Fara í efni

MORGUNBLAÐIÐ VERÐUR SÉR TIL SKAMMAR

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 17.09.08.
Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 14. september er fjallað um heilbrigðiskerfið undir fyrirsögninni Tækifæri til breytinga í heilbrigðismálum. Í greininni er vísað í stjórnarsáttmálann og ræðu sem Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti á fundi í Valhöll 29. september 2007.

Stórt skref til markaðsvæðingar

Þar sagði Geir að nú væri tækifæri til að markaðsvæða raforkukerfið og greina á milli hlutverks ríkisins sem kaupanda og seljanda í heilbrigðisgeiranum „og þar með að gefa fleirum möguleika á að verða seljendur heilbrigðisþjónustu."
Í Reykjavíkurbréfinu er þessum áherslum fagnað bæði hvað varðar raforku- og heilbrigðisgeirann. Þetta losi „orkuútrásina úr hömlum opinbers eignarhalds, rétt eins og bankarnir voru leystir úr viðjum. Með nýju sjúkratryggingalögunum, sem samþykkt voru á Alþingi í síðustu viku, var sömuleiðis stigið stórt skref í átt til breytinga í heilbrigðiskerfinu, ekki sízt að nýta kosti samkeppni og einkarekstrar..."
Í ljósi umræðunnar á Alþingi og víðar vekja þessar yfirlýsingar athygli. Morgunblaðið lítur á lögin um sjúkratryggingastofnun sem „stórt skref" í átt til „samkeppni og einkarekstrar." Þetta er nokkuð sem bæði margir sjálfstæðismenn á þingi og þá ekki síður þingmenn Samfylkingarinnar báru brigður á við umræðuna gegn fullyrðingum í þessa veru af hálfu okkar sem vorum andvíg frumvarpinu.

Matvöruverslun sama og spítali

Höfundur Reykjavíkurbréfs telur ótvíræðan kost fylgja einkarekinni heilbrigðisþjónustu. „Í heilbrigðismálum, rétt eins og í menntamálum, vegagerð, sorphirðu, snjómokstri eða annarri opinberri þjónustu, geta alls konar fyrirtæki, samtök eða einstaklingar veitt þjónustuna þótt hið opinbera greiði fyrir hana, skipuleggi hana og setji henni regluverk. Það kemur út á eitt og með því að mismunandi fyrirtæki keppi um samninga við hið opinbera minnkar kostnaður og meira fæst fyrir skattpeningana." Og höfundur Reykjavíkurbréfsins heldur áfram og leggur að jöfnu allan almennan atvinnurekstur, verslun og viðskipti og síðan heilbrigðisþjónustuna. Hann klykkir út með því að spyrja hvort menn ætli virkilega að hlusta á málflutning fólks sem komi hingað til lands á vegum BSRB: „Það er auðvitað hægt að kalla sig fræðimann og safna saman upplýsingum í gríð og erg, en á fólk sem skilur ekki grundvallaratriðin í hagfræði að vera helztu ráðgjafar hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka um breytingar í ríkisrekstrinum?"

Vegið að starfsheiðri sérfræðinga

Það er ótrúleg ósvífni gagnvart þeim fræðimönnum sem hér eiga í hlut hvernig ferill þeirra er afbakaður og svertur af hálfu ritstjórnar Morgunblaðsins. Þeir fræðimenn sem vísað hefur verið til í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins undanfarna daga, Göran Dahlgren og Allyson M. Pollock, njóta bæði alþjóðlegrar viðurkenningar. Dahlgren er heimskunnur fræðimaður, sem ritað hefur um heilbrigðismál og er eftirsóttur fyrirlesari, gegndi um langt skeið æðstu embættum innan stjórnsýslunnar í Svíþjóð, hefur sinnt verkefnum fyrir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina og Alþjóðabankann, Þróunarstofnun Svíþjóðar, ráðgjafi um heilbrigðismál í þróunarríkjum, m.a. Kenýa og Víetnam, gestaprófessor við breska háskóla, handafi Lýðheilsuverðlauna Norðurlandaráðs og annarra viðurkenninga. Allyson M. Pollock, sem er læknir að mennt, er nú prófessor við Edinborgarháskóla og veitir þar forstöðu rannsóknarstofnun á sviði heilbrigðismála. Frá 1998 til 2006 gegndi hún prófessorsstöðu í lýðheilsufræðum og rannsóknum á heilbrigðisþjónustu og var stjórnandi rannsóknarstofnunar um heilbrigðisstefnu og heilbrigðisþjónustu við University College, London (UCL). Einnig stýrir hún rannsóknar- og þróunarvinnu við sjúkrahús UCL. Allyson M. Pollock hefur iðulega verið kölluð til ráðgjafar og álitsgjafar í neðri deild breska þingsins og skoska þingsins einnig. Bækur og rit hennar eru víðlesin og hafa orðið kveikja að mikilli umræðu, hún er eftirsóttur fyrirlesari og álitsgjafi í fjölmiðlum í Bretlandi og víðar.

