Málflutningur SA um opinbera starfsmenn: Rugl eða rógur?
Talsmenn atvinnurekenda fara nú mikinn. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins benda á, að frá 1997 til 2002, hafi starfandi fólki á Íslandi fjölgað í heild um tæp 15 þúsund eða 10,4%. En viti menn, aðeins hafi fjölgað um 8% í einkageiranum en um rúm 17% hjá hinu opinbera. "Tímabilið einkennist þannig af örri fjölgun opinberra starfsmanna og vaxandi hlutdeild hins opinbera á vinnumarkaðnum." Þetta þykja þeim SA mönnum illar fréttir og segja mikla vá fyrir dyrum ef þessi þróun verði ekki stöðvuð hið fyrsta. Eftir SA var haft í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að mikil "fjölgun opinberra starfsmanna hér á landi (væri) verulegt áhyggjuefni enda dragi slík þróun úr hagvexti." Og orðrétt sagði Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í viðtali við fréttamann:"Og þetta þýðir jú það að hið opinbera er að stækka og einkageirinn er að minnka hlutfallslega og það þýðir þá það að okkar mati að sá hluti atvinnulífsins, þar sem að framleiðniaukningin er mest og framleiðniaukning er undirstaða hagvaxtar, að þetta hefur þá þau langtímaáhrif að hagvöxtur hlýtur að minnka eða allavega verða minni en ella."
Um þennan málflutning atvinnurekendasamtakanna er eftirfarandi að segja:
1) Hlutdeild hins opinbera á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum almennt er síst meiri hér á landi en gerist í flestum samanburðarríkjum okkar, sérstaklega ef horft er til Norðurlandanna. Í tölfræðiupplýsingum frá OECD (OECD in Figures 2003) er að finna yfirlit þar sem meðal annars má sjá þessi stærðarhlutföll. Þarna kemur fram að hlutfall opinberrar starfsemi er ekki hátt hér á landi; að hlutfall í menntunar- og velferðarstörfum er ofan meðallags OECD ríkjanna en talsvert lægra en hjá frændþjóðunum á hinum Norðurlöndunum. Svo er að skilja á þessum gögnum, að virðisaukinn í hagkerfinu, sem rekja má til menntageirans og annarrar opinberrar grunnþjónustu, sé hærri hér en gerist víða annars staðar.
2) Fráleitt er að alhæfa á milli einkageirans annars vegar og hins opinbera hins vegar, hvað framleiðni snertir. Afkastageta er mismunandi innan beggja þessara geira. Hins vegar fullyrði ég að almennt er unnið af vandvirkni og eljusemi í flestum opinberum stofnunum og hallar síður en svo á þær í samanburði við einkarekin fyrirtæki, þótt ég ítreki það sjónarmið mitt að samanburður á grundvelli slíkra alhæfinga er varasamur. Ég vil þó minna á skýrslu sem unnin var á vegum OECD fyrir fáeinum árum þar sem fram kom að Íslendingar fengju meira út úr hverrri krónu í heilbrigðiskerfinu en flestar aðrar þjóðir. Og með skírskotun til þessa beini ég þeirri spurningu til SA, hvort þetta beri ekki vitni góðri framleiðni innan opinbera geirans?
3) Fram kemur að á því tímabili sem SA tekur til skoðunar hefur hlutfallslega fjölgað langmest í fræðslustarfsemi eða um 40%. Eru talsmenn SA ósammála því almennt viðtekna viðhorfi að fjárfesting í menntun sé skynsamleg og arðbær? Væri það að dómi SA fagnaðarefni í sjálfu sér ef tækist að fækka fólki starfandi í opinberum rekstri óháð því hvað fólkið starfar við? Telja talsmenn SA að það yrði alltaf til góðs að fjölga störfum hjá einkareknum fyrirtækjum, algerlega óháð því hver starfsemin er? Er alveg sama hvar tækist að fjölga störfum á einkamarkaði ef aðeins tækist að stemma stigu við opinberum rekstri? Eru starfsmenn sjúkrahúsanna, elliheimilanna, löggæslunnar, skólanna, hafnanna, vegagerðarinnar, rannsóknarstofnana, slökkviliða, félagsþjónustunnar, veðurstofunnar, vatnsveitna, almenningssamgangna, er allt það fólk sem vinnur á þessum sviðum að vinna til óþurftar? Hafa þessi störf engin tengsl við verðmætasköpun í þjóðfélaginu? Er þjóðfélag sem kreppir að allri þessari þjónustu betra og hæfara þjóðfélag? Auðvitað ekki enda má sýna fram á þetta með tölfræðilegum rökum eins og vísað er til hér að framan.
Mér er næst að líta á þennan málatilbúnað af hálfu SA gagnvart opinberri starfsemi og um starfsfólk í almannannaþjónustu sem hreinan rógburð. Eða er þetta ef til vill bara rugl? Sennilega hvort tveggja. Ég hallast helst að því.