MÖGNUÐ MENNINGARHÁTÍÐ Í MUNAÐARNESI
Einhverjar ánægjulegustu samkundur sem ég kem á eru hinar árlegu Menningarhátíðir BSRB í Munaðarnesi. Þar rekur BSRB öflugustu orlofsbyggð verkalýðshreyfingarinnar í landinu, hátt í hundrað sumarhús ásamt þjónustumiðstöð. Í Munaðarnesi er á hverju sumri – og hefur verið allar götur frá byrjun tíunda áratugar síðustu aldar – efnt til málverkasýningar en við opnun hennar er síðan haldin Menningarhátíð sem við BSRBarar skrifum með stórum staf því svo heitir þessi viðburður.
Á Menningarhátíðinni er boðið upp á það besta á sviði ljóðlistar og í söng og músík. Listamaðurinn sem sýnir í Munaðarnesi að þessi sinni er Gísli B. Björnsson og kallar hann sýningu sína, Ljós og litur í landslagi. Verk hans á sýningunni eru unnin í olíukrít eða eins og segir í sýningarskrá: "Það er Ísland, landið sjálft, magnaðir litir og heillandi birta, sumar sem vetur, sem hafa verið aðalviðfangsefnið."
Gísla B. Björnsson þekkja flestir landsmenn, hann er grafískur hönnuður, kennari við Listaháskóla Íslands, áður stofnandi Grafískrar hönnunar við Myndlista- og handíðaskólann og skólastjóri skólans um skeið. Gísli er þekktur fyrir hönnun fjölda merkja fyrirtækja og stofnana og bókagerð hefur verið ríkur þáttur í lífsstarfi hans. Það sem færri hafa vitað er að Gísli B. Björnsson hefur alla tíð fengist við myndlist en það hefur verið svo í vaxandi mæli hin síðari ár.
Ég hvet alla sem leið eiga um Borgarfjörðinn að halda að þjónustumiðstöðinni í orlofsbyggðum BSRB í Munaðarnesi og skoða málverk Gísla B. Bjönssonar. Af þessari sýningu verður enginn svikinn. Ekki spillir fyrir að sýningin er í veitingahúsinu Paradís sem Ásta Hrönn Stefánsdóttir rekur.
Á Menningarhátíðinni í Munaðarnesi að þessu sinni las Berglind Gunnarsdóttir ljóðskáld úr verkum sínum. Frábær eru ljóð hennar og ljóðaþýðingar. Í stundinni sem hún átti með okkur og miðlaði til okkar staldraði hún við á Draghálsi – og horfði þar til þeirrar miklu sveitar þar sem við vorum stödd - hjá Sveinbirni Beinteinssyni heitnum, sem hún bar hlýjar tilfinningar til, fullar aðdáunar og væntumþykju, hélt síðan víða um lönd og skyggndist inn í eilífðina.
Þá söng á hátíðnni Alina Dubik við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Alina Dubik hefur verið búsett á Íslandi í 17 ár og unnið hér við kennslu og söng. Hún er mögnuð og söng sig inn í hjörtu allra þeirra sem fylltu sali í Munaðarnesi og gott betur á þessari skemmtilegu stund í Munaðarnesi laugardaginn 10. júní. Ekki á þar síst þakkir skildar Jónas Ingimundarson sem er orðinn eins konar listrænn ráðunautur varðandi tónlistina á hinni árlegu Menningarhátíð BSRB í Munaðarnesi. Hann reynist jafnan ráðagóður. Þar fyrir utan er hans eigið framlag ómetanlegt.
Þau Alina og Jónas minntust undir lokin Páls Jónssonar pípulagningarmeistara sem vann í Munaðarnesi á árum áður. Jónas Ingimundarson, sem átt hafði Pál að vini, minntist hans og síðan söng Alina, Ave Maria í minningu hans. Þetta var falleg stund. Eftir innilegt lófatak gengum við öll inn í Paradís, veitingastofu Ástu Bjargar Stefánsdóttur, þar sem Ásta Hrönn, í samvinnu við BSRB, bauð upp á veitingar í tilefni þessarar stundar – þessarar eftirminnilegu hátíðarstundar.