Fara í efni

MINNISVARÐI UM HRAFNA-FLÓKA AFHJÚPAÐUR: "DAGUR OKKAR ALLRA..."

floki 1
floki 1


Mér er sagt að eitthvað hafi verið um hringingar frá Barðaströndinni yfir í Fljótin þegar fréttist af því að verið væri að afhjúpa minnisvarða um Hrafna-Flóka í Fljótunum. Flestir Íslendingar þekkja Hrafna- Flóka fyrst og fremst af tvennu. Við kunnum söguna um hrafnana þrjá sem Hrafna Flóki studdi sig við sem eins konar áttavita á leiðinni hingað til lands fyrir vel rúmum ellefu hundruð árum og síðan þekkjum við Hrafna-Flóka sem manninn er gaf landi okkar nafn þegar hann, eftir sæla daga í Vatnsfirði sumarlangt, sá fram á erfiðan vetur: Ísland skyldi landið heita enda hafði honum ekki þótt hafísinn sem nú fyllti firði boða gott.
Hrafna-Flóki hvarf aftur til Noregs en kom nokkru síðar til Íslands á ný og settist að í Fljótum. Þannig að til sanns vegar má færa að Barðstrendingar og Fljótamenn eigi Hrafna-Flóka - og að sjálfsögðu við öll ef út í það er farið.

En sem áður segir þá hefur minnisvarði um Hrafna-Flóka nú verið afhjúpaður í Fljótum og hlotnaðist mér sá heiður að framkvæma þá athöfn ásamt Herdísi Sæmundsdóttur, sem farið hefur fyrir hópi áhugafólks, sem hafði veg og vanda af því að minnisvarðinn var reistur. Hönnuður og listamaður er Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson og þykir mér honum hafa farist verkið sérlega vel úr hendi og er minnisvarðinn bæði fallegur og stílhreinn.

Á sérstökum skildi er vísað í Landnámu þar sem segir af ferðum Hrafna-Flóka og vitnaði ég í texta Landnámu í upphafi ávarpsorða minna sem ég flutti í félagsheimilinu Ketilási eftir að minnisvarðinn hafði verið afhjúpaður.

Fylgir ávarp mitt hér að neðan:

Í Landnámu segir frá Flóka Vilgerðarsyni, víkingi miklum sem fór af Rogalandi í Noregi að leita lands þess er þeir höfðu  áður fundið Naddoddur víkingur og Garðar Svavarsson hinn sænski. „Áður hann sigldi blótaði hann hrafna þrjá, að þeir skyldur vísa sér leið.  Þeir hlóðu þar varða er blótið hafði verið á mörkum Hörðalands og Rogalands og kölluðu Flókavarða.  Flóki sigldi fyrst til Hjaltlands en tók þaðan stefnu til Snælands sem var nafnið er Naddoddur hafði gefið.  Þegar hann sleppti fyrsta hrafninum flaug sá aftur um stafn til baka.  Annar flaug upp en settist aftur á skipið.  Er hann sleppti hinum þriðja flaug hann fram um stafn og vísaði svo á landið.  Þeir komu austan að Horni og sigldu vestur með ströndinni, fyrir Faxaflóa og Snæfellsnes og tóku land í Vatnsfirði á Barðaströnd og höfðu þar vetursetu.  Fjörðurinn var fullur af veiðiskap og gættur þeir þess ekki að afla heyja um sumarið.  Um veturinn féll allt kvikfé þeirra.  Um vorið gekk Flóki upp á fjall eitt og sá þá fjörð fullan af hafísum og gaf landinu nafnið Ísland. Þeir sigldu um sumarið í brott en urðu síðbúnir, komust ekki fyrir Reykjanes og höfðu vetrardvöl við Faxaflóa.  Sigldu sumarið eftir til Noregs.  Flóki lastaði landið en Herjólfur skipverji hans sagði af kost og löst.  Þórólfur, annar skipverji, sagði þar drjúpa smjör af hverju strái og var hann því kallaður Þórólfur smjör.

En Flóki fór aftur til Íslands og nam þá land í Fljótum.  Svo segir Sturlubók Landnámu þar sem fjallar um landnám í Skagafirði:  „Flóki son Vilgerðar Hörða-Káradóttur fór til Íslands og nam Flókadal milli Flókadalsár og Reykjahóls; hann bjó á Mói.  Hann átti Gró systur Þórðar frá Höfða.  Þeirra son var Oddleifur stafur er bjó á Stafshóli."

Sagan af Hrafna-Flóka í Landnámu er stutt en hefur að geyma öll frumefni Íslandssögunnar. Þetta er maðurinn sem fann Ísland, maðurinn sem fór á hausinn, þar sem hann gáði ekki að afla heyja. Þetta er maðurinn sem fór til Noregs til að bjarga málunum, og eins er þetta maðurinn sem sneri aftur, af því að hvergi er betra að vera en í Fljótunum. Í frásögninni um Flóka kemur einnig fram sá háttur Íslendinga að geta ekki sameinast um einföldustu atburðalýsingu, en Flóki taldi landið óbyggilegt, og vildi kannski ganga í Evrópusambandið, Herjólfur taldi margt í mörgu einsog góðum Framsóknarmanni sæmir og Þorvaldur að smjör drypi af hverju strái, einsog við í VG höfum alltaf haldið fram. En þegar Flóki komst til vits og ára, snerist honum hugur og þá vildi þessi mikli ofurhugi og landkönnuður hvergi vera nema í Fljótunum og alls ekki annars staðar og lái honum hver sem vill.

