Fara í efni

LÚÐVÍK GAF ÚT TVÆR REGLUGERÐIR UM ÚTFÆRSLU LANDHELGINNAR

Ótrúlegar en hefðbundnar sögufalsanir  sjást oft í íslenskri stjórnmálaumræðu. Það nýjasta er landhelgismálið. Þar var reynt að breiða yfir og fela eftirfarandi staðreyndir:

 

1. Landhelgin var færð út í 12 sjómílur 1958. Þá var Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra. Hann gaf út reglugerðina um útfærslu landhelginnar. Þá sat þriggja flokka ríkisstjórn Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. Framsóknarflokkurinn var með forsætisráðuneytið; þar sat Hermann Jónasson. Bretar voru á móti útfærslu landhelginnar og það voru Vestur-Þjóðverjar  líka. Þeir beittu NATO fyrir sig gegn Íslendingum. Þess vegna var Sjálfstæðisflokkurinn á móti útfærslunni og það varð Alþýðuflokkurinn líka. Þessi andstaða flokkanna varð svo fæðingarvottorð viðreisnarstjórnarinnar. Svo mikil var harkan innan ríkisstjórnarflokkanna þriggja að Hermann Jónasson forsætisráðherra hótaði að biðjast lausnar fyrir sjávarútvegsráðherrann það er að reka Lúðvík Jósepsson. Það varð ekki. Vinstri stjórnin fór frá í lok 1958 og þá fóru Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn strax í samninga við Breta og Vestur-Þjóðverja. Þeir mættu mikilli andstöðu og stjórnarflokkarnir voru svo  hræddir að þeir létu hlera síma stjórnarandstæðinga eins og komið hefur fram undanfarna daga.Samt sömdu þeir og Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkurinn lýstu þessa samninga nauðungarsamninga og að þeir væru að engu hafandi. Ekki er nokkur vafi á því að Lúðvík Jósepsson var fremstur allra forvígismanna Íslendinga í þessu máli; það viðurkenndu allir á þeim tíma er útfærslan gekk yfir að  Lúðvík hefði skýra úrslitaforystu í þessu máli. Í þessu stríði átti Lúðvík Jósepsson stuðningsmenn langt út fyrir raðir Alþýðubandalagsins, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins.

 

2. Viðreisnarstjórnin sat því miður í 13 ár og  aðhafðist ekkert í landhelgismálinu annað en að reyna að festa 12 mílurnar sem endanlega útfærslu landhelginnar og sem alþjóðlega viðmiðun. Sérfræðingar hennar börðust fyrir því að 12 mílurnar yrðu alþjóðalög. Þar með vildu þeir alls ekki halda áfram  að færa út landhelgina. Veturinn 1970 til 1971 fluttu Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkurinn tillögu um útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur. Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn felldu tillöguna. Hún var því eitt heitasta mál kosninganna vorið 1971 og þess vegna féll viðreisnarstjórnin. Hún varð því - 50 mílna stefnan - fæðingarvottorð vinstri stjórnarinnar vorið 1971. Lúðvík Jósepsson varð aftur sjávarútvegsráðherra og hann gaf aftur út reglugerðina um útfærslu landhelginnar, að þessu sinni í 50 sjómílur. Enn voru Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur og Bretar og NATO og því Bandaríkin á móti Íslandi. Yfir þessu vilja þeir núna þegja  sem fjalla um hafréttarmál og vilja þurrka út nafn Lúðvíks Jósepssonar. Það má ekki  takast.

 

Og það er heldur ekki stórmannlegt að reyna að falsa söguna; það er öllum fyrir bestu að skoða allt í krók og kima hvort sem það eru hleranir eða landhelgismál. Lúðvík Jósepsson var einn öflugasti stjórnmálamaður Íslands fyrr og síðar. Það er ástæðulaust að láta andstæðinga vinstri manna komast upp með að breiða yfir þá staðreynd.

SB