Gæsalappir í háðungarskyni

Í Staksteinum Morgunblaðsins 9. september fær þetta fólk eftirfarandi umsögn: „Dahlgren er sérlegur ráðgjafi stjórnvalda í Alþýðulýðveldinu Víetnam um heilbrigðismál. Pollock gagnrýnir brezka Verkamannaflokkinn frá vinstri og er í miklu uppáhaldi hjá róttækum hreyfingum sósíalista í Bretlandi. Með öðrum orðum skoðanasystkin Ögmundar og félaga í VG, bæði tvö. Og bæði boðin hingað á kostnað félagsmanna í BSRB, sem sömuleiðis hafa kostað útgáfu bæklinga með erindum „sérfræðinganna"." Ég vek athygli á að þegar Morgunblaðið vísar til þessara fræðimanna sem sérfræðinga þá er það sett innan gæsalappa í háðungarskyni og til að gefa til kynna að þau séu ekki marktæk vegna pólitískra skoðana sem Morgunblaðið gefur sér að þau hafi. Morgunblaðið heldur áfram og segir að andstæðingar sjúkratryggingafrumvarpsins á Alþingi hafi gert mikið úr því „að hingað til lands hefðu komið stórmerkilegir fræðimenn, sem hefðu rannsakað breytingar á heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð og Bretlandi og komizt að þeirri niðurstöðu að breytingar í þá átt, sem hér á að fara, væru stórhættulegar." Vissulega er það rétt. Þau hafa varað við þessum breytingum. En höfundur Reykjavíkurbréfs hirðir ekki um að ræða röksemdir þeirra, lætur óskhyggjuna duga: „Vaxandi samkeppni í heilbrigðiskerfinu leiðir vonandi til slíks sparnaðar. Og hún leiðir líka vonandi til þess að notendur heilbrigðiskerfisins hafi úr fleiri kostum að velja." Já, vonandi! Nú er það svo að bæði Dahlgren og Pollock, sem og reyndar fjölmargir aðrir virtir fræðimenn um heim allan, leggja fram mál sitt á grundvelli ýtarlegra rannsókna um þær afleiðingar sem markaðsvæðingin hefur haft í för með sér. Staðreyndirnar í þeim efnum tala einfaldlega sínu máli. Málefnaleg umræða hentar hins vegar ekki bókstafstrúarfólki, og því er farin sú leið að reyna að grafa undan trúverðugleika „sérfræðinga" og beina umræðunni inn á aðrar brautir.

Landspítalann í Kauphöllina?

Það kemur auðvitað ekki á óvart að Morgunblaðinu svíði. Einkavæðingarhugsjónin hefur greinilega heltekið ritstjórn blaðsins í meira mæli en nokkurn tímann fyrr. Bókstafstrú er hins vegar aldrei gott að hafa að leiðarljósi. Það er reyndar grafalvarlegur hlutur þegar áhrifamikill fjölmiðill skynjar ekki ábyrgð sína og reynir allt hvað hann getur til að koma í veg fyrir að veruleikinn komi í ljós af ótta við að hann grafi undan kenningunni. Í ljósi þess hvernig nú er komið fyrir mörgum fyrirtækjum og jafnvel heilum starfsgreinum sem fjárfestar hafa farið höndum um á undanförnum árum, þá hlýtur það að teljast fífldirfska í meira lagi að reyna að telja þjóðinni trú um að nú sé um að gera að koma heilbrigðisþjónustunni á Íslandi út á fjárfestingarmarkað.

Höfundur er alþingismaður og formaður BSRB.