Misskilningur stjórnarandstöðu
Öðru hvoru koma ráðherrar í ríkisstjórninni fram á sjónarsviðið og lýsa miklum áhyggjum yfir afleiðingum gjörða sinna. Þannig hafi einkavæðingin leitt til einokunar og fámennisvalds; örfáir stóreignamenn ráði lögum og lofum í landinu og að við þetta getum við ekki lengur búið. Þetta er á mörkum hins siðlega, sagði
Ég held að enginn geti láð þingmönnum VG að spyrja forsætisráðherrann í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort yfirlýsingar hans sjálfs í þessa veru að undanförnu og annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar, nú síðast Árna Magnússonar, boðuðu stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Stæði ef til vill til að hætta við sölu Landssímans, sem allir sjá að er annars á leið inn í einokunarsogið.
Forsætisráðherrann kvað allt þetta mikinn misskilning hjá fyrirspyrjanda. Að sjálfsögðu væri hann hjartanlega sammála Árna Magnússyni, en það þýddi ekki að ríkisstjórnin hefði gert neitt rangt með sölu ríkiseigna. Að vísu væri nauðsynlegt að hyggja að einhverjum breytingum á lögum og reglum.
En hverju sætir þá, var spurt að nýju, að allar tilraunir af hálfu VG til að breyta lagaumhverfinu væru svæfðar í nefndum, eins og til dæmis frumvarp um aðskilnað fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabanka í sama fyrirtæki?Aftur sté nú forsætisráðherra í pontu: Já, en fyrirspyrjandi misskilur...
Eitt er ljóst og það er að ríkisstjórnin er ekki reiðubúin að horfast í augu við afleiðingar eigin gjörða. Hitt kann að vera rétt hjá forsætisráðherranum að stjórnarandstaðan misskilji hlutina. Sennilega er hennar stærsti misskilningur að taka ríkisstjórnina alvarlega þegar hún virðist tala af einlægni til þjóðarinnar. Ósköp er það dapurlegt hlutskipti fyrir eina ríkisstjórn – að ekki sé nú minnst á þjóðina.