Fara í efni

MUN HALLDÓRA MOGENSEN, FORMAÐUR VELFERÐARNEFNDAR ALÞINGIS, SEGJA AF SÉR?

Halldóra Mogensen 2
Halldóra Mogensen 2

Um nokkurra vikna skeið höfum við fylgst með deilum sem snúa að barnaverndarmálum, skipulagi málaflokksins, samskiptum stofnana og mismunandi aðila innan kerfisins. Inn í þessar deilur steig nýr velferðarráðherra, Ásmundur Einar Daðason, við stjórnarskiptin sl. haust. Nú hefur þess verið krafist að hann segi af sér embætti! Á hvaða forsendum skyldi slík krafa vera reist?

En áður en ég vík nánar að kröfum um afsögn langar mig til að hafa örfá orð um eigin reynslu. Í langan tíma hef ég haft talsverð kynni af þessum málaflokki og um skeið kom ég að honum sem ráðherra mannréttindamála. Ég myndaði mér þá skoðun á ýmsu sem laut að lögum og reglum og flutti ég frumvarp sem færði okkur að mínu mati fram á við þótt frumvarpið tæki reyndar ýmsum breytingum í meðförum Alþingis sem ég var ekki allar sáttur við. Ég var því til dæmis andvígur að dómarar fengju vald til að dæma foreldrum sameiginlegt forræði. Ég taldi að í þeim fáu forræðismálum þar sem foreldrar næðu ekki sátt myndi lögþvingað forræði aldrei verða barninu til góðs.

Í umræðu sem spannst um þessa lagasetningu og aðkomu mína að henni var ég harðlega gagnrýndur fyrir að draga taum mæðra - væri mæðrahyggjumaður eins og stundum er sagt. Nokkur innistæða kann að hafa verið fyrir þeirri gagnrýni.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta nú er sú, að á þessum tíma kynntist ég heiftinni, sem oft er fylgisfiskur umræðu um þetta viðkvæmasta málefni sem til er, það er að segja, deilur um börn, tilraunir til að vernda þau fyrir öllu illu og síðan tilfinningin að sæta ósanngjarnri málsmeðferð. Orðsendingar sem ég fékk á þessum tíma voru ekki allar fallegar. Menn leituðu að einstaklingum til að hefna harma sinna. Því fékk ég ögn að kynnast.

Í ljósi alls þessa hef ég fylgst með nýjum félagsmálaráðherra taka á málum. Ég hef veitt því athygli hvernig hann hefur reynt að leysa mál af yfirvegun og sanngirni, jafnframt því að horfa til framtíðar um bætt skipulag. Hugsanlega væri hægt að gagnrýna hann fyrir að hafa ekki haldið stífar fram málstað Barnaverndarstofu, sem hefur sætt gagnrýni fyrir að rækja aðhaldshlutverk sitt of harkalega eins og í máli sem rakið var í sjónvarpsþættinum Kveik, sem nýlega var sýndur í Ríkissjónvarpinu. Um önnur mál sem tengjast Barnaverndarstofu hefur verið dylgjað, en skiljanlega hefur ekki verið unnt að ræða þau opinberlega sökum persónuverndar. Í gær var sá múr hins vegar brotinn og kemur þá í ljós að á máli sem stór orð hafa verið látin falla um eru fleiri hliðar en ein. Sjá: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/04/28/eg_er_ekki_kunningi_braga/

Í umræðu í spjallþáttum og á Alþingi hafa verið settar fram sverar ásakanir, þá ekki síst á hendur Braga Guðbrandssyni, sem gegnt hefur starfi forstjóra Barnaverndarstofu. Greinilegt er að nokkrir þingmenn róa að því öllum árum að grafa undan framboði hans í barnanefnd Sameinuðu þjóðanna. Upphrópanir Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata í Silfri Egils ekki alls fyrir löngu, að órannsökuðu máli af hennar hálfu, voru umsvifalaust birtar á vefsíðu RÚV sem stórfrétt án þess þó að gengið væri eftir því að Þórhildur Sunna fyndi ásökunum sínum stað. Björn Leví Gunnarsson, einnig þingmaður Pírata segir í grein í Morgunblaðinu í gær að „kerfið sjái um sína" og vísar hann þar í tilnefningu Braga í framboð í barnanefnd SÞ sem óeðlilegt spillingarmál. Þetta er nokkuð sem þingmaðurinn þarf að skýra með málefnalegum hætti. Sjálfur tel ég framboð Braga Guðbrandssonar fullkomlega málefnalegt og rökrétt og hef margoft fagnað því, t.d. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/akall

Nefndir þingmenn ræða mikið um siðferði og siðareglur - en aðallega fyrir aðra. Þess vegna er ekki úr vegi að beina þeirri spurningu til nefndra þingmanna hvort þeir leiði aldrei hugann að eigin ábyrgð; hversu siðlegt það er að notfæra sér aðstöðu sína sem þingmenn til að koma höggi á einstaklinga og pólitíska andstæðinga sína.

Sérstaklega verður þessi spurning ágeng eftir að fylgjast með framgöngu Halldóru Mogensen, formanns velferðarnefndar Alþingis, sem nú hefur kallað eftir afsögn Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra.

Halldóra Mogensen tilkynnir þjóðinni á föstudag að hún vilji ræða þessi viðkvæmu mál í beinni sjónvarpsútsendingu frá nefndarsviði Alþingis. Síðan kemur á daginn að þetta gerir hún án þess að hafa kynnt sér þau gögn sem eigi að ræða og nefnd hennar hafa verið aðgenileg.

Stundin upplýsir að hún hafi kallað eftir nefndarfundi strax um nóttina eftir að hafa lesið umfjöllun Stundarinnar! Semsagt um nótt er kallað á ráðherra í beina útsendingu í þingnefnd en í Fréttablaðinu er svo upplýst að fram til þessa hafi hún verið svo mikið í símanum að hún hafi ekki haft tíma til að „kíkja á gögnin," og reyndar enginn í nefndinni!

Formaður félagsmálanefndar Alþingis vill að ráðherra segi af sér. En ég spyr væri ekki nær að formaður félagsmálanefndar segi af sér?