Fara í efni

LÝÐRÆÐI ER GRUNDVALLARRÉTTUR


Ég hef orðið var við að sumum hefur þótt afstaða mín til Icesave og þjóðaratkvæðagreiðslu að sumu leyti mótsagnakennd. Þetta er skiljanlegt viðhorf. Ég hafnaði nefnilega tilllögu Péturs H. Blöndals  á Alþingi um að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu en studdi það að forsetinn beindi því í þann farveg þegar málið hafið fengið afgreiðslu á þingi. Ég hafði tekið þá ákvörðun að hafna öllum breytingartillögum stjórnarandstöðunnar - þar með þessari. Um það mætti hafa langt mál hvers vegna ég komst að þeirri niðurstöðu. Að sinni vil ég segja að ég taldi að þingið yrði að afgreiða málið frá sér - kæmist ekki lengra með það (https://www.ogmundur.is/is/greinar/tiu-stadreyndir-um-stodu-icesave-malsins-a-althingi) - þótt ég væri afar ósáttur við niðurstöðuna og greiddi atkvæði gegn henni. Á daginn hefur komið að dráttur á málinu gæti komið okkur vel, það er að segja, ef við nýtum þann byr sem við höfum erlendis og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að styrkja stöðu okkar með öflugu kynningarátaki.
Ég var ekki einn um þessa skoðun. Svo mikil var óánægjan í þjóðfélaginu með niðurstöðu þingsins að fjórðungur atkvæðisbærra manna í landinu mæltist til þess við forseta Íslands að hann yrði við áskorunum um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Samkvæmt stefnu VG hefði ekki þurft forsetann til sem millilið því samþykktir flokksins kveða á um að þetta hátt hlutfall kjósenda eigi að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu milliliðalaust.
Hér á síðunni hefur átt sér stað ágæt umræða um lýðræðið á undanförnum dögum og hef ég áður fagnað henni auk þess sem ég hef lagt af mörkum til hennar, sbr. þennan pistil: https://www.ogmundur.is/is/greinar/lydraedi-eda-forraedi

Pétur og Ólína

Í ofangreindum pistli vík ég að skrifum lesenda hér á síðunni, þá helst þeirra Péturs og Ólínu. Pétur talar fyrir fulltrúalýðræði og að hætt sé við því að peningar og popúlismi ráði of miklu þegar opnað er á almennt lýðræði. Ólína er hins vegar á svipuðum nótum og ég að því leyti að hún lítur á lýðræðið sem grundvallarmannréttindi og að forræðishyggja eigi að heyra sögunni til. Ég er sammála Ólínu að barátta fyrir sjálfsforræði og lýðræði er órjúfanleg mannréttindabaráttu fyrr og síðar. Ólína setur þessa baráttu í sögulegt samhengi:
"Fyrst fengum við ekki að kjósa af því við áttum ekkert, og af því við áttum ekkert höfðum við ekki vitið til að bera ábyrgð á atkvæði okkar. Þannig skilgreindi hin nýja stétt borgaranna lýðræðið á sinni tíð. Svo fengu karlar atkvæðisrétt, en ekki konur, meðal annars af því ráðandi stétt ákvað að ákvarðanir um þjóðmál kæmi konum ekki við. Atkvæðisréttur var meira að segja svo takmarkaður, að kosningar voru haldnar í heyrandi hljóði og menn þurftu að greiða atkvæði á opnum fundum með handauppréttingum. Það var líka í raun kúgunarfyrirkomulag þeirra sem settu reglurnar. Leynilegar kosningar voru því byltingarkennd breyting í sveitarstjórnarkosningum. Það hefur alltaf verið valdastéttinni í hag, og þeim sem ráða, að takmarka sem mest þeir mega lýðræðislegan rétt þjóðarinnar og einstaklinganna.
Ferskt dæmi er þegar forystumenn ríkisstjórnar krefjast þess að allir ráðherrar styðji skilyrðislaust öll mál sem fulltrúar framkvæmdavaldsins bera fram þótt ríkisstjórn sé fjölskipað stjórnvald, jafnvel þótt alþingismönnum sé gert að vinna drengskaparheit að stjórnskránni og að greiða, samkvæmt henni, atkvæði eftir því sem samfæringin býður þeim og alls ekki öðru. Þetta þurfum við þolendur hrunsins að hugsa um."
Nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/nidurstada-thjodar-er-alltaf-rett

Pétur Örn Björnsson um hrædda héra valdsins

Ég er algerlega sammála því sem kemur fram í skrifum Ólínu um að hrunið er tengt ógagnsæi og skorti á lýðræðislegum vinnubrögðum og að þær alvarlegu brotalamir þurfi að laga. Pétur Örn Björnsson hefur eining skrifað hér á síðuna umhugsunarverða pistla um þetta efni. Hann spyr og svarar: "Hversu langt á forræðishyggja ...að ganga? Nei, engin mál eru of flókin -amk. í heimi okkar mannanna- til að þau þoli ekki heiðarlega og upplýsta umræðu og í framhaldinu ákvörðun -já þjóðarinnar- okkar mannanna, því um mannanna verk og hugsanir erum við nú bara að fjalla um. Hér eru engir guðir á ferð, bara venjulegt fólk og svo nokkrir hræddir hérar sem vilja verja vald sitt og sinna í pólitískri "rétthugsun" og um leið að umlykja sig þokukenndri forræðishyggju. ...Tek svo að lokum undir orð Ólínu að við kærum okkur alls ekki um hin síð-sovésku viðhorf...Svo ráðum við okkar örlögum, og það án forsjárhyggju þeirra sem telja sig guði."
Nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/nokkrir-hraeddir-herar-ad-verja-valdid