Neyðarþjónusta á villigötum
Bitist í Mbl
Fyrr á þessu ári voru sett lög um að samræma símsvörun neyðarþjónustu landsmanna. Þetta er þarft framfaramál og ætti að geta orðið til þess að stuðla að markvissari vinnubrögðum, auka öryggi og jafnvel draga úr kostnaði ef rétt er að málum staðið. En því miður bendir flest til þess að við framkvæmdina hafi menn farið út af því sporinu.
Það er grundvallaratriði að um samræmda neyðarþjónustu af þessu tagi ríki sátt. Hún á að vera hafin yfir alla gagnrýni bæði frá almenningi og einnig þjónustuaðilunum. Í ljósi þess að öryggis- og neyðarþjónusta hefur í vaxandi mæli færst á hendur einkafyrirtækja sem keppa sín á milli á markaði, er nauðsynlegt að samræmd öryggisþjónusta standi ofar markaðshagsmunum. Það fyrirkomulag sem nú er stefnt að tryggir ekkert af þessu.
Fagleg gagnrýni
Þannig er unnt að gagnrýna það sem almennur borgari að einkafyrirtæki sem ekki lýtur stjórnsýslulögum annist milligöngu trúnaðarupplýsinga.
Þá hefur komið fram fagleg gagnrýni frá hendi þeirra sem gerst þekkja til þessara mála og nægir þar að vísa í sameiginlega ályktun stjórna Landssambands lögreglumanna og Landssambands slökkviliðsmanna. Þar segir meðal annars: „Þannig blasir nú við að aðilar sem ekki hafa komið að beinni neyðarsímsvörun í landinu eru orðnir milliliðir á milli almenings annars vegar og lögreglu og slökkviliðs hins vegar.“ Hér er vísað til þess að stefnt er að því að nýstofnað hlutafélag, Neyðarlínan hf., sem er í eigu opinberra stofnana, félagasamtaka svo og einkafyrirtækja á borð við Sívaka, Vara og Securitas starfræki vaktstöð sem taki við öllum hjálparbeiðnum og neyðarsímtölum frá almenningi til lögreglu og slökkviliðs.
Þegar um það var rætt á sínum tíma að samræma neyðarþjónustuna var markmiðið fyrst og fremst að samræma vel á annað hundrað neyðarlínur í landinu og einfalda þannig aðgang að viðbragðsaðilum, þ.á m. lögreglu og slökkviliði, enda víða úrbóta þörf, einkum í dreifbýli. Þá var um það rætt að einkaaðilar gætu notið góðs af þessari samræmingu. Það hlýtur að teljast sjálfsagt og eðlilegt að einkafyrirtæki fái eftir því sem kostur er þjónustu og aðstoð frá samræmdri neyðarsímsvörun enda sérstaklega gert ráð fyrir útseldri þjónustu.
Nú þegar hið nýja fyrirkomulag lítur dagsins ljós, kemur fram að tiltekin einkafyrirtæki eru komin með eignarvald yfir neyðarlínunni. Önnur fyrirtæki sem starfa á þessu sviði líta þetta eðlilega hornauga og hafa skotið til Samkeppnisráðs kæru þar sem því er haldið fram að þetta samræmist ekki samkeppnislögum og að hér sé að myndast óeðlileg ríkisvernduð einokun sem hægt sé að misbeita gegn öðrum samkeppnisaðilum á markaði. Þessi fyrirtæki líta svo á að óeðlilegt sé að samkeppnisaðilar þeirra sitji beggja vegna borðsins sem seljendur og kaupendur þjónustunnar.
Það er kominn tími til þess að stjórnvöld átti sig á því að ætli þau raunverulega að afhenda þessum fyrirtækjum hina viðkvæmu símaþjónustu sem tekur á móti neyðarkalli frá fórnarlömbum ofbeldis, glæpa, eldsvoða svo og slysa og bráðaveikinda þá munu vakna í þjóðfélaginu ýmsar spurningar um öryggi og trúnað sem krafist verður afdráttarlausra svara við.
Jafnræði á markaði
Hér munu sameinast í einni fylkingu, annars vegar þeir sem telja það vera grundvallaratriði að á samkeppnismarkaði ríki jafnræði, að ekki sé minnst á það þegar opinbert fé er annars vegar og svo hinir sem gera skýlausa kröfu um að neyðarþjónusta á vegum lögreglu og slökkviliðs sé ekki markaðsvara.
Eftir samtöl við einstaklinga sem nálgast málið frá þessum tveimur ólíku áttum virðist mér að þessi sjónarmið geti fullkomlega farið saman. Markmiðið með lagasetningunni í upphafi árs var reyndar að búa svo um hnútana að þetta tvennt gæti farið saman, aukið hagræði fyrir alla sem sinna þessari þjónustu og fullkomnara öryggi borgarans.
Nú er það dómsmálaráherra að sjá til þess að lögin afskræmist ekki í höndum þeirra sem eiga að framkvæma þau. Til þess þarf hann að taka þær tillögur sem nú liggja fyrir til gagngerrar endurskoðunar.