MISNOTUÐ FRÉTTASTOFA
Ekki er það þó einhlítt. Þannig geta fréttastofur orðið einstökum fréttamönnum, einum á báti eða í hóp, prívat vettvangur í deilumálum. Það erum við að upplifa með Fréttastofu Sjónvarpsins þessa dagana. Sömu fréttamenn og hafa á málefnalegum forsendum verið gagnrýndir fyrir slök vinnubrögð, bregðast ekki við á málefnlegum forsendum og með rökum heldur dylgjum og árásum á gagnrýnendur sína og nota til þess fréttatímana.
Árið 1996 var Jón Baldvin Hannibalsson ásamt öðrum flutningsmaður að breytingartillögu við nýtt lífeyrisfrumvarp þar sem kveðið var á um að lífeyrissjóðir skyldu jafnan sækjast eftir hámarksávöxtun. Ég var þessu ákvæði andvígur en studdi frumvarpið að öðru leyti enda einn af höfundum þess. Ég hef gert ítarlega grein fyrir hinni sögulegu umgjörð og þá sérstaklega gagnrýni minni á hámarksávöxtunarákvæðið. Það gerði ég m.a. í Kastljósi Sjónvarps; sama þættinum og ég leyfði mér að gagnrýna fréttastofu Sjónvarpsins.
En hver skyldu viðbrögðin vera? Kveða mig í kútinn með rökum? Sýna að ég hafi farið með staðlausa stafi? Nei, viðbrögðin eru að hamast á því í fréttatíma eftir fréttatíma að ég hafi samþykkt lagabálk með umræddu lagaákvæði. Því hef ég aldrei neitað. Aðeins bent á að ég hafi varað við þessu ákvæði og verið einn um að gera það við atkvæðagreiðslu.
Jón Baldvin Hannibalsson greiddi að sjálfsögðu atkvæði með ávöxtunargreininni ásamt öðrum samflutningsmönnum sínum að þeirri grein. Hann var hins vegar einn á móti frumvarpinu í heild sinni einsog okkur er nú sagt dag eftir dag í fréttum Sjónvarps. Hann greiddi semsé atkvæði á móti frumvarpinu í heild sinni jafnvel þótt samþykkt hefði verið tillaga hans um að lífeyrissjóðirnir ættu að sækjast eftir hámarksávöxtun. Ekkert rangt við það. Á sama hátt greiddi ég atkvæði með frumvarpinu í heild sinni þótt ég hafi verið andvígur umræddu lagaákvæði! Allt þetta er ég búinn að skýra rækilega í ræðu og riti.
Sjónvarpið segist strangt til tekið ekki hafa sagt neitt rangt. Sjónvarpið virðist ekki skilja að hið ámælisverða er að raða staðreyndum þannig saman að út komi ósönn og afskræmd mynd. Kannski er þetta skilningsleysi. Ég vona það. Hin tilhugsunin er verri þótt ég því miður hallist að henni; að verið sé að nota fréttastofuna til sverta mannorð fólks .
Það er dapurlegt til þess að hugsa að einstakir menn á fréttastofunni skuli komast upp með að misnota vinnustað sinn með þessum hætti.
Slóð: Sjónvarpsfréttir 14. febrúar, http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/14022012-0