Fara í efni

NEYÐARÁSTAND?

Hægðir á þingvöllum
Hægðir á þingvöllum

Þegar menn vilja réttlæta gjaldtöku af ferðamönnum við náttúruperlur Íslands er jafnan gripið til þess ráðs að stórýkja þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Talað er með andköfum um nauðsyn þess að ná verði með hraði ofan í vasa ferðamanna til að gera stíga og kamra.

Jafnan ef einhver sérfræðingur í slíkum hlutum erlendis frá tjáir sig með hneykslan á að það vanti einhvers staðar stíga og girðingar þá er því viðstöðulaust slegið upp sem stórfrétt. Landsmenn fylgjast flestir forviða með slíkum fréttaflutningi, sjá ekki hin meintu miklu spjöll sem gestkomendur eru sagðir valda með því að ganga á möl og klettum. Það er helst að þeir gleðjist yfir því hve laus við almennt erum við manngerðar sperrur i náttúrunni.  

Nú er ein hrinan að ganga yfir til að svara gagnrýni á stöðumælagjöld í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þúsundir ferðamanna eru sagðir kastandi þar af sér þvagi og saur um allar koppagrundir,  jafnvel „í rjóðri aftan við Þingvallakirkju." Ekki vil ég gera lítið úr þessum ósóma en heldur ekki of mikið. Sóðaskapur hefur því miður oft fylgt ferðamennsku og því fleiri sem ferðamennirnir eru má ætla að sóðunum fjölgi að hausatölu.

Þar fyrir utan þarf fólkið að hafa möguleika á að hægja sér á þar til gerðum salernum. Víðast hvar er þetta í góðu lagi við ferðmannastaði en mætti og ættiþó að stórbatna. Margir erlendir ferðamenn hafa haft á orði við mig hve þrifaleg salerni séu almennt hér á landi þrátt fyrir mikinn ágang víða.

Salernisaðstöðu þarf vissulega víða að bæta. Sömuleiðis leiðbeiningar og víða stígagerð. Þar hefur margt verið vel gert og er til eftirbreytni. Iðulega hefur þetta verið, alla vega í bland, unnið í sjálfboðavinnu. Til þessara mála þarf nú hins vegar að láta renna umtalsvert fjármagn úr skatthirslum ríkisins sem þessa dagana bólgna af völdum ferðamanna. Það er ekki illkynja bólga. Enn mætti bæta í með komugjöldum eða gistináttaskatti. Margoft hefur komið fram að um slíka gjaldtöku væri víðtæk samstaða í landinu.

Til eru þeir aðilar sem eiga samúð mína alla. Það er fólkið sem hefur á sínu landi eftirsóknarverð gæði frá náttúrunnar hendi eða manngerð. Dæmi um þetta er heita laugin í Hruna. Þar hafði forfaðir ábúenda hlaðið haglega laug sem margir vilja nú komast í. Ég hef skilið það á ábúendum að þeir hafi ekki löngun til að fara út í ferðmennsku eða hafa yfirleitt  fénot af gæðunum. Ágangurinn og truflunin sé hins vegar óbærileg!

Brögð eru að því að ferðaskrifstofur geri út á slíka staði. Það er fullkomlega óábyrgt og óafsakanlegt. Þarna þurfa yfirvöld að stíga inn, hefta frekjuaðgang eða koma upp aðstöðu í samráði við ábúendur. Á einhvern hátt þarf að koma þeim til aðstoðar á myndarlegan og afgerandi hátt. Eflaust er engin ein lausn á slíkum vanda heldur þörf á lausnum sem taka mið af aðstæðum og óskum þeirra sem í hlut eiga.

Vandinn í tengslum við vaxandi  ferðamennsku á Íslandi er vissulega skortur á aðstöðu víða. Hana þarf að bæta. Auknum ágangi þarf líka að svara með því að stuðla að meiri dreifingu þannig að aðkomufólkið leiti ekki allt á einn og sama staðinn.

Mikil breyting hefur orðið til batnaðar að því leyti að vönduð söfn hafa litið dagsins ljós og boðið er upp á heillandi og spennandi ferðir, ég nefni Suðurnesin sem eru nýstárlegri aðkomumönnum en við almennt gerum okkur grein fyrir. Helli í Langjökli mætti einnig nefna, hestaferðir, sjóferðir og margt annað. Því miður eru mörg rotin epli líka. Á ferðinni virðast vera alltof margir að leita að auðfengnum gróða. Ferðamennska er nefnilega fagmennska sem verulega þarf að vanda til.

Stærsta vandamálið er ekki að við séum ekki að hafa nógu mikla peninga af ferðamönnum heldur hitt að á meðal vor eru of margir gráðugir og ósvífnir aðilar að gera út á vasa hins gestkomandi manns á ósanngjarnan hátt.

Sjá um gjaldtöku á Þingvöllum: https://www.ogmundur.is/is/greinar/fyrst-thingvellir-svo-allir-hinir