Misskilningur dómsmálaráðherra leiðréttur
Birtist í Morgunblaðinu 18.10.04.
Fyrir fáeinum dögum reit ég grein í Morgunblaðið þar sem ég átaldi harðlega þá ákvörðun Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, að stroka Mannréttindaskrifstofu út af fjárlagaliðum dómsmálaráðuneytisins. Í stað þess að Mannréttindaskrifstofa fái þar ákveðna upphæð, sem var fjórar milljónir króna á síðasta ári, segir í frumvarpi fyrir komandi ár, að fjórar milljónir séu til úthlutunar samkvæmt umsóknum til dómsmálaráðuneytis. Með öðrum orðum þá er Mannréttindaskrifstofu heimilt að sækja um styrk en hefur enga tryggingu fyrir fjárveitingu.
Þetta varð mér tilefni til að staðhæfa eftirfarandi í Morgunblaðsgrein minni: "Þetta þýðir að Mannréttindaskrifstofan er ekki lengur frjáls. Það er grundvallaratriði að stofnun á við Mannréttindaskrifstofu hafi sjálfstæði og frelsi. Yfir henni er stjórn og sú stjórn leggur línurnar. Sú stjórn ákveður væntanlega einnig verkefnin. Ef þessi nýskipan nær fram að ganga hefur stjórnin eftir sem áður þetta á sinni könnu en við val á verkefnum þarf hún nú að taka tillit til eins atriðis sem hún þurfti ekki áður að huga að: Nú þurfa verkefnin að falla í kramið hjá Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra."
Um þetta segir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra í svari til mín: "Verður að telja miður , að á störf Mannréttindaskrifstofu Íslands sé brugðið því ljósi, sem Ögmundur Jónasson gerir í grein sinni, en af henni má ráða, að afstaða skrifstofunnar til einstakra málefna kunni að ráðast af því , hvar hún fær fjárveitingar hverju sinn."
Af þessu tilefni vil ég segja eftirfarandi við Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra: Ummæli mín ber ekki að skilja á þann veg að ég óttist að Mannréttindaskrifstofan hverfi frá sjálfstæðri og gagnrýnni nálgun sinni til mála. En raunsæið segir okkur að dómsmálaráðherra sem sker niður framlög til stofnunar, sem haft hefur í frammi gagnrýna afstöðu til lagafrumvarpa, sem hann hefur lagt fram, er ekki líklegur til að styrkja slíka stofnun til frambúðar.
Mínar efasemdir lúta ekki að Mannréttindaskrifstofunni heldur dómsmálaráðherranum. Þessum misskilningi Björns Bjarnasonar vildi ég eyða.
Hitt er svo rétt, að ég óttast að þessi afstaða dómsmálaráðherrans geti haft mjög skaðleg áhrif á störf Mannréttindaskrifstofu og skert frelsi hennar til að sinna því hlutverki sem við ætlum henni.
Nauðsynlegt er að framhald verði á þessari umræðu og er ástæða til að fylgjast með svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurnum Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem hún hefur beint til Björns Bjarnasonar um þetta efni á Alþingi.