LÖGGÆSLA OG ALMENN ÖRYGGISGÆSLA Á HENDI OPINBERRA AÐILA
Birtist í Morgunblaðinu 23.12.06.
Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, ritar tilfinningaþrungna grein í Morgunblaðið þriðjudaginn 19. desember undir fyrirsögninni "Ósvífin hagsmunagæsla BSRB". Tilefnið er ályktun stjórnar BSRB þar sem fagnað er ákvörðun utanríkisráðuneytisins að færa undir sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli öryggisgæslu sem einkaaðila var í sumar veitt umboð til að annast. Þegar ákvörðun var tekin um þá ráðstöfun í sumar vakti það hörð viðbrögð frá almennum borgurum og stéttarfélögum, Landssambandi lögreglumanna, Tollvarðafélagi Íslands, auk BSRB sem færðu rök fyrir því að löggæsla og almenn öryggisgæsla ættu að vera á höndum opinberra aðila.
Slíka þjónustu vill Sigurður hins vegar láta bjóða út og þrýsta verðlagi þannig niður.
Arðsemiskrafa og fjárskortur stundum varasöm blanda
Yrði þetta til hagsbóta fyrir borgarann? Er sum opinber starfsemi og þá ekki síst löggæsla og öryggiseftirlit ekki einmitt þess eðils að vafasamt geti verið að undirselja hana markaðslögmálum? Markaðslögmálin eru víða góð til síns brúks en það á þó ekki alls staðar við. Það varð að minnsta kosti niðurstaðan varðandi eftirlit með öryggi járnbrautarlesta í Bretlandi. Jafnvel þótt strangar formlegar kröfur væru gerðar um öryggisstaðla sem slíkum eftirlitsaðilum var gert að fylgja varð veruleikinn annar þegar tvennt var virkjað saman: Að skapa eigendum viðkomandi fyrirtækis, sem sinnti eftirlitinu, eins mikinn arð og kostur var og um leið halda kostnaði í lágmarki. Þetta reyndist lífsháskaleg blanda enda voru alvarleg slys rakin beint til þessa kokteils.
Síðan er hitt að um opinbert öryggiseftirlit og almenna löggæslu gilda margvíslegar reglur og lög sem einkafyrirtæki eru undanþegin. Hvers vegna skyldu þessar reglur og þessi lög hafa verið sett? Ef þau eru óþarfi, hvers vegna ekki að afnema þau? Um þetta fjallaði 41. þing BSRB sem haldið var í október sl. og ályktaði m.a. eftirfarandi: "Um opinbera stjórnsýslu gildir ákveðinn lagarammi til að tryggja almannahag og í samræmi við það eru gerðar strangar kröfur til opinberra embættismanna á sviði löggæslu varðandi fagmennsku, menntun og hæfni." Í sömu ályktun er vikið að einkavæðingu öryggisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli og henni mótmælt með eftirfarandi rökum: "Slík öryggisgæsla hlýtur að falla undir starfsemi opinberra löggæsluyfirvalda sem hafa m.a. það hlutverk að halda uppi allsherjarreglu og tryggja öryggi íslenskra borgara á íslensku landsvæði. Þá má ekki gleyma því að meginmarkmið einkarekinna fyrirtækja er að skila hagnaði og er hætt við að slík sjónarmið ráði för við reksturinn. Það getur í þessu tilviki haft áhrif á öryggi þeirra borgara sem um Leifsstöð fara hverju sinni."
Þessari afstöðu reiðist framkvæmdastjóri SVÞ og segir hana vera "freklega móðgun og ósvífni" í garð starfsmanna þeirra einkafyrirtækja sem annast hafa öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli frá í sumar og er stjórn BSRB krafin "um afsökunarbeiðni" fyrir þeirra hönd, svo og fyrirtækja "og alls almennings".
SVÞ vill leggja niður störf opinberra starfsmanna
Hér snýr framkvæmdastjórinn öllu á hvolf. Um er að ræða starfsemi sem tekin var undan opinberum aðilum tímabundið. Sigurður Jónsson hvetur til þess í grein sinni að lengra verði gengið í slíku og því fylgt sem hann kallar "útvistunarstefnu ríkisins". Hún felur það væntanlega í sér að leggja niður störf opinberra starfsmanna og fela þau einkaaðilum í hendur. Þetta telur framkvæmdastjórinn greinilega heppilegri kost en að opinberir starfsmenn sinni þessum verkefnum. Móðgunargjörnum mönnum í opinberri þjónustu þætti þetta eflaust tilefni til þess að stinga niður penna og fara fram á afsökunarbeiðni. Það er þó fráleitt að persónugera málin með þessum hætti á hvorn vænginn sem er, hinn opinbera eða hinn einkarekna. Á báðum stöðum vinnur örugglega ágætt fólk, upp til hópa. Spurningin snýst hins vegar um fyrirkomulag, þau lög og þær reglur sem fólk starfar samkvæmt, þá menntun sem tilskilin er til að gegna tilteknum störfum og þau markmið sem stofnanir og fyrirtæki starfa samkvæmt. Þetta hefur ekkert með "lögun og innræti" einstaklinganna að gera eins og framkvæmdastjóri SVÞ talar um í grein sinni þegar hann gerir stjórn BSRB upp skoðanir.
Skynsamleg niðurstaða stjórnvalda
BSRB hefur komist að þeirri niðurstöðu að utanríkisráðuneytið hafi tekið skynsamlega stefnu varðandi öryggisgæsluna á Keflavíkurflugvelli og hafa samtökin látið þá skoðun í ljósi. Á þeirri skoðun þarf hvorki að biðja Sigurð Jónsson né nokkurn annan afsökunar.