Fara í efni

MÁNAÐARLAUN Í SEKT?

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 30.10.12.
Refsingar, hvort sem það eru sektir eða frelsissvipting eiga að hafa fælingarmátt. Frelsissvipting snertir alla jafnt. En hið sama á ekki við um sektir. Ríkur einstaklingur sem sektaður er fyrir umferðlalagabrot kippir sér lítið upp við sektina á sama tíma og hún getur sett fátækan mann í alvarleg fjárhagsleg vandræði. Þess vegna hefur því verið varpað fram hvort sektir eigi að tengja tekjum fólks, þannig að þær komi við þá ríku eins og hina fátæku.Í nýju umferðarlagafrumvarpi er sett fram tillaga í þá átt þótt ekki sé langt gengið. Þegar ég kynnti málið í ríkisstjórn settu nokkir ráðherrar fyrirvara við þetta ákvæði af „prinsippástæðum". Sama átti við um ýmsa þingmenn. Ekkert er undarlegt við að skoðanir séu skiptar um þetta, óháð flokkslínum.
Hugmyndin um tekjutengingu umferðasekta er ekki séríslensk. Slík ákvæði eru í lögum í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi, svo dæmi séu tekin.
En hvað með „prinsippið"? „Refsing á að vera hin sama fyrir alla," segja gagnrýnendur. En það er hún ekki, sem áður segir. Þótt sekt sé jafnhá í krónum talið, ræðst refsimáttur hennar af fjárhag hins sektaða. Færa má rök fyrir því að þá fyrst sætu menn við sama borð ef tekjutengingin væri algjör, forstjórinn, skrifstofumaðurinn og ræstitæknirinn þyrftu að láta mánaðartekjur sínar af hendi rakna fyrir alvarlegt brot.
Ég gæti trúað að þá heyrðist hljóð úr horni. Sumt fólk er nefnilega orðið vant því að geta keypt sig frá öllum vanda. Síðan er hitt að sumum er sárara um fé en öðrum og er það ekki endilega í réttu hlutfalli við efni manna.
Frægasta dæmið um tekjutengda sekt er þegar Olli-Pekka Kallasvuo, fyrrverandi forstjóri Nokia í Finnlandi, var sektaður um tugi milljóna króna fyrir hraðakstur. Það mun hafa hrifið þótt uppi væru raddir um að samfélagsþjónusta hefði jafnvel hreyft meir við forstjóranum.
Ef til vill er fræðsla besta vopnið í baráttunni við hættulega hegðun, reyna að fá fólk til að sýna ábyrgð og taka tillit til samborgara sinna. Ennfremur er mikilvægt að refsingin sjálf valdi ekki samfélagslegum skaða, brjóti einstaklinga ekki niður. Markmiðið á alltaf að vera að batnandi manni er best að lifa. Sektir mega heldur ekki öðlast einkenni skatta, verða sjálfstæð tekjulind, því þannig verður til tilhneiging til að refsa fyrir algenga hegðun með síhækkandi en hugsanlega gagnlitlum sektum.
En aftur að fyrrnefndu umferðalagafrumvarpi. Það er mikið að vöxtum og hefur að geyma ýmis nýmæli sem horfa til framfara. Frumvarpið hefur verið lengi í smíðum og tekið miklum breytingum í vinnsluferlinu samkvæmt ábendingum og óskum aðskiljanlegra aðila.
En lítið hefur farið fyrir umræðunni um tekjutengingu sekta enda kom það ákvæði inn að mínu frumkvæði á lokametrum. Það er hins vegar rétt hjá gagnrýnendum þessa ákvæðis að um er að ræða grundvallarmál sem kallar á íhugun og umræðu.