Fara í efni

MAMMON Í SÁLARLÍFI ÞJÓÐAR

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24/25.08.24.
Ég hef trú á því að ferðamálastjóri hafi talað fyrir munn þorra þjóðarinnar þegar hann sagði í fjölmiðlum í vikunni að fólk vildi “geta ferðast um landið sitt frjálst og óáreitt án þess að þurfa að greiða í hvert skipti sem það stoppaði bílinn.”
Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðeigenda tók í sama streng og sagði “græðgisvæðingu” birtast ferðalöngum í vaxandi mæli við náttúruperlur landsins í himinháum bílastæðagjöldum. Þá er í fjölmiðlum kallað eftir skýrari lögum og regluverki til að forða okkur út úr þessu “villta vestri.”

Fram til þessa hefur vandinn þó ekki verið sá að reglur hafi skort heldur að þær hafa verið virtar að vettugi.

Í grófum dráttum er staðan þessi: Um þjóðgarða og náttúruverndarsvæði á vegum ríkisins gilda sérstök lög sem heimila gjaldtöku fyrir veitta þjónustu. Séu náttúruverndarsvæðin á eignarlandi einkaaðila er eigendum heimilt að leita til Umhverfisstofnunar um leyfi til gjaldtöku á grundvelli samnings þar sem þjónusta er skilgreind svo og spjöll sem þurfi að lagfæra.

Lagaákvæðin er að finna í náttúruverndarlögum og eru markmiðin skýr. Gjaldtaka er einvörðungu heimil á grundvelli samnings við Umhverfisstofnun og til þess eins að standa straum af kostnaði við aðstöðu og veitta þjónustu á náttúruverndarsvæðum en ekki til að hafa af þeim arð. Náttúran sé með öðrum orðum ekki til að braska með.

En til þess að komast fram hjá þessum lögum hafa landeigendur tekið fordæmi Þingvallanefndar fegins hendi en hún innleiddi illu heilli þann ósið að rukka okkur með bílastæðagjöldum fyrir að heimsækja þjóðgarðinn okkar á Þingvöllum. Þegar þetta fyrirkomulag hafði verið innleitt var komin fjallabaksleið til að innheimta gjöld án samnings um veitta þjónustu. Þetta hafa sum sveitarfélög nýtt sér enda á þeirra vegum heimil gjaldtaka á bílastæðum. Nú heyrum við að víða þar sem rukkað er fyrir að leggja bifreið fylgi engin þjónusta.

En andi regluverks og laga er eftir sem áður skýr. Gjöld eiga að vera fyrir veitta þjónustu við náttúruperlur en ekki renna til fjárfesta í formi arðs af þeim.

Þá má ekki gleyma því í þessu samhengi öllu að réttur almennings til að njóta lands síns er ótvíræður í lögum, og hefur verið um aldir, þótt með eignarhaldi auðkýfinga á landi, sérstaklega erlendra, færist það í vöxt að landi sé lokað fyrir almenningi. Það er vissulega heimilt þegar ágangur er svo mikill að veldur spjöllum, en aðeins þá.

Er þá komið að vanda landeigenda því hann getur orðið mikill með ágangi ferðamanna og stundum yfirgangi. Hafi ferðamálastjóri talað fyrir hönd þjóðarinnar þegar hann sagði okkur vilja geta ferðast “óáreitt“ þá er að sama skapi almennur skilningur á því í landinu að koma þurfi nægilegt fjármagn til landeigenda til að verjast skemmdum, gera stíga og reisa nauðsynleg mannvirki svo og veita þjónustu við hæfi.

En til alls þessa eru aðrar leiðir færar. Þannig er margreynt að almennur vilji er fyrir því að innheimta komugjöld af öllum þeim sem leggja leið sína til landsins; gjöld sem síðan yrðu látin renna til þeirra staða þar sem þörf er á aðstöðu og þjónustu.

Lítið mál væri að fela Vegagerðinni að sjá um bílastæði eins og yfirleitt hefur verið reyndin og vel mætti hugsa sér að hún hefði umsjón með salernisaðstöðu á ferðmannastöðum. Vegagerðin gæti hins vegar boðið rekstur kamra út til að friða markaðssinnana í Stjórnarráðinu! Allt þetta má gera en er ekki gert, sennilega vegna andstöðu flugfélaganna.

Auðvitað er ótækt er að láta þau komast upp með að stöðva þessa augljósu lausn á fjármögnunarvandanum. Þegar ferðamenn hingað til lands eru taldir í milljónum árlega eins nú gerist þá skiluðu milljarðar sér inn á svipstundu, jafnvel með tiltölulega lágu komugjaldi. Örlítið dýrara yrði að komast til landsins fyrir vikið en að sama skapi yrði ódýrara að ferðast um landið og meira yrði eftir í vösum ferðamannsins til að kaupa veitta þjónustu ef hann þyrfti ekki að borga fyrir að horfa á foss.

Þetta þýddi að við gætum áfram notið náttúrunnar í friði fyrir fjárgróðamönnum og vaxandi innheimtuiðnaði sem þeim fylgir og er orðinn að hreinni plágu.

En verst af öllu er eyðileggingarmáttur gjaldtökunnar. Hún dregur úr gleðinni við að njóta landsins og einnig starfsánægju þeirra sem eru neyddir til að rukka fyrir gestrisni sína.

Eftir standa þá bara þeir sem líta á ferðamenn sem gangandi peningaveski. Þeim þarf hins vegar að gera það ljóst að í ferðamennsku eigi menn aðeins rétt á því að hagnast fyrir eigið framlag, sölu á vöru eða þjónustu, en ekki á sköpunarverki almættisins.

Þegar öll samskipti manna eru gerð að vöru á markaði er hætt við að Mammon nái á okkur þrælataki.
Látum það ekki gerast.

Sameinumst um að fjarlægja Mammon úr sálarlífi þjóðarinnar.

----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.