MAKKAÐ MEÐ MILLJARÐA Í BOÐI ALÞINGIS
Undir þinglokin í vor var samþykkt á Alþingi frumvarp um svokallaðan stöðugleikaskatt á slitabúin upp á 39%. Það er ekki hár skattur á áhættufjármagnið sem þar er að finna þótt margir virtust fá í hnén yfirleitt við tilhugsunina að leggja skatt á vogunarfjármagnið sem enginn deilir um að er uppistaðan í eignarhaldinu á slitabúunum. En um þetta náðist engu að síður samstaða og er það vel.
Einnig hefur stöðugleikaskattinum verið sýndur víðtækur skilningur erlendis sem eitt af þeim tækjum sem fullvalda ríki hefur til þess að takast á við þann vanda sem slitabúin skapa.
Það sem verra var, að á Alþingi var jafnframt samþykkt annað frumvarp, eins konar hjáleið við stöðugleikaskattinn, heimild fyrir slitabúin til að koma sér undan skattinum, eða fá hann verulega skertan að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þessi skilyrði eru bæði ógagnsæ og svo flókin að fullyrða má að flestir botna hvorki upp né niður í þeim. Þar fyrir utan er ýmislegt sem greinilega á að fara leynt.
Þvert á loforð
Þetta er þvert á loforð forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að afnám hafta myndi byggja á gagnsæju ferli, eins og kom fram í kynningu þeirra 8. júní síðastliðinn. Þá var okkur líka sagt að grunnhugmynd fyrir 39% skatti væri að tryggja að uppgjör þrotabúanna rýrði ekki kjör almennings. Ef hins vegar á að veita afslátt þá bitnar það væntanlega á lífskjörum því einhvers staðar kemur afslátturinn fram. Á almenningur ef til vill að niðurgreiða afsláttinn í formi veikara gengis og þar með lakari lífskjörum án þess að fá því svarað á hvaða grunni sá afsláttur er veittur?
Samsvörun við Icesave
Hjáleiðinni var mótmælt í þingumræðunni þótt ekki væru margir um þau mótmæli enda fór svo að aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði gegn henni. Hlýtur það að vera umhugsunarefni því varla á það að geta gerst að Alþingi samþykki lög sem þingheimur skilur ekki til fulls - einfaldlega vegna þess að ekki eru öll kurl komin til grafar - og eiga auk þess leynt að fara! Það tók ekki núverandi stjórnarmeirihluta, sem var stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili, langan tíma að gleyma Icesave lagafrumvarpinu sem gagnrýnt var á svipuðum forsendum: Ógagnsæi, leyndarhyggju, að ógleymdum utanaðkomandi þrýstingi sem beitt var til að keyra það mál áfram.
Seðlabankinn kominn með skattlagningarvald
Hjáleiðin veitir Seðlabankanum ígildi skattlagningarvalds því starfsmenn hans eru settir í þá stöðu að geta sett puttann upp eða niður, til samþykkis eða synjunar, þegar metið væri hvaða bröskurum eigi að hleypa inn í hjáleiðina góðu og á hvaða forsendum það skuli gert. Þar með fá þeir vald til að veita undanþágu frá almennri skattareglu.
En það er ekki nóg með að Seðlabankinn fái mikið vald í hendur heldur er hann að bræða með sér hvort hann yfirleitt ætli að upplýsa þing og þjóð um forsendur ákvarðana sinna!
Ekki búið að ákveða hvort vinnubrögðin verði opinberuð!
Í frétt í Morgunblaðinu í síðustu viku er eftirfarandi haft eftir talsmanni Seðlabankans: "Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort stöðugleikamatið verði gert opinbert ..."
Við afgreiðslu hjáleiðarinnar í vor var sagt að Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis yrði upplýst um ákvarðanir starfsmanna Seðlabankans þegar þar að kæmi. En verður það undir þagnarskyldu?
Málið er allt hið ævintýralegasta. Það er að umfangi helmingi stærra en fjárlög íslenska ríkisins í krónum talið, framkvæmdinni er úthýst og nú veltir framkvæmdaraðilinn því fyrir sér hvort honum hugnist að ræða vinnubrögð sín og niðurstöður opinberlega! Getur þetta verið vísbending um annað en að þarna verði eitthvað á ferðinni sem ekki þoli dagsljósið? Verður að lokum sagt að ferlið sé komið það langt að ekki sé hægt að breyta neinu?
Til upprifjunar
Stöðugleikaskatturinn var kynntur með miklum bravör í Hörpu í þann mund er málið fór til umræðu á Alþingi. Skatturinn væri hin efnahagslega nauðsyn sem þyrfti til þess að leysa heildar umfang vandans. Þar var einnig sagt að Stöðugleikaskattur og Stöðugleikaskilyrði ættu að vera jafnverðgild þegar upp væri staðið. Þegar á þetta var minnt í þingsal var snarlega á það bent að þetta væri reginmisskilningur. Stöðugleikaskilyrðin væru hin alþekkta tvenning, kylfan og gulrótin, og aldrei hefði verið gert ráð fyrir samasem merki á milli þeirra,skattsins annars vegar og hjáleiðarinnar hins vegar - þrátt fyrir yfirlýsingarnar í Hörpu.
Og nú er komið fram á haust og Seðlabankinn að ganga frá málum þeirra sem kjósa að elta gulrótina en skilyrðin og vinnureglurnar í þeim eltingarleik eru á huldu.
Um það leyti sem frumvörpin tvö, hið ágæta Stöðugleikaskattsfrumvarp annars vegar og hin afleita Hjáleið hins vegar voru til umfjöllunar á Alþingi minnti ég á þá mismunun sem skattgreiðendur horfðu upp á við þessar kúnstir:
Verðugar vangaveltur
"Ég borga tekjuskatt, útsvar og fasteignagjöld. Þetta geri ég möglunarlaust og með ánægju svo lengi sem ég trúi því að skattarnir fari til góðra málefna. Kylfan er látin duga á mig en ekki gulrótin. Mér er ekki boðið upp á neinar samningaviðræður um þessar greiðslur. Þar eru skýrar reglur sem eiga að taka til allra. Ég fæ ekki skilið hvers vegna hið sama á ekki að gilda um kröfuhafa í slitabúin, þ.e. vogunarsjóðina og áhættufjárfestana, ómóralskasta fjárfestingarfjármagn sem til er. Auðvitað eiga hrægammarnir að greiða skatt samkvæmt sömu lögunum. Allir sem einn.
Og gleymum því ekki að 39% skattur er ekki hár skattur við þessar aðstæður.
Þegar það síðan bætist við að ívilnunarviðræðurnar virðast hafa í för með sér að koma eignarhaldi á bönkunum út fyrir landsteinana og skapa óvissu um stórfellt gjaldeyrisútstreymi með ívilnunarsamningum þá gerast ýmsar spurningar áleitnar."
Ástæða er til að rifja þessar hugleiðingar upp þegar það nú virðist ætla að ganga eftir, að það sem á að vera uppi á borðum er verið að færa á bak við lokuð tjöld.