MUNU LANDSMENN SÆTTA SIG VIÐ AÐ GREIÐA LÖGÞVINGAÐAN NEFSKATT TIL HLUTAFÉLAGS?
Nokkrir listamenn hafa tekið undir með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og Páli Magnússyni útvarpsstjóra um að nauðsyn beri til að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þeir telja að það geri stjórnun stofnunarinnar sveigjanlegri og megi með því móti nýta fjármuni hennar betur. Þeir sem talað hafa þessu máli telja sumir hverjir einnig vel koma til greina að Ríkisútvarpið dragi sig út af auglýsingamarkaði. Allt á að vera hægt eftir að RÚV er orðið hlutafélag.
Vissulega má það til sanns vegar færa að eftir að ríkisstofnun hefur verið gerð að hlutafélagi verður hún „meðfærilegri“ að því leyti að hægt verður að reka starfsfólk skýringalaust. Það má einnig spara peninga með því að halda nýráðnu fólki utan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þar eru jú iðgjöldin hærri en í þeim sjóðum sem starfsfólki í hlutafélagavæddum stofnunum er vísað í. Einnig verða ýmis réttindi starfsfólks ódýrari fyrir atvinnurekandann eftir að hf hefur verið bætt aftan við nafnið og skiptir þar engu máli þótt fyrirtækið eigi að kallast opinbert hlutafélag: Ríkisútvarpið ohf. Innheimtan á einnig að verða ódýrari er okkur sagt, með nefskatti í stað afnotagjalda. Sitthvað annað mætti tína til. Þannig verður auðveldara fyrir stjórnandann að beita launakerfinu sem tæki til að hygla og refsa starfsmönnum eftir atvikum.
Vandinn er bara sá að það gleymist að öll þau lög sem sett hafa verið um ríkisstofnanir voru sett til þess að tryggja góða, gagnsæja og réttláta stjórnsýslu í starfsemi sem er fjármögnuð með lögþvinguðum sköttum. Ef þessum lagaramma er breytt í grundvallaratriðum er hætt við því að sú sátt sem þessi fjármögnun hvílir á bresti. Þeir ágætu menn sem tekið hafa undir með ríkisstjórninni um að gera RÚV að hlutafélagi skulu ekki gefa sér að landsmenn muni sætta sig við að greiða lögþvingaðan nefskatt til starfsemi sem skipulögð er með þeim hætti sem RÚV ohf verður. Þar verður einum alvaldi, útvarpsstjóranum, veitt yfirráð yfir öllu mannahaldi og allri dagskrárgerð. Þessi alvaldur á svo allt sitt undir ríkisstjórnarmeirihlutanum komið. Ríkisstjórnarmeirihlutinn ræður nefnilega útvarpsstjórann og getur líka rekið hann – til dæmis að afstöðnum kosningum.
Tvennt er ástæða til að minna á í þessari umræðu. Í fyrsta lagi, að hægt er að gera umtalsverðar breytingar á skipulagi í ríkisstofnunum innan núverandi lagaramma. Í öðru lagi er hægt að gera breytingar á stjórnsýslu Ríkisútvarpsins sem myndu auka skilvirknina til muna og draga úr miðstýrðum pólitískum yfirráðum yfir stofnuninni. Slíkt frumvarp liggur nú fyrir Alþingi og er undirritaður þar fyrsti flutningsmaður. Leyfi ég mér að biðja þá velunnara Ríkisútvarpsins sem eru á hlutafélagavængnum vinsamlegast að kynna sér efni þess auk þess sem þeir íhugi þá spurningu sem sett er hér fram í fyrirsögn. Þar er spurt hvort líklegt sé að landsmenn muni sætta sig við að greiða lögþvingaðan nefskatt til hlutafélags. Sjálfur dreg ég það mjög í efa.