Fara í efni

MORGUNBLAÐIÐ OG SKATTARNIR

MBL
MBL

Birtist í Morgunblaðinu 14.01.10.
Í leiðara Morgunblaðsins á þriðjudag er fjallað um skattastefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og farið um hana óblíðum orðum. Fjármálaráðherra gerir því skóna að frekari skattahækkanir kunni að vera á döfinni en þegar eru orðnar og hljóti almenningur að vera farinn að lýjast að sitja undir sífelldum hótunum stjórnvalda um framtíðina.
Í leiðaranum er vísað í umræðu um skattamál fyrir síðustu kosningar. Það er vissulega rétt hjá leiðarahöfundi að stjórnmálamenn eiga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að standa við það sem þeir segja kjósendum. Þegar á heildina er litið hafa talsmenn VG einmitt gert það - kannski flestum öðrum fremur. Þegar allir dásömuðu skattalækkunaráform sögðum við að varasamt væri að horfa til hverfulla þensluskatta, bólan gæti sprungið og þá væri komin upp ný staða. Svo gerðist einmitt það. Bólan sprakk. Og þar erum við stödd nú. Horfum upp á minnkandi innflutning og samdrátt í framkvæmdum. Afleiðingin er stórfellt hrap í tekjum ríkis og sveitarfélaga.

Hverjir eru valkostirnir?

Hvað er þá til ráða? Í fyrsta lagi, að skera niður útgjöld ríkissjóðs. Það er ríkisstjórnin að gera. Annar valkostur er að auka tekjuinnstreymið í almannaþjónustuna með almennri skattlagningu eða beinum notendagjöldum. Ríkisstjórnin hefur valið almenna skattahækkun fremur en notendagjaldaleiðina, það er að láta notandann borga beint fyrir þjónustu. Í þriðja lagi er hægt að fjármagna hallann með lántökum. Einnig þetta er ríkisstjórnin að gera. Á næsta ári verða teknir hundrað milljarðar að láni til að fjármagna hallann á ríkissjóði. Þetta er kostnaðarsamt úrræði en talin vera nauðsynleg tímabundin lausn við erfiðar aðstæður.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins skuldar lesendum skýringar vilji hann efna til vitiborinnar málefnalegrar umræðu um þessi efni.

Leiðarahöfundur krafinn um röksemdir

Vill Morgunblaðið bregðast við tekjuhrapi ríkissjóðs með enn meiri niðurskurði? Hvar á þá að skera meira niður? Í heilbrigðisþjónustunni? Í menntakerfinu? Í almannatryggingum? Þetta eru stærstu liðir í útgjöldum ríkisins. Víða - einnig á þessum sviðum - er hægt að nýta fjármuni á markvissari hátt en nú er gert. Það er og verkefnið sem unnið er að samhliða þeim stórfellda niðurskurði sem ráðist var í á síðasta ári og er fyrirhugaður á því ári sem nú er hafið.

Að mínum dómi er stórvarasamt að fara hér mjög hratt í sakirnar (meira að segja hætt við að farið sé of hratt nú). Öll okkar áform um niðurskurð og skatta þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Hér er þörf á góðri yfirvegun og yfirsýn. Hana fáum við í góðu samstarfi og samráði við þá sem best þekkja á hverju sviði. Alhæfingasinnaðir sleggjudómarar kunna að hljóma skemmtilega en skila sjaldnast þeim árangri sem þeir guma af. Auk þess kenna dæmin að vinnulag þeirra veldur oftar en ekki varanlegum skaða.

Annar valkostur er að ganga lengra en þegar hefur verið gert við að innheimta gjöld af notendum velferðarþjónustunnar. Það er hins vegar úrræði sem VG er andvígt og rímar sú afstaða við almenn viðhorf í þjóðfélaginu. Það hefur ítrekað komið fram í skoðanakönnunum. Íslendingar vilja frekar borga fyrir sjúkrahúsvist með sköttum sínum á meðan þeir eru vinnufærir og góðir til heilsu í stað þess að bíða eftir heilsumissinum og vera þá rukkaðir. Notendagjaldaleiðin, sjúklinga- og skólagjöld, hefur alls staðar reynst ávísun á misrétti og ójöfnuð.

Þá er það almenna skattaleiðin. Hér viljum við að sanngirnin sé leiðarvísirinn. Þeir sem eru aflögufærir greiði, hinum verði eftir föngum hlíft. Þetta er í hnotskurn skattastefna VG. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að gæta verður hófs í þessu efni. Of mikil skattlagning á atvinnurekstur getur hæglega orðið til að hægja á hjólum atvinnulífsins, sem síðan veldur atvinnuleysi og þar með auknum útgjöldum og þrengingum. Þegar hins vegar stórfjármagnseigendur og efnafólk æmtir verð ég að segja hreinskilnislega að mín samúð er ekki til staðar. Hún er aðeins hjá þeim sem er gert að axla byrðar sem þeir eiga erfitt með að rísa undir.

Að lokum er það lántökuleiðin. Hún er nauðsynleg í bland. Við tökum þeim rökum að skattlagning geti orðið svo þung að hún komi okkur í koll, minnki skattstofnana en breikki þá ekki. Fjármögnun á ríkissjóðshallanum með innlendu lánsfé er því hyggilegur valkostur, bæði fyrir lífeyrissjóðina (sem ég tel að eigi að veita ríki og sveitarfélögum lánsfé á sanngjörnum vöxtum) og samfélagið í heild sinni. Þarna þarf hins vegar að finna jafnvægið því mikil lántaka kostar sitt.

Engum betur treystandi en VG

Það er mín sannfæring að engum flokki sé betur treystandi til að finna réttlátar leiðir í þessum efnum en Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Það hefur sýnt sig að við viljum standa vörð um vel rekna velferðarþjónustu sem ekki mismunar, um sanngjarnt skattakerfi og aðkomu að ríkisfjármálum sem byggist á raunsæi og skýrri framtíðarsýn. Okkar framtíðarsýn er blandað hagkerfi, með öflugri almannaþjónustu sem ekki mismunar og skattakerfi sem er réttlátt.