Fara í efni

MEÐ AUGUM OLGU

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 11/12.07.15.
Undanfarna daga hefur grísk vinkona fjölskyldunnar verið gestkomandi á heimili okkar. Tæknin gerði okkur kleift að fylgjast með atburðarásinni í Grikklandi í beinni útsendingu og tókum við af lífi og sál þátt í  þjóðaratkvæðagreiðslunni og talningunni og síðar eftirmálanum sem að sjálfsögðu er rétt að hefjast.

Olga heitir hún þessi vinkona okkar. Hún var á Íslandi í fyrsta skipti og átti vart orð yfir þá upplifun enda skartaði Ísland sínu fegursta alla dagana sem Olga dvaldi hér, sól og sumar og skyggni gott, í stuttu máli: Ísland í góðu skapi.

Olga sagði okkur að hún fyndi til ákveðinnar samkenndar með Íslendingum enda væri hægt að finna samsvörun í fyrri tíðar sögu Grikkja og Íslendinga og einnig nú í samtímanum. Nokkuð kann að vera til í þessu.

Gríska fornöldin með litríkri sögu, bókmenntum og heimspeki, gerði það að verkum að um nokkurra alda skeið stóðu Grikkir í fararbroddi heimsmenningarinnar. Stundum hefur verið sagt um vestræna heimspeki að hún sé að meira eða minna leyti neðanmálsgreinar við Plató. Þá gætir víða, sem kunnugt er, áhrifa grískra bókmennta og sagnaritunar.  

Síðar komu erfiðir tímar, undirokun á langvarandi nýlenduskeiði, undir soldánum Tyrkjaveldis og ekki fóru Grikkir varhluta af hörmungum styrjalda síðari alda, ekki síst hinnar tuttugustu.

Blessunarlega sluppu Íslendingar vel út úr hildarleikjum heimsstyrjalda tuttugusta aldar og nýlendustjórn Dana var ekki sambærileg þeirri harðýðgi sem nýlendur víðs vegar um heiminn þurftu að sæta.

Þótt áhrifanna af íslenskri menningu sé ekki saman að jafna við grísk menningaráhrif, hef ég grun um að almennt geri menn sér ekki grein fyrir því hvern sess miðaldabókmenntir Íslendinga skipa í  menningarsögunni. Vitundin um þetta mætti vera ríkari í Stjórnarráði Íslands. Ef svo væri mætti ætla að meira fé yrði varið til þess að efla kennslu í íslensku og íslenskum bókmenntum við erlenda háskóla.

En við eigum meira sammerkt með Grikkjum, og það eru lýðræðishefðirnar. Þótt samfélögin til forna bæði í Grikklandi og á Íslandi væru mjög stéttskipt þá áttum við okkar Alþingi og Grikkir áttu sinn Períkles og nú eigum við það sameiginlegt að hafa efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvernig skuli forgangsraða hagsmunum fjármagnsins annars vegar og mannréttindum hins vegar.

Hin gríska vinkona okkar sagði að á þessum málum væri mikill áhugi í Grikklandi. Icesave og þjóðaratkvæðagreiðslan gríska væru vörður inn í framtíðina. Fólk kæmi án efa  í vaxandi mæli til með að halda um stjórnartauma samfélagsins í beinum og lýðræðislegum kosningum.
Undir þetta tók ég.