Fara í efni

MENNTAMÁLARÁÐHERRA: SJÁLFSTÆÐISMENN KUNNA AÐ EINKAVÆÐA!


Fréttablaðið efnir  í dag til mikils viðtals við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Viðtalið er fróðlegt fyrir margra hluta sakir. Fyrst og fremst fyrir það hve lítil gagnrýni virðist koma frá Samfylkingunni á einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Menntamálaráðherra segir mikilvægt að innleiða samkeppni í skólakerfinu og tekur undir að það sjónarmið að einkaskólar veiti meira svigrúm, meðal annars í launamálum:
„Fréttablaðið:  En launin eru nú hærri í einkaskólum?
Menntamálaráðherra: Þar er náttúrlega meira svigrúm. Jafnlaunastefna Kennarasambandsins og sveitarfélaganna gengur ekki upp. En ég bind vonir við að aukið samráð þeirra á milli verði til að losa um ákveðnar hömlur svo kennarar geti fengið kjarabætur."

Talað út og suður
Hvað er menntamálaráðherra að fara? Hvaða hömlur þarf að losa um? Er ráðherra að tala fyrir kjarabótum til kennara almennt eða bara sumra kennara? Ef hún er að tala fyrir kjarabótum til sumra kennara - hvernig ætlar hún að draga þá í dilka? Ef ráðherra er að tala fyrir auknum kjarabótum til kennara almennt, hvernig er ætlunin að fjármagna þær? Er ráðherra að tala fyrir skólagjöldum og að þannig fengist meira fjármagn inn í skólana? Eða er Þorgerður Katrín að tala fyrir auknu framlagi frá ríkinu? Ekki verður sagt að hér sé talað skýrt.

Sjálfstæðisflokkurinn leiði einkavæðingarumræðuna
Hæstum hæðum nær viðtalið þegar talið berst að einkavæðingu. Svo er að skilja að fresta eigi einkavæðingu Landsvirkjunar þangað til búið er að tala þjóðina inn á síkt. :
„Fréttablaðið:  Og nú er talað um að ekki sé stemning fyrir að einkavæða Landsvirkjun...
Menntamálaráðherra: Og það er alveg rétt. Það er ekki stemning fyrir því. Eitt meginhlutverk Sjálfstæðisflokksins er að fá fólkið með í það að einkavæða á skynsamlegum grunni. það verður að vera sátt um svona mikilsháttar breytingar meðal þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að leiða umræðuna um hvernig á að gera þetta. Við kunnum þetta, hinir flokkarnir ekki."

Meðfærileg Samfylking
Það er nefnilega það. Sjálfstæðisflokkurinn kann þetta, hinir ekki! En Framsókn lærði í tólf ára stjórnarsamvinnu með Sjálfstæðisflokki og ef marka má orð menntamálaráherra, sem jafnframt er varaformaður  Sjálfstæðisflokksins, þá virðist Samfylkingin afskaplega meðfærilegur og góður nemandi.

Er verið að stæra sig af nýjasta einkavæðingarhneykslinu
En á meðal annarra orða, hvað er það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert svona afskaplega vel? Er Þorgerður Katrín að tala um sölu SR-mjöls; hneykslið sem hlaut áfellisdóm Ríkisendurskoðunar? Eða er hún að tala um einkavinavæðingu ríkisbankanna eða sölu Pósts og síma? Er kannski verið að tala um nýjasta afrekið, Þróunarfélagið á Keflavíkurflugvelli, þar sem margt bendir til að stórfelld spilling sé til staðar, jafnvel hrein og klár lögbrot? Þar stýrir Sjálfstæðisflokkurinn vissulega  för.  Hann kann þetta segir varaformaður  Sjálfstæðisflokksins! Og Samfylkingin fær klapp á kollinn, námsfús  nemandi í Stjórnarráðinu  í læri hjá hinum kunnáttusama kennara. Skyldu kjósendur Samfylkingarinnar vera ánægðir með þessa umsögn um flokk sinn?