Meira um málverkin
Það er þekkt minni í glæpamyndum listaverkaþjófurinn sem stendur í hálfrökkvuðum sýningarsalnum með flugbeittan skurðarhníf og sker léreftið úr ramma. Þetta er einhvers konar efsta stig á plebba-glæponinum. Þjófurinn sem er tilbúinn til að skemma ómetanlegt listaverk til að verða sér úti um skotsilfur. Það er að vísu allt annað mál og alveg óskylt, en í íslenskri myndlistarsögu er orðið til nýtt minni. Það er ekki málverkið sem sýnir Alþingishátíðina 1930, Lýðveldishátíðina fjórtán árum síðar, eða síkvikt landslagið eins og Kjarval túlkaði það. Það eru ekki hinir sterku drættir Gunnlaugs, Jóns Stefánssonar, Þorvaldar Skúlasonar eða Engilberts. Síður en svo. Nýja minnið er hin klassíska fréttamynd af gleiðbrosandi einkavæðingarnefndinni íslensku sem er um það bil að selja mörg þau málverk sem eru samofin fæðingu sjálfstæðrar þjóðar, án þess að hafa nokkurn tíma svo mikið sem velt málinu fyrir sér. Þetta fréttaminni á vafalaust eftir að verða jafnalgengt í vitund Íslendinga og kvöldmáltíðarminnið í biblíumyndasögunum. Eða vissu þeir kannske hvað þeir voru að gera? Sverrir Hermannsson alþingismaður sem er gjörkunnugur verkunum spurði á Alþingi spurninga og við bíðum öll eftir svörum við þeim. Hann spurði meðal annars: Hver mat listaverkin til fjár? Hver lagði mat á menningasögulegt gildi þeirra? Hann óskaði eftir því að komið yrði með nöfnin og skýrsluna um matið. Það er sjálfsagt að fylgja þessum spurningum eftir. Forsætisráðuneytið getur ekki beitt fyrir sig trúnaðarrökunum í þessu máli. Nú verður forsætisráðherra að leggja fram matslistann á málverkunum og nöfnin á matsmönnunum eins og Sverrir bað um. Til þessara verka voru sérfæðingarnir í einkavæðingarnefndinni ráðnir, eða hvað?