Fara í efni

MEÐ FANGIÐ FULLT AF TÓNLIST

Ögmundur þór Jóh
Ögmundur þór Jóh

Okkur hættir til þess að gleyma því í önnum dagsins hversu mikilvægu hlutverki tónlistin og raunar listir almennt gegna í lífi okkar.

Í kvöld kl. 20 verða haldnir fjórðu og jafnframt síðustu tónleikar þessa starfsárs í „Klassík í Vatnsmýrinni", tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna í samvinnu við Norræna húsið. Á tónleikunum flytur gítarleikarinn Ögmundur Þór Jóhannesson fjölbreytta efnisskrá. Ég hvet áhugafólk um klassíska tónlist að missa ekki af þessum viðburði í Norræna húsinu í kvöld.

Á efnisskránni eru verk eftir Francesco da Milano, Mauro Giuliani, Napoleon Coste, Astor Piazzolla, Tal Hurwitz og íslensku tónskáldin Hafliða Hallgrímsson og Atla Heimi Sveinsson.

Ögmundi Þór hef ég fylgst með og stundum skrifað um glæsilegan feril þessa unga tónlistarmanns hér á heimasíðunni. Um hann má annars lesa á heimasíðu Norræna hússins í tilefni tónleikanna í kvöld. Þar er sagt frá námsferli hans, tónleikahaldi hér heima og erlendis og viðurkenningum  og verðlaunum sem honum hafa hlotnast hérlendis, sem og á erlendri grund. Sjá, http://www.nordice.is/forsidu-frettir/nr/1481

Ögmundur Þór er nú búsettur í Berlín þar sem hann sinnir kennslu og tónleikahaldi á alþjóðlegum vettvangi.