Með hagræðingu móti launamisrétti
Birtist í Mbl
Reykjavíkurborg hefur kynnt áform um að gera einstökum stofnunum auðveldara að taka sjálfar ákvarðanir um skynsamlega ráðstöfun fjármuna sem þær fá í hendur. Dregið verði úr miðstýringu sem fram til þessa mun hafa tekið til minnstu smáatriða.
Rammafjárlagasmíð jákvæð
Ef vel er á haldið getur þetta orðið til góðs enda eðlilegt að ákvarðanir um nýtingu peninganna séu sem næst þeim sem eiga að framkvæma verkin, sinna þeirri þjónustu sem viðkomandi stofnun hefur á hendi. Mikilvægt er að starfsmönnum verði tryggt svigrúm til breyttra vinnubragða.
En mjög miklu máli skiptir hvernig á þessum málum er haldið. Opinberir aðilar hafa víða erlendis gert þjónustusamninga við einstakar stofnanir beinlínis með það fyrir augum að markaðsvæða starfsemina og firra stjórnmálamenn ábyrgð á niðurskurði og launamisrétti. Forstjórum er gefið fullt sjálfdæmi um allt sem viðkemur manni og mús innanbúðar í „sínum“ stofnunum. Þetta hefur fært þeim aukin völd í hendur gagnvart öðrum starfsmönnum og yfirleitt leitt til aukins launamisréttis.
Og það er í þessu samhengi sem menn líta til þeirra hugmynda sem eru uppi varðandi ákvarðanir um launagreiðslur.
Tvær stefnur
Uppi er tvær stefnur. Annars vegar að samið verði heildstætt fyrir einstaka starfshópa og hins vegar að einvörðungu gildi þar lágmarkstaxtar en launagreiðandinn, sem í valddreifðu kerfi er forstöðumaðurinn, hafi sjálfdæmi um hvernig hann verðlaunar „góða starfsmenn.“
Hið síðara var inntakið í þeirri stefnu sem fjármálaráðherra boðaði með lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sl. vor. Hann hét því að vísu þá að um þessar greiðslur ættu að gilda ákveðnar reglur og yrði haft samráð við verkalýðshreyfinguna um smíði þeirra þótt ekki féllist hann á að um þetta yrði samið.
Boðar stefnu Friðriks
Nú hefur borgarstjóri boðað svipaða starfsmannastefnu hjá Reykjavíkurborg. Þar er einnig í ráði að hafa samráð við verkalýðsfélögin en ákvarðanir um sjálfar greiðslurnar verði í hendi yfirvaldsins. „Við viljum að það séu einhverjar ákveðnar leikreglur í þessu. Hvort stéttarfélögin koma síðan að því umbunarkerfi er önnur saga.“ Þessi ummæli borgarstjóra í Morgunblaðsviðtali 27. október skil ég á þann veg að ætlunin sé að forstöðumaðurinn fái vald til að ákveða hvaða einstaklingar eru verðugir sérstakrar umbunar og hverjir ekki.
Allar kannanir, þar á meðal launakönnun Reykjavíkurborgar, benda í sömu átt: launamisrétti er að verulegu leyti vegna ákvarðana þessara sömu forstjóra um greiðslur til viðbótar því sem samið er um í kjarasamningum. Sumir fá launahækkun á meðan aðrir sitja eftir.
Sameiginlegt verkefni verkalýðshreyfingarinnar á að vera að uppræta þetta misrétti og sjá til þess að allir hækki, ekki bara hinir útvöldu.
Varnaðarorð að utan
Anita Hariman, sérfræðingur í jafnréttismálum frá Svíþjóð, sem hér var á ferð í boði Jafnréttisráðs, benti á að ef launagreiðandi vildi tryggja launajafnrétti yrðu ákvarðanir um viðbótarlaun, ef um slíkt væri að ræða, að byggjast á traustum og gagnsæjum grunni eins og t.d. kynhlutlausu starfsmati.
BSRB er fylgjandi slíku starfsmati og varðandi launagreiðslur er það afdráttarlaus krafa samtakanna að stéttarfélögin komi að öllum ákvörðunum á því sviði frá upp- hafi til enda. Reynslan sýnir að það er forsenda þess að dregið verði úr kjaramisrétti.