Fara í efni

NADER GEGN HJARÐMENNSKU Í STJÓRNMÁLUM

R. Nader
R. Nader

Þegar Ralph Nader var kynntur í ræðustólinn á opnum fyrirlestri í Berkeley í Kaliforníu í gærkvöldi var honum lýst sem „náttúrukrafti". Áheyrendur töldu þetta greinilega góða lýsingu ef dæma skal af lófatakinu.
Og vissulega er það rétt að allar götur frá því að Ralph Nader fór að láta að sér kveða, fyrst í neytendamálum (Unsafe at any speed, hét bók hans sem út kom 1965 þar sem hann gagnrýndi bílaframleiðendur þannig að eftir var tekið!) og síðar víðtækari pólitík, hefur hann verið atkvæðamikill og áhrifamikill eftir því. Hefur hann verið setur á lista yfir eitt hundrað áhrifamestu Bandaríkjamenn fyrr og síðar.

Enn er Nader að. Eins og til að undirstrika það heitir nýútkomin bók hans „Unstoppable", óstöðvandi.

Nader hvetur til samstarfs kjósenda frá hægri og vinstri gegn stórkapítalinu, sem bæði Repúblikanar og Demókratar verji með kjafti og klóm, þeir séu sama höfðuðið á sama búknum, segir hann, aðeins förðunin villi okkur sýn því hún gefi þessa flokka út fyrir að vera mismunandi.

„Ef við ætlum að knésetja stórkapítalið þá verðum við að safna liði óháð stjórnmálaskoðunum að öðru leyti en því sem sameinar okkur gegn stórkapítalinu." Og það segir Nader að sé auðveldara en virðist við fyrstu sýn: „Hvað gerðist þegar Obama ætlaði að ráðast á Sýrland? Hægri og vinstri sinnaðir kjósendur sendu þingmönnum kröfur um að fara ekki með ófriði og flækja Bandaríkin í  enn eitt stríðið. Og þingmennirnir áttu ekki annarra kosta völ en hlýða. Þeir vissu að annars ættu þeir á hættu að ná ekki endurkjöri."

Og það væri víðar hægt að ná breiðri samstöðu: „Það á að vera hægt gagnvart fjármálaheiminum. 90% bandarískra kjósenda vill brjóta upp banka sem eru sagðir of stórir til að falla - nema  í faðm skattborgara. Hvorki hægri menn né vinstri kjósendur vilja búa við svona kerfi. Sameinumst þá um þessa kröfu!"

Eftir fyrirlesturinn átti ég orðastað við Nader. Hann var áhugasamur um að frétta hvort við hefðum gripið til aðgerða gegn bönkunum að þessu leyti, vitandi greinilega margt um íslenska hrunið. Ég skýrði fyrir honum hvað hent hefði, að hvaða leyti vel hefði tekist til, en að enn ætti eftir að kljúfa bankana upp. „Já, það þarf að vera raunverulegur vilji fyrir hendi, ætli menn að ná árangri." Undir það tók ég.

Og Nader taldi fleira upp. Hvorki hægri kjósendur né vinstri kjósendur vilja láta misnota börn í auglýsinga- eða hagnaðarskyni: „Komum þá í sameiningu í veg fyrir að svo gerist!" Sama um leynilega alþjóðasamninga á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, „þar er allt leyniflegt og gegn þjóðarhag en í þágu fjármagnis" (athyglisvert var að heyra þennan róttækasta mann Bandaríkjanna tala um mikilvægi föðurlandsástar, patriotisma, en vissulega í samhenginu samfélag gegn leyndarhyggju fjölþjóðafjármagnsins). „Það skyldi þó aldrei vera að meirihluti kjósenda vilji gott heilbrigðiskerfi fyrir alla? Ef okkur tekst að hætta að tala í pólitískum frösum og losum fólk úr viðjum hefðbundinnar stjórnmálaumræðu þannig að allir horfi á stjórnmálin í ljósi veruleikans í nærumhverfinu, þá breytist margt. „En þá þurfum við líka að venja okkur á að starfa með fólki sem við erum ósammála að mörgu leyti, að þeim málum sem sameina okkur". Og það eru, segir Nader „einmitt mörg mikilvægustu grundvallarmálin".

Nader leggur höfuðáherslu á að við séum opin fyrir nýjum leiðum til að ná árangri. „Ef ég ætti að velja á milli mikils regluverks annars vegar og verndar fyrir uppljóstrara hins vegar, þá veldi ég hið síðarnefnda segir hann, og þar næ ég samstöðu með hægri mönnum."

„Ég næ líka samstöðu með hægri mönnum þegar ég spyr þá hvort þeim finnist í lagi - skattgreiðenda vegna að ríkisendurskoðun skoði ekki útgjöld Pentagons til hermála á hverju ári. Þeim finnst það ekki í lagi! Hví störfum við ekki saman að því að laga þetta?"Og Nader telur enn upp: „Samstaða er um það með mörgum vinstri mönnum og hægri mönnum að hnekkja lögunum sem Bush setti vegna meintrar hryðjuverkaógnar, the Patriotic Act, en þessi lög ganga  gegn mannréttindum okkar. Hægri menn  eru heldur ekki allir sammála því að hugtakið hryðjuverk sé misnotað eins hrikalega og gert hefur verið af hálfu þeirra sem hafa reynst verstu hryðjuverkamenn heimsins og það eru ríkisstjórnir okkar!"

„Er þín framtíðarsýn sú að bandarískt þjóðfélag verði samansafn lítilla ralpha nadera?", var hann spurður í lokin. „Ég tel", sagði hann, „að það þurfi að stórefla hagsmunagæslu fyrir almenning. Það krefst vinnu, hluta vinnu fyrir marga en fullrar vinnu fyrir stóran hóp. Þeir þurfa að vera borgarar í fullu starfi, „full-time citizens". Það þyrfti að efla grasrótarstarfið, safna peningum og safna saman fólki, það þarf eina-tvær milljónir „part time citizens" færri „fulltime", margt smátt gerir síðan eitt stórt í söfnun fjármuna en helst þurfum við að ná í einn eða tvo milljarðamæringa! Við þurfum nefnilega mikla peninga, ég held að það séu þrjár milljónir fuglaskoðara í Bandaríkjunum. Við megum ekki vera færri sem erum að fylgjast með samfélaginu okkar!"

Ralph Nader hefur fimm sinnum tekið þátt í forsetakosningum, fengið hlutfallslega lítið fylgi miðað við frambjóðendur Repúblikana og Demókrata en þó nógu mikið fylgi, atkvæði talin í hundruðum þúsunda og milljónum árið 2000 - alla vega nógu mörg atkvæði  til að vera sakaður um að eyðileggja fyrir Demókrötum og greiða götu Repúblikana. Þetta er gömul saga og ný. Þeir sem rugga bátnum og neita að láta berast gagnrýnislaust með straumnum eru sakaðir um eyðileggingarstarf. Slíkar ásakanir koma gjarnan frá þeim sem líður best í hjörð; þeim sem taka við fyrirskipunum og tilmælum frá þeim sem eru handhafar flokksræðis. Þetta íhald er að sjálfsögðu alls staðar til.

Ekki skrifa ég upp á allt hjá Ralph Nader. Því fer fjarri! En ég skrifa glaður upp á að þessi áttræði unglingur er sannakallað „náttúruafl" sem ég hefði að öllum líkindum kosið hefði ég átt þess kost í stað hinna vel förðuðu varðamanna valdsins, fulltrúa flokkanna sem skiptast á um að verma forsetastólinn í Washington - án þess að mikið breytist í lífi fólks.