Hrafna-Flóki er einn ættfeðra Færeyinga og af honum er kominn Þrándur í Götu. Ég leyfði mér að fletta upp hvort ég væri ekki örugglega kominn sjálfur af Flóka enda telja ýmsir mér svipa til Þrándar í Götu, einkum Kínverjar. En hitt var mér meir í mun að kanna frændsemina enda er hið fornkveðna enn í fullu gildi að hvern má telja til frænda í fjórða lið og lengra bjóði hagur og sómi. Því miður voru tengslin ekki sönnuð en væntanlega eru allir  komnir af Flóka og við því öll skyld sem hér stöndum og er af því bæði sannur sómi og mikill hagur.
Flóki kenndi sig við móður sína Vilgerði, hún var  betur ættuð en faðirinn en hún var dóttir Hörða-Kára mikils héraðshöfðingja á Hörðalandi og Rogalandi.

Og hér var verið að reisa minnisvarða um forföður okkar og kannski ekki síst vegvísi fyrir okkur sjálf til framtíðar. Flóki minnir okkur á það, að ef sagan er vel sögð eru löngu liðnir atburðir nálægir, miklu nær en samtíðin sem enginn getur lýst svo öllum líki.

Rifjum upp söguna, sem við eigum öll saman, njótum þess að eiga Hrafna-Flóka að frænda og ættföður. Hann er í þjóðareign sem ekki einu sinni Sigurður Líndal getur efast um. Og þúsund ár er dagur ei meir orti skáldið, Íslandssöguna getur góður sögumaður sagt yfir vökunótt og er þá einsog við séum rétt nýkomin og hrafninn hans Flóka flýgur enn í hlíðum Tindastóls og Glóðafeykis, yfir  Höfða byggðir breiðar og Borgarsand undir máttugri sól sem Matthías Jochumsson var svo meðvitaður um í kvæði sínu Skín við sólu Skagafjörður.

„Lengst í fjarska sindra svalir, sælir fornu landnámsdalir", kvað hann og gæti þess vegna hafa átt við Fljótin þegar hann talar um sæla landnámsdali.

Sjálfum finnst mér mikið til Fljótanna koma. Í mínum huga hefur alla tíð verið einhver ljómi yfir þessu héraði - þessari sveit - og gaman þangað að koma. Lengi vel voru Fljótin mér - Húnvetningnum, Borgfirðingnum, Kjósverjanum, Reykvíkingnum -  fjarlæg. Þau voru mér hinn týndi dalur. Snjóþung og veðurhörð á vetrum en blíð og veðursæl á sumrin og falleg eftir því eins og segir í fróðleiksmolum sem mér bárust um Fljótin fín eins og það var orðað af væntumþykju sendanda. 
Síðan giftist ég inn í fjölskyldu Andrésar Björnssonar frá Hofi á Höfðaströnd sem eitt sinn sagði mér að allir Fljótamenn væru sér skyldir. Ekki veit ég hve langt hann fór aftur en eitthvað skemmra en til Hrafna-Flóka.
Sjálfum finnast mér ég vera orðinn hálfgildings Skagfirðingur - svona í bland - í gegnum konu mína. Það er ágæt tilfinning.

Annars eru þeir margir hinir týndu dalir. Minnisvarðar um liðna tíð eins og sá sem afhjúpaður var í dag, eru okkur tilefni til að finna á ný það sem týnst hefur eða glatast úr sögu okkar og menningu.

Það er ekki bara svo að það sé gagnlegt að hyggja að fortíðinni við smíði framtíðarinnar eins og Einar Benediktsson minnti okkur á, heldur er það einnig svo að tilveran verður litríkari og skemmtilegri þegar við þekkjum landið, jarðfræðina, menninguna og söguna; þegar við leiðum hugann að ýmsum sögulegum fróðleik og staðreyndum á borð við þá að Fljótamenn starfræktu sjómannaskóla í Haganesvík á áttunda áratug nítjándu aldar ( 1870-72) og nú vitum við að Hrafna-Flóki sneri aftur og vildi þá hvergi annars staðar vera en í Fljótunum. Ætli þannig sé því ekki farið með marga, að í Fljótunum finnist þeim gott að vera. Það finnst mér.
Til hamingju með daginn Fljótamenn! Og einnig sunnanmenn og vestanmenn, austanmenn og norðanmenn aðrir. Þetta er dagur okkar allra!
floki 2 
Herdís Sæmundardóttir, undirritaður og Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson, ásamt börnum sínum.