Fara í efni

LÝÐRÆÐIÐ ÞARF NÆRINGU - STJÓRNVÖLDIN AÐHALD


Krafan á hendur stjórnmálunum er gagnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð. Sú krafa er enn háværari í dag en hún var í gær. Rannsóknarskýrslan æpir á okkur hvað þetta varðar.  
Viðsemjendur  Íslands verða að skilja þetta. Það á við um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það á við um Breta og Hollendinga. Það á við um Norðurlönd. Í skjóli leyndarinnar hafa allir þessir aðilar komist upp með að segja einum eitt og öðrum annað. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn  segir að Icesave komi sér ekki við en krefst þess á sama tíma að sett sé skuldbindandi ákvæði um Icesave. Norðurlöndin segjast ekki bregða fæti fyrir Ísland en gera það svo í reynd. Mótsagnir í málflutningi þeirra verður að ræða, ekki bara við norrana ráðherra heldur norrænan almenning. Þetta þarf að tala um upphátt okkar vegna og lýðræðisins vegna. Valdhafar heimsins eiga ekki að komast upp með að stjórna honum með leyndina að vopni.
Við þurfum líka að stappa stálinu í okkar eigin stjórnvöld. Standa að baki þeim í kröfum um opin og lýðræðisleg samskipti við umheiminn. Kannski hafa alltof margir sofið á verðinum hvað þetta snertir. Í framtíðinni verður það vonandi óhugsandi að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum séu gefnar skuldbindingar  um íslensk innanríkismál - varðandi skipulag Íbúðalánasjóðs, aðkomu að skuldavanda heimilanna - eða milliríkjasamningum, án þess að slíkt fái opna, gagnsæja og lýðræðislega umræðu í ríkisstjórn landsins, á Alþingi og í samfélaginu almennt. Því miður hefur sú ekki orðið raunin þegar gengið hefur verið  frá skilmálum við AGS.  Og nú eina ferðina enn. Það er óásættanlegt.
Breytt vinnulag verður ekki til af sjálfu sér. Það er augljóst. Lýðræðið þarf stöðuga næringu. Og stjórnvöldin stöðugt aðhald. Það er samfélagsins alls að veita það aðhald, á jákvæðan hátt og uppbyggilegan. Nálgumst málin með þetta í huga.