Fara í efni

LÝÐRÆÐISLYKILLINN

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 13.01.12.
Lýðræðið hefur í tímans rás tekið á sig ýmsar myndir. Fulltrúalýðræði var vinnuformið á 19. og 20. öldinni. Erfitt var að koma við beinu lýðræði. Samgöngur og fjarskipti urðu þess valdandi að almenningur hlaut að kjósa sér fulltrúa til að fara með vald sitt fyrir sína hönd.
En svo mjög hafa ýmsir slíkir kjörnir fulltrúar valdsins á þjóðþingum og í sveitarstjórnum misskilið hlutverk sitt að þeir velta nú vöngum yfir því hvort það sé heppilegt eða óheppilegt að sá sami almenningur og kaus þá til trúnaðarstarfa fái valdið beint til sín þegar þess er óskað.
Þetta er í besta falli spaugilegt því nákvæmlega þar á valdið heima, hjá almenningi og kjósi almenningur að taka ákvörðunarvaldið til sín þá á svo að verða.
Hvers vegna að viðra þetta nú? Það er vegna þess að viðfangsefnið er sígilt og á stöðugt að vera til umræðu. Og eitt mál sem tengist lýðræðinu er einmitt í brennidepli nú, auk að sjálfsögðu þeirra draga að nýrri stjórnarskrá sem liggja fyrir þar sem kveðið er á um rétt þjóðarinnar til að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu. Þetta málefni er ESB aðildarviðræðurnar.
Á að halda þeim áfram? Á að stöðva þær? Á að fullgera samning og kjósa svo? Hvað skal gera? Svarið er augljóst. Það á að spyrja þjóðina. Menn þurfa hins vegar að koma sér saman um hvað og hvernig skuli spurt.
Þegar viðfangsefni verður illleysanlegt á fulltrúasamkundunum eða ágreiningur þar djúpstæður, er náttúrlega bara eitt að gera: Snúa sér til hins eiginlega valdahafa og spyrja hann hvað gera  skuli. Á að stefna á aðild að Evrópusambandinu? Á að kjósa um viljann til aðildar á grundvelli þeirrar vitneskju sem fyrir liggur, nokkuð sem ég hef lengi talað fyrir? Á að fullgera samning og kjósa svo? Hvað skal gera?
Auðvitað spyrjum við þjóðina álits. Og við hlítum því sem hún ‒ hinn eiginlegi valdhafi  ‒ ákveður. Nú er orðið nokkuð ljóst að samningaviðræðum lýkur ekki í bráð. Því miður var ekki tekinn sá póll að rífa okkur upp úr  því ferli sem hannað var fyrir ríki Austur-Evrópu sem ekki höfðu undirgengist regluverk Evrópusambandsins í sama mæli og ríki sem aðild eiga að EES-samningnum. Fyrir vikið er ferlið langvinnt, miklu lengra en það hefði þurft að vera. Sjálfur er ég fyrir löngu kominn á þá skoðun, einsog ég oft hef gert grein fyrir á Alþingi, að það sé varasamt fyrir Ísland að fara eins að og Norðmenn gerðu á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar þegar þeir sóttu um aðild, samþykktu samning í ríkisstjórn og á þingi og allar aðildaþjóðir ESB gerðu slíkt hið sama, en norska þjóðin hafnaði síðan samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Er það mál manna að Norðmenn hafi lengi þurft að súpa seyðið af því að draga ESB ríkin á asnaeyrum.
Þetta eigum við að forðast að hendi okkur. Nú þarf skýra vísbendingu um vilja þess sem á að ráða í okkar samfélagi: Fólkinu sem landið byggir, þjóðinni. Ef fulltrúasamkundurnar lenda í hafvillum, þá leita þær til hennar.
Þannig opnum við dyrnar inn í framtíðina - næsta kjörtímabil. Með lýðræðislyklinum.