MEIRIHLUTINN Á MÓTI MEIRIHLUTANUM
Í vikublaðinu Reykjavík er úttekt á afstöðu borgarfulltrúa í Reykjavík til flugvallarins í Vatnsmýrinni undir fyrirsögninni Meirihlutinn vill að flugvöllurinn fari. En á sama tíma og borgarfulltrúarnir lýsa afstöðu sinni höfðu yfir sextíu þúsund manns undirritað áskorun um að flugvöllurinn færi hvergi. Og ekki nóg með það, ítrekað hefur komið fram í skoðanakönnunum síðustu misserin að yfirgnæfandi fjöldi borgarbúa vill halda í flugvöllinn í Vatnsmýrinni.
Allir borgarfulltrúarnir aðspurðu segjast ætla að gefa kost á sér að nýju. Einu fulltrúarnir sem segjast ætla að standa vörð um flugvöllinn eru borgarfulltrúar úr Sjálfstæðisflokki, þeir Kjartan Magnússon og Júlíus Vífill Ingvarsson. Þeir eru í minnihluta í sínum flokki, því flugvöllinn burt vilja þau Gísli Marteinn Baldursson, Áslaug Friðriksdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sem segir Vatnsmýrina „besta byggingarland Reykjavíkurborgar". Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Besta flokknum vilja einnig láta flytja flugvöllinn svo og fulltrúar Samfylkingar, Dagur B. Eggertsson, Oddný Sturludóttir og Björk Vilhelmsdóttir. Sóley Tómasdóttir Vinstri grænum vill að „flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni sem fyrst."
Fjórir borgarfulltrúar svöruðu ekki Reykjavíkurblaðinu, allir frá Besta flokknum, Jón Gnarr, Eva Einarsdóttir, Karl Sigurðsson, Páll Hjaltason en allir eru þessir einstaklingar því fygjandi að flugvöllurinn víki. Sömu sögu er að segja um fyrstu varaborgarfulltrúa að því er ég best veit, að undanskildum Þorleifi Gunnlaugssyni, VG sem vill halda í flugvöllinn og hefur ítrekað talað opinberlega fyrir því.
Hvar skilur þetta okkur eftir sem viljum halda í flugvöllinn? Allt þetta fólk sækist áfram eftir setu í borgarstjórn. Flestir flugvallarandstæðingar í borgarstjórn berjast gegn honum af djúpri sannfæringu. Ég nefni Gísla Martein, Dag B. Eggertsson og Sóleyju Tómasdóttur í því samhengi og síðan gervallan Besta flokkinn. Þetta virði ég. Fólk á að tala fyrir sannfæringu sinni og ef hún er heit þá standa og falla með henni. En nákvæmlega þetta gæti gerst. Kjósendur munu horfa til þessa máls í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ef flokkarnir ætla að stilla upp listum sem eru í hróplegri mótsögn við vilja kjósenda í þessu stórmáli, þá spái ég því að fram komi listi sem setur þetta mál á oddinn. Hef ég trú á að honum muni vegna vel.
Einhvern tíma sá ég vinningstillögu að skipulagi í Vatnsmýrinni. Mér hraus hugur við henni enda í anda „þétting byggðar", þráhyggjuhugsunar síðustu áratuga. Þá hafa orðið mér til umhugsunar ýmsar yfirlýsingar fulltrúa Reykjavíkurborgar upp á síðkastið um hvað megi fá fyrir landið í markaðsviðskiptum við verktaka. Það ráðist af byggingarmagni, segja fulltrúarnir! Þetta þýðir að því fleiri íbúðum sem byggingaverktakar telja sig geta komið fyrir á svæðinu, þeim mun meira í borgarsjóð. Að þessu vinna þeir síðan saman, borgarfulltrúar og verktakar. En spyrja má hvort hagsmunir byggingaverktaka - sérhagsmunir þeirra- eigi að ráða för við skipulagningu borgarinnar. Því miður eru alltof mörg dæmi þess að slíkir hagsmunir séu ráðandi og nefni ég fyrirhugað stórhótel við Austurvöll. Ofurnýtingarstefnan birtist okkur síðan þegar nýir stúdentagarðar eru reistir á jaðri Vatnsmýrinnar gömlu við Oddagötu, nánast ofan í fyrri byggð.
Við fylgjumst með framvindu mála. En hér er slóðin á undirskriftasöfnunina til varnar flugvellinum: http://www.lending.is/