Fara í efni

MEIRA MISRÉTTI Í EINKAVÆDDRI ALMANNAÞJÓNUSTU

Óhætt er að segja að Margrét Pála Ólafsdóttir hafi kveikt umræðu í Silfri Egils um síðustu helgi en þar talaði hún fyrir einkarekstri velferðarþjónustunnar. Með því móti mætti frelsa konur undan því oki að vera “vinnukonur” karla eins og nú væri raunin á og einnig bæta hlutskipti þeirra í kjaralegu tilliti. Ég skrifaði pistil um þetta efni hér á síðuna (sbr. HÉR) þar sem ég lýsti gagnstæðum sjónarmiðum.
Á vefritinu Múrnum birtist afar athyglisverð grein um þetta efni. Ég birti hana hér að neðan með leyfi höfundar, Berglindar Rósar Magnúsdóttur. Í grein sinni segir Berglind Rós m.a.: Þetta er ekki skrifað til höfuðs því farsæla starfi sem Margrét Pála hefur staðið fyrir í skólamálum, en hún þróaði einmitt stefnu sína innan almenningsleikskólakerfisins fyrir allmörgum árum, heldur til að vara við því viðhorfi að leysa megi konur úr fjötrum kynbundins launamunar með tæknibrellum. Ef marka má þróunina í BNA er ekkert sem bendir til þess að einkarekstur muni framkalla byltingu í launum kvenna heldur fyrst og fremst aukið launabil innan kennarastéttarinnar.”
Ég hvet allt áhugafólk um þetta efni til að lesa þessa mjög svo áhugaverðu grein eftir Berglindi Rós Magnúsdóttur, sem um skeið gegndi stöðu jafnréttisfulltrúa Háskóla Íslands.

Ágæt og umhugsunarverð grein birtist hér á síðunni í Frjálsum pennum um þetta sama efni. Hún er eftir Andreu Ólafsdóttur, sem skipar fimmta sætið á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Kraganum (suð-vestur kjördæmi).
Andrea segir m.a. í grein sinni” “Hættum að tala um einkarekstur, það eina sem er einka eða sjálfstætt framtak er hugmyndafræðin og stefna skólans, frelsi fólksins til að starfa eftir sinni hugmyndafræði. Þeir eru með framlög frá hinu opinbera og það sem við ættum frekar að tala um er að það þarf að tryggja þeim sama fjármagn og öðrum skólum og afnema skólagjöld. Það þarf semsagt að tryggja að öll börn standi jafnfætis gagnvart öllum skólum. Þannig er þetta gert í Svíþjóð skilst mér. Einnig þarf að tryggja að laun kennara og fagfólks í skólum séu góð og að leggja áherslu á símenntun þeirra. Já, það kostar peninga... en það má benda á að á síðast liðnum árum hefur Ísland verið aftarlega í hópi norrænna þjóða með hversu miklu fjármagni er veitt í skólakerfið og þörf á að bæta þar úr.”

Andrea leggur áherslu á valfrelsi og sveigjanleika. Þetta eru markmið sem ég er henni hjartanlega sammála um að stefna beri að. Ég hef hins vegar efasemdir um – og það meira en litlar - að halda eigi inn á einkarekstrarbrautina með skólakerfið og heilbrigðiskerfið. Innan skólakerfisins hafa verið þróaðar mismunandi stefnur án þess að farið hafi verið út í einkarekstur. Ef stofnun er fjármögnuð með almannafé þá á almenningur lýðræðislegan rétt til að hafa áhrif á ráðstöfun þeirra fjármuna. Það gerum við í gegnum ríki og sveitarfélög en h/f-in  eru beinlínis sniðin með það að markmiði að takmarka aðkomu almennings. Varla viljum við að svo verði. Ég vil opið og gagnsætt kerfi, sem byggir á almennum reglum og réttindum starfsfólks. Þessar reglur og þessi réttindi eru að mínu mati best tryggð hjá stofnunum sem eru í almannaforsjá. Það sýna dæmin – t.d. frá henni Ameríku þar sem einkarekstur hefur leitt af sér meira misrétti.   

 

 

Berglind Rós Magnúsdóttir: Vinnukonur frelsisins

3.4.2007

Þessa dagana falla vel í kramið hugmyndir Margrétar Pálu Ólafsdóttur um að leið til að frelsa konur frá launamisrétti sé að breyta rekstrarfyrirkomulagi ríkisrekinna almenningsskóla og umönnunarstofnana. Gott ef satt væri en er málið svo einfalt?

Tökum dæmi um laun kennara í skólakerfinu í Bandaríkjunum en bent hefur verið á að skólakerfið á Íslandi hafi að mörgu leyti þróast með sambærilegum hætti og það bandaríska en formbreytingar eigi sér stað hér 10-20 árum síðar. Nú þegar er þar löng hefð fyrir einkavæddum og einkareknum grunnskólum. Í BNA er um 21% af grunnskólum einkaskólar (private schools). Einkareknum almenningsskólum (charter schools) hefur svo fjölgað gífurlega á síðustu 15 árum. Þeir fá jafn mikið af opinberu fé og ríkisreknir almenningsskólar (public schools) en öll hugsun skólastarfsins byggist á hugmyndafræði hins frjálsa markaðar. Mikilvægt er að lesendur hafi í huga þennan mun á rekstrarformum skóla.

