Fara í efni

NIÐUR MEÐ VEXTINA!

DV
DV

Birtist í DV 18.11.08.
Fjármálakreppan bitnar augljóslega verst á tveimur hópum, annars vegar þeim sem missa vinnuna og hrapa niður á atvinnuleysisbætur og hins vegar skuldugum heimilum og fyrirtækjum. Björgunaraðgerðir hljóta því að beinast að því að verjast atvinnuleysi og draga úr skuldaklyfjum. Þetta er nátengt. Atvinnuleysisdraugurinn verður aðeins kveðinn niður með víðtækum samræmdum aðgerðum. Hvernig til tekst á lánsfjármarkaði skiptir þar sköpum. Atvinnustigið er háð því að það takist að létta skuldabyrðarnar. Ella mun atvinnulífið hreinlega hrynja.

Að lengja í hengingarólinni

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þessa gagnvart skuldurum eru góðra gjalda verðar svo langt sem þær ná. Það er hins vegar ekki mjög langt. Þær ganga fyrst og fremst út á að lengja fresti til greiðslu skulda og ört vaxandi verðbólgu- og vaxtaálags sem hrannast upp á lánin í óðaverðbólgunni. Stjórnvöld hafa dustað rykið af lögum og reglugerðum frá miðjum 9. áratugnum sem gengu manna á meðal undir heitinu: Lenging í hengingarólinni. Með þessari nafngift vildu menn leggja áherslu á þá staðreynd að ekki væri tekið á hinu raunverulega meini, óhóflegum vaxtakostnaði.
Tvenns konar fyrirkomulag tíðkast á lánsfjármarkaði til að verja hagsmuni fjármagnseigenda. Annars vegar eru breytilegir vextir. Með breytilegum vöxtum getur lántakandinn hækkað eða lækkað vexti eftir því hvert verðbólgustigið er hverju sinni og gætir hann þess þá að vera alltaf með vextina talsvert hærri en nemur verðbólgunni. Hins vegar er verðtryggingin. Hún er notuð í sama tilgangi. Verðtryggingin færir sjálfkrafa verðbólguna inn í lánskjörin. Þessi trygging er svo örugg að ætla hefði mátt að lánveitendur færu varlega í að smyrja vöxtum ofan á verðbætur. Ekki er það nú svo gott á Íslandi. Þar hafa lánveitendur ekki aðeins haldið uppi háum vöxtum, þeir hafa komið sér upp tvöfaldri tryggingu, „girt sig með belti og axlaböndum" eins og það hefur réttilega verið kallað. Auk þess að vísitölubinda lánin hafa þeir áskilið sér rétt til að hafa breytilega vexti þar ofan á! Lántakandinn verður þannig algerlega háður duttlungum lánveitanda sem getur smurt sér gróðaáleggið eftir því hvernig liggur á honum þann daginn.

Hvað segir Pétur Blöndal nú?

Ég hef flutt frumvarp á þingi um að bann verði lagt við því að hafa lán í senn verðtryggð og með breytilegum vöxtum. Enn sem komið er hefur það ekki fengið góðar undirtektir. Spennandi verður að sjá hver verða örlög frumvarps sem lagt var fram á þingi í vikunni til varnar lántakendum. Þar er kveðið á um bann við því að lagðir séu hærri vextir ofan á verðtryggð lán en sem nemur 2%.
Ég minnist þess þegar verðtrygging var tekin upp fyrir nærri þremur áratugum að þáverandi Seðlabankastjóri, Jóhannes Nordal, sagði að vextir á verðtryggðum lánum ættu aldrei að vera meiri en nemur þessu hlutfalli. Ungur maður sem þá var að hasla sér völl í fjármálalífinu með stofnun fyrirtækisins Kaupþings tók þá mjög í sama streng. Sá maður heitir Pétur H. Blöndal og er nú formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis. Fróðlegt verður að sjá hvort hann er enn sama sinnis.

Ögmundur Jónasson alþingismaður