Markaðslögregla gegn íslensku lýðræði
“RÚV í rannsókn hjá Eftirlitsstofnun EFTA.” Þetta var fyrirsögnin á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Í fréttinni segir frá því að hingað til lands sé komin sendinefnd frá Brussel til að hefja rannsókn á því hvort Íslendingar hafi leyfi til að reka Ríkisútvarpið með áskriftargjöldum og auglýsingatekjum. Það er sjálfur yfirmaður ríkisstyrkjanefndar ESA, Amund Utne, sem hefur orðið á forsíðu blaðsins.: “ESA hefur tileinkað sér viðmiðunarreglur fyrir ríkisútvarp sem eru sambærilegar reglum Evrópusambandsins. Í reglunum eru ákvæði um hvernig megi ríkisstyrki til þessara stofnana. Það er svo sem í góðu lagi að veita styrki til ríkisútvarps. Það má hins vegar spyrja að því hvað eru ríkisstyrkir og hvað ekki. Eru áskriftargjöld ríkisstyrkir?. Við þurfum að skera úr um það”, segir lögregluforinginn.
Það er nefnilega það. Markaðslögreglan ætlar sér að skera úr um það hvernig Íslendingar eigi að reka ríkisútvarp, hvort það yfirleitt standist heilaga markaðsritningu Evrópusambandsins að hafa þær aðferðir sem við höfum kosið. Hve margir skyldu gera sér grein fyrir þeirri ógn sem lýðræðinu stafar af lögreglurannsóknum af þessu tagi? Hvað næst, menningarstofnanir, veflferðarþjónusta, söfn...? Kemur bráðum ný sendinefnd til að skera úr um lögmæti þeirra?
Aldrei velktist ég í vafa um, að með inngöngu í hið Evrópska Efnahagssvæði værum við að fórna sjálfstæði okkar á ýmsum sviðum og undirgangast reglugerðarvald Evrópusambandsins, sem í mjög ríkum mæli er sniðið að þörfum og hagsmunum fjármagnsaflanna. Þessi heimsókn er áminning um hvert við erum komin á þessri vegferð. Okkur ber skylda til að sporna gegn þessari þróun eins og við mögulega getum.
Það er sjálfsagt að taka þessum gestum vel einsog öllum þeim sem sækja land okkar heim, sýna þeim Gullfoss og Geysi og þess vegna Bláa Lónið. Það þarf hins vegar að segja þeim kurteislega en ákveðið, að sjálfir ætli Íslendinggar að ákveða hvernig þeir reki sitt Ríkisútvarp og aðrar almannastofnanir í þessu landi. Rannóknarvinna þeirra á þessu sviði sé afþökkuð. Það er ekki þessara gestkomandi manna að “skera úr” um hvað er rétt og hvað rangt í starfsemi íslenska Ríkisútvarpsins og hvernig sú stofnun er fjármögnuð. EES - smningarnir sem við höfum undirgengist eru að sönnu takmarkandi á ýmsum sviðum. En við skulum ekki gleyma því, að fjármagnsöflin eru ágeng og reyna allt hvað þau geta til að teygja þanþol samningsrammans í sína þágu. Gegn þessu þarf að sporna af alefli og gæta hagsuna almennings. Hér takast á hagsmunir almennings og hagsmunir fjármagnsins!