Laun kennara í einkaskólum (skammstafað framvegis ES) eru að meðaltali lægri, eða um 2/3 af launum kennara í ríkisreknum skólum (RS), en í sumum einkaskólum fá kennarar launabætur í formi húsnæðis, fæðis, afsláttar af skólagjöldum barna sinna eða annarra sambærilegra bitlinga. Það er mjög misjafnt eftir einkaskólum hversu bitastæðir bitlingarnir eru.

Ef marka má tölur frá BNA er það alls ekki einhlítt að laun í einkareknum skólum (skammstafað framvegis ERS) séu hærri en í RS. Í Colorado-ríki skólaárið 2001-2002 voru laun kennara í ERS 30% lægri að meðaltali en í RS og munurinn hafði vaxið frá 1997. Í Arizona árið 2005 voru hins vegar byrjunarlaun meðal nýráðinna kennara í ERS að meðaltali 6% hærri en laun nýráðinna kennara í RS. Það sem ERS og ES eiga sammerkt er að launabil milli kennara er mun meira en í RS. Til dæmis er launabil milli kennara í RS um 8000 dollarar en í ERS um 20.000 dollarar, bæði í Colorado og Arizona. Í flestum einkareknum skólum eru ráðningarsamningar gerðir á ársgrunni sem þýðir að starfsöryggi er mun minna en í RS. Í ERS í Colorado hafa 12% kennara fastráðningu. Þeir sem sækja aðallega heimildir sínar til stofnana Milton Friedmans og Adam Smiths fá ekki svona upplýsingar í hendur.

En skoðum þetta aðeins í kynjafræðilegu samhengi. Rökin fyrir meira launabili eru gjarnan þau að bestu kennararnir fái hærri laun. Oftar en ekki eru það þó karlmenn sem njóta tekjubilsins, þ.e. markaðshugsunin gerir ráð fyrir að erfiðara sé að fá karlmenn til að vinna uppeldisstörf og því þurfi að greiða þeim betri laun. Nýlegt dæmi um þetta er úr einkaskóla í New Jersey. Þar var ungur karlkyns viðskiptafræðingur ráðinn sem hafði ekki kennsluréttindi en var svo mikilvæg fyrirmynd strákanna í skólanum að mati skólastjórans að hann sá ríka ástæðu til þess að yfirborga hann umfram reynda og hæfa kennara í skólanum. Samkvæmt launatölum fyrir kennara í BNA frá skólaárinu 2004-2005 hafa konur 89% af heildarlaunum karla í RS en 76% af heildarlaunum karla í ES. Eins hefur það sýnt sig að ERS og ES hafa að meðaltali lægra hlutfall af kennurum með sérmenntun í kennslufræðum. Konur virðast bera virðingu fyrir menntun á sviði umönnunar, samskipta og kennslu og sækja sér mun frekar slíka menntun en karlar. Það er því ekki endilega á faglegum forsendum hvernig það er skilgreint að vera ”góður kennari” eða “að ná árangri í starfi” heldur á forsendum markaðarins.

Það er alla jafna svo að eftir því sem hlutfall karla eykst innan starfsgreinar þeim mun meiri virðing og hærri laun. Mun fleiri karlar starfa að jafnaði í einkageiranum en þeir eru engu að síður hlutfallslega færri í einkaskólum en ríkisreknum skólum í BNA. Því virðist einkavæðing ekki endilega vera nægileg forsenda fyrir því að karlar flykkist inn á hefðbundin kvennasvið. Það virðist hins vegar vera mjög misjafnt eftir skólastefnu einkaskólanna hversu hátt hlutfall karla er. Skólaárið 1993-1994 voru karlar einungis 4,5% starfsmanna í Montesori-skólum en í herskólum voru þeir 96%. Stefna skólans og aldur nemenda virðast mun frekar hafa áhrif á kynjahlutföll meðal kennara heldur en sjálft rekstrarformið.

Þetta er ekki skrifað til höfuðs því farsæla starfi sem Margrét Pála hefur staðið fyrir í skólamálum, en hún þróaði einmitt stefnu sína innan almenningsleikskólakerfisins fyrir allmörgum árum, heldur til að vara við því viðhorfi að leysa megi konur úr fjötrum kynbundins launamunar með tæknibrellum. Ef marka má þróunina í BNA er ekkert sem bendir til þess að einkarekstur muni framkalla byltingu í launum kvenna heldur fyrst og fremst aukið launabil innan kennarastéttarinnar.

Raunar er þeirri spurningu algjörlega ósvarað hvernig það virkar nákvæmlega að laun „vinnukvenna“ í kerfinu að meðaltali muni hækka verulega við það að taka upp einkarekstur í meira mæli. Hærri meðallaun kalla á að tekið sé fjármagn af öðrum útgjaldaliðum skólans því einkareknu skólarnir fá sömu upphæð og þeir ríkisreknu. Slíkt getur aldrei framkallað það launaskrið meðal kennara sem nauðsynlegt er að verði ef kjör kennara almennt eiga að verða viðunandi. Það þarf eftir sem áður stóraukið fjármagn inn í skólakerfið og til þess þarf pólitískan vilja ef ekki á að taka upp skólagjöld. Það hljómar fjarstæðukennt að fullyrða að markaðurinn muni allt í einu taka upp á því að uppræta aldagamla, kerfisbundna undirskipun svokallaðra „kvennastarfa“ á vinnumarkaði.