að fara í milljón á mánuði.
Okkur er sagt að verið sé að jafna kjörin á við dómara. En hvers vegna ekki jafna kjörin við lægst launuðu stéttirnar sem ríkið semur við, að ógleymdu því fólki sem þarf að reiða sig á almannatryggingarnar um lífsframfæri?
Hvað skyldu samtök atvinnurekenda segja um þetta? Vandinn er sá að þau samtök hafa varla siðferðilegan rétt á því að tjá sig um málið á meðan þau hafa á sínu fleyi hátekjufólk með langt umfram forsetalaunin í tekjur en eru engu að síður svo ósvífin að voga sér að sitja við samningaborð þar sem meginmarkmiðið er halda lágtekjufólki niðri eins og dæmin sanna úr kjaraviðræðum síðustu misserin.
Þessi ákvörðun grefur illilega undan samstöðu-samfélaginu ef ekki fylgja þegar í stað kjarabætur til hinna lægst launuðu.
Fyrsta verk Alþingis þegar það kemur saman á að vera að ráðast í stórfelldar kjarabætur til hinna lægstu ella verði þessari ákvörðun Kjararáðs snúið til baka með lagasetningu.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/01/jafna_laun_thingmanna_og_domara/
Sjá m.a. umfjöllun: http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/11/01/187718/