METNAÐARLAUS?
09.03.2010
Vefmiðillinn pressan.is vekur athygli á skrifum Karls Th. Birgissonar, ritstjóra tímaritsins Herðubreiðar um Icesave og aðkomu okkar nokkurra að því máli; fólks sem á það sammerkt að hafa viljað endurskoðun á þeim skilmálum sem Alþingi fékk undirritaða til umfjöllunar síðastliðið sumar.
Við fáum ekki háa einkunn, erum sögð engar tillögur hafa haft fram að færa (sem er ósatt!), og það sem alvarlegra er, við erum sögð vilja „einangra landið" en þar með „kjósum" við „enn frekari samdrátt og atvinnuleysi, félagslegar hörmungar og veikingu velferðarþjónustunnar..."
Síðan talar ritstjórinn um meintan tilkostnað af töfinni á Icesave, nokkuð sem fróðlegt væri að Karl Th. Birgisson færði sönnur á. Þar er ég ekki að biðja um yfirborðslegar fullyrðingar án þess að nokkuð handfast sé að baki einsog hann hingað til hefur boðið upp á.
Icesave samningurinn byggir hins vegar á ýmsum handföstum stærðum. Það er til dæmis staðreynd að vextir af Icesave frá 1. janúar 2009 eru hundrað milljónir á degi hverjum. Það er líka handföst staðreynd að eignir Icesave ganga ekki upp í vaxtagreiðslurnar en koma beint úr ríkissjóði - sama sjóði og fjármagnar Landspítalann og Háskólann. Það virðist líka vera handfast samkvæmt yfirliti Landsbankans að tæpur helmingur af eignum bankans er hér á landi en andvirði þessara eigna þarf að greiða út úr landinu upp í Icesave með gjaldeyri sem þarf að vera til staðar. (http://www.lbi.is/Uploads/document/Landsbankinn_OCM_survey_english_190209.pdf)
Önnur álitamál hafa einnig verið til umfjöllunar sem geta skipt sköpum um hagsmuni Íslands.
Nú er í augsýn að ná vaxtakostnaði niður sem samsvarar niðurskurði á ríkisútgjöldum í tvö ár! Þetta virðist ekki skipta Karl Th.Birgisson máli. Hvernig væri að hann reyndi að skrifa aðra grein en að þessu sinni að vel athuguðu máli. Það kostar að vísu einhverja yfirlegu. Til þess þarf lágmarksmetnað og dugnað. Skrif ritstjóra Herðubreiðar eru ekki vísbending um að hann búi yfir slíkum kostum. En hvernig væri að reyna Karl?
Hér er umfjöllun Pressunnar.is: http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/karl-th.-politiskt-abyrgdarleysi-ogmundar-valdid-gridarlegu-tjoni--vg-i-hugmyndafraedilegum-keng