Fara í efni

LÝÐRÆÐIÐ OG RÁÐNINGAR Í SEÐLABANKA

Seðlabankinn
Seðlabankinn

Þorsteinn Pálsson segir í skrifum sínum í Fréttablaðinu að hann telji Seðlabankann íslenska ekki nægilega sjálfstæðan: „Svo talað sé tæpitungulaust er auðveldara fyrir sjálfstæðan seðlabanka en stjórnmálamenn að taka ákvarðanir sem eru til skamms tíma óvinsælar en nauðsynlegar. Að því virtu er eðlilegt að lögákveðinn skipunartími seðlabankastjórans verði lengdur. Fimm ára skipunartími er ekki næg vörn þannig að hann geti verið óháður skammtíma pólitískum sjónarmiðum."

Þetta er að mínum dómi vafasöm hugsun. Seðlabanki er hluti af stjórnkerfi lands og stjórnkerfið á að vera eins lýðræðistengt og kostur er. Ég véfengi þá hugsun að erfiðar ákvarðanir eigi rétt á sér ef þær ganga þvert á lýðræðislegan vilja þjóðarinnar, sem þegar allt kemur til alls á Seðlabankann. Hvaða „erfiðu" ákvarðanir eru það nákvæmlega sem Þorsteinn Pálsson er að tala um? Hægt þarf að vera að færa haldbær rök fyrir öllum ákvörðunum sem teknar eru af hálfu Seðlabanka. Er það eitthvað sem við skiljum ekki sem Már Guðmundsson, Ragnar Árnason og Friðrik Már Baldursson, hinir útvöldu, hafa sérstakan og upphafinn skilning á? 
Ég skal viðurkenna að ég skildi illa skrif sumra þeirra í aðdraganda hrunsins og þykir þau ekki hafa elst sérlega vel. Það er stórhættulegt að búa til ríki í ríkinu sem þarf ekki að standa neinum skil gerða sinna. Svo gef ég lítið fyrir tal um „erfiðar ákvarðanir" sem við hin skiljum ekki og yrðum sjálfkrafa á móti, óháð þeim rökum sem fyrir þeim yrðu færð. Þorsteinn Pálsson þarf að tala skýrar og nefna dæmi máli sínu til stuðnings í stað þess að setja fram almennar fullyrðingar um að draga beri úr aðhaldi og skerða lýðræðið.

Síðan er það hitt með hinn „sjálfstæða" Seðlabanka Þorsteins Pálssonar og þá væntanlega hinn almáttuga alvald þar. Halda menn að þeir einstaklingar sem þar standa í stafni og koma til með að gera, séu ekki manneskjur með skoðanir og fordóma eftir atvikum. Og að sjálfsögðu mistækir eins og aðrir og þurfa því á aðhaldi að halda.  Þeir þrír menn sem teknir eru nú út úr umsækjendahópnum sem best hæfir í afar huglægri greinargerð sem fram er komin, gerð af einstaklingum með sínar pólitísku skoðanir og fordóma - minnir okkur á allt þetta.


Mér finnst ákafinn í að losna við Má Guðmundsson ósanngjarn og lykta af pólitík. Ekkert sérstaklega eftirsóknarverðri pólitík því hún byggir ekki á málefnalegum rökum gagnvart starfinu og þeim ákvörðunum sem Már hefur tekið í starfi sínu sem Seðlabankastjóri. Þá finnst mér það líka lykta af pólitík að setja ekki Lilju Mósesdóttur í efsta flokkinn og meta hana mjög vel hæfa í starf Seðlabankastjóra. Það er mitt mat sem ég byggi á fyrri skrifum hennar og tillögusmíð. Hún hefur verið fundvís á efnahagsúrræði sem líkleg eru að gagnast almenningi og hugsanlega til vinsælda fallin og þá væntanlega stórhættuleg að mati Þorsteins Pálssonar - eða hvað?
Svo er þetta eflaust líka mitt pólitíska mat. Það hlýtur að eiga einhvers staðar heima, ekkert síður en pólitískt mat þeirra Guðmundar Magnússonar og Stefáns Eiríkssonar sem skrifa undir álitsgerð matsnefndar Seðlabankastjórnar. Þeir luma líka á pólitískum skoðunum hafi einhver haldið annað.