NEI, BJARNI!
Birtist í DV 10.02.15.
Í byrjun ársins 2000 birtist í Morgunblaðinu viðtal við einn af bankastjórum Landsbankans þar sem, meðal annars, var vikið að skattaparadísum og bankaleynd. Þetta var á þeim tíma sem þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vann að því í samvinnu við Viðskiptaráð að búa til hér á landi "sérstakt skattaumhverfi" fyrir svokölluð "alþjóðleg viðskiptafélög." Þetta var fínt nafn á því sem nú er kallað skattaparadís, nema hvað þarna átti ekki að vera leynd heldur fyrir opnum tjöldum boðið upp á skatta sem væru langt undir því sem almennt tíðkaðist. Þarna væri hægt að höndla með þjónustu og framleiðsluvöru með lágmarksskattlagningu af hálfu hins opinbera.
Margs konar skattaskjól
OECD, Efnahags- og framfarastofnunin, gagnrýndi á þessum tíma skattaskjól af þessu tagi því þau græfu undan velferðarsamfélaginu með því að innleiða samkeppni þeirra í millum niður á við eins og það var kallað. Slíkar skattaparadísir gerðu það að verkum að tekjur af atvinnustarfsemi færðust frá þeim löndum þar sem framleiðslan fer fram og virðisaukinn myndast. Skattbyrðunum væri með þessu móti velt yfir á almenning í framleiðsluríkjunum - hinn almenni borgari axlaði ábyrgðina sem auðmennirnir víku sér undan.
Á endanum sáu íslensk stjórnvöld sig knúin til að hverfa frá þessum áformum en það var þó ekki fyrr en eftir að tugmilljónum hafði verið sóað í þetta skuggalega samstarfsverkefni ríkisins og Viðskiptaráðs.
En til voru aðrar leiðir til undanskota. Síðla árs 1998 hafði Landsbankinn sett á laggirnar dótturfélag á Ermasundseynni Guernsey til að veita viðskiptavinum sínum svokallaða aflandsþjónustu. Og víkur þá aftur að fyrrnefndu viðtali við bankastjóra Landsbankans fyrir fimmtán árum. Hann lýsti því fjálglega hve ánægjulegt það væri að Landsbankinn hefði fengið starfsleyfi á Ermasundseynni Guernsey. Þessu hefði verið afskaplega vel tekið af stærri viðskiptavinum bankans, sagði hann, og næmu eignir í sjóði á vegum Landsbankans á Guernsey þegar um þremur milljörðum króna eftir aðeins rúmlega ár frá opnun!
Vilja leynd um sín stærri mál!
Viðtalið segir allt sem segja þarf: . „[V]ið vildum breikka alþjóðlega þjónustu okkar og gefa kost á lögsögu, eins og Guernsey, sem sérhæfir sig í að veita hagstæð skattaleg skilyrði til rekstrar," sagði bankastjórinn í viðtalinu. Einnig sagði hann bankaleyndina mikilvæga enda þekktu Landsbankamenn það frá Íslandi „...að margir einstaklingar vilja ekki að aðrir viti eitt eða neitt um þeirra stærri mál, af eðlilegum ástæðum."
Landsbankinn var ekki einn um þetta ráðslag. Þannig kunna einhverjir að minnast þeirrar viðhafnar sem höfð var þegar Kaupþing opnaði útibú sitt í Luxembourg á sínum tíma. Luxembourg er annað tveggja OECD-ríkja sem gátu ekki einu sinni hugsað sér að undirrita samkomulag um lágmarksreglur OECD um skattaparadísir, reglur sem mörgum þóttu ganga alltof skammt. Í Lúxemborg bauð Kaupþing upp á svokallaða einkabankaþjónustu, m.a. ráðgjöf um það hvernig stofna mætti eignarhaldsfélög til að geta frestað greiðslu skatta af söluhagnaði hlutabréfa.
Fleiri nú með opin augu
Allt er þetta liðin tíð - eða hvað? Því miður virðist gamla kerfið og gamla sérgæskan aldrei hafa skilið við okkur og enn er rætt um skattaparadísir. Nema nú eru uppi gagnrýnni viðhorf sem betur fer. Fyrir fimmtán árum voru ekki margar raddir sem vildu láta upplýsa um undanskotsmenn úr hópi hinna dáðu útrásarmanna.
Slíkar kröfur eru hins vegar uppi nú. Um miðjan apríl síðastliðinn var greint frá því í fjölmiðlum að íslenskum stjórnvöldum stæði til boða að kaupa gögn um skattaundaskot Íslendinga. Í haust sendi skattrannsóknarstjóri greinargerð til fjármálaráðherra. Hún hefur verið til skoðunar í fjármálaráðuneytinu án þess að niðurstaða liggi fyrir.
Ríkið á ekki að verja ósvífnustu skattsvikarana
Fjármálaráðherra segir ákvörðunarvaldið liggja hjá skattrannsóknarstjóra en með skilyrðum þó. Allir læsir menn skilja hvert Bjarni Bendektsson, fjármálaráðherra, er að fara. Hann vill ekki að upplýsingarnar verði keyptar. Gæti verið of mikið í húfi fyrir einhver? Hvar í flokki skyldu þau standa?
Þetta mál er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra sérstaklega. Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins eru einn og sami maðurinn.
Formaður Sjálfstæðisflokksins má ekki komast upp með að beita ríkisvaldinu til varnar ríkum skattsvikurum!