Nöldur Davíðs Oddssonar
Birtist í Fréttablaðinu 07.01.2004
Ritstjóri Fréttablaðsins, Gunnar Smári Egilsson, birtir umhugsunarverða hugvekju í helgarblaðinu þar sem hann veltir vöngum yfir hlutverki fjölmiðla. Eru þeir spegill samfélagsins eða mótunarafl? Þeir eru hið fyrrnefnda, ekki hið síðara, er niðurstaða ritstjórans.
Reyndar má skilja á Gunnari Smára að svarið við þessari spurningu sé ekki alveg einfalt því fjölmiðlar gegni mikilvægu hlutverki í þróun samfélagsins, þeir lími okkur saman sem heild. Fjölmiðlar séu farvegur þjóðfélagsumræðunnar: "Okkar litlu fjölmiðlar á Íslandi endurvarpa því samtali sem þarf til að halda okkar litla samfélagi saman. Alþjóðlegir fjölmiðlar reyna að halda uppi samtali innan margbreytilegri samfélaga og stundum jafnvel heimshorna á milli. Og eins og á við um margt annað þá er það ekki svo að þessir víðfeðmu og alþjóðlegu miðlar séu mikilvægari en staðbundnu miðlarnir okkar eða verk starfsmanna þeirra merkari. Ef við reyndum að meta þetta saman þá held ég að flest okkar kæmust að þeirri niðurstöðu að samtalið okkar við nágrannann væri mikilvægast af þessu þrennu. Og kæmist næst því að endurspegla lífið sem við lifum"
Fjölmiðlar skipta máli
Gunnar Smári Egilsson er greinilega með þessum skrifum sínum að svara gagnrýni sem fram hefur komið um hugsanlega misnotkun á fjölmiðlum. Hans niðurstaða er sem áður segir sú að fjölmiðillinn sé fyrst og fremst spegill, ekki mótunarafl. Ef fjölmiðli er misbeitt þá hrynji hann einfaldlega. Ekki er ég sammála niðurstöðum Gunnars Smára að þessu leyti.Vissulega er það rétt hjá honum að dæmin sanna að ekki er hægt að halda endalaust að fólki boðskap sem byggir á blekkingum. Pravda og hinir ritskoðuðu fjölmiðlar höfðu einokun á fréttamiðlun austur í Sovét og sögðu ekkert annað en það sem átti að gagnast valdhöfunum. Samt hrundu þeir og allt kerfið sem þeir hvíldu á.
En málið er flóknara en þetta. Auðvitað skiptir fréttaflutningur verulegu máli og hefur mótandi áhrif: Áherslurnar, framsetningin, við hverja er rætt, og þá ekki síður við hverja ekki er rætt. Og vissulega skiptir það máli fyrir sálarlíf hverrar þjóðar á hvaða stigi fjölmiðlar hennar eru hvað varðar dýpt og efnistök. Ég er sannfærður um að gagnrýnin umfjöllun í fjölmiðlum getur haft afgerandi áhrif á framvinduna í þjóðfélaginu og er þar með orðin að mótandi afli. Ef fjölmiðlamenn viðurkenna þetta ekki eru þeir komnir á flótta undan eigin ábyrgð.
Ekki svo að skilja að ritstjóri Fréttablaðsins kveinki sér undan gagnrýni. Hann telur að fjölmiðlar þurfi á gagnrýni að halda enda séu þeir farvegur þjóðfélagsumræðunnar. Það liggi "í eðli góðrar fjölmiðlunar að kalla á afstöðu lesenda eða áhorfenda". Góðir fjölmiðlar vilji þannig stuðla að því að fólk marki sér afstöðu til málefna og sé gagnrýnið á þá sem miðli upplýsingunum. Þarna er ég sammála ritstjóra Fréttablaðsins.
Ríkisstjórnin verður að fá aðhald
En það eru fleiri en ritstjóri Fréttablaðsins sem hafa fjallað um fjölmiðlana að undanförnu. Sennilega hefur enginn gengið eins langt í að fordæma almenna umræðu í fjölmiðlum um málefni líðandi stundar og forsætisráðherra gerði í áramótaávarpi sínu. Þar fjallaði hann á eftirfarandi hátt um þá gagnrýni sem stjórnvöld sættu í fjölmiðlum: " Ýmsum finnst sjálfsagt, að margt megi betur fara í okkar þjóðfélagi. Og ef við drægjum í eina mynd lungann af því sem segir í aðsendum greinum blaðanna frá degi til dags, þá mætti ætla að þetta land væri ein allsherjar ræfildóms ruslkista. Óþarft er auðvitað að láta þess háttar nöldur ná til sín, svo fráleitt sem það er."
Nöldrið er væntanlega frá Öryrkjabandalaginu, verkalýðshreyfingunni, andstæðingum kvótakerfisins, umhverfissinnum, þeim sem ekki vilja láta einkavæða dýrmætar þjóðareignir og að sjálfsögðu frá stjórnarandstöðunni. Hvað á að segja við forsætisráðherra sem líkir gagnrýnni umræðu við nöldur, sem hann helst vilji ekki að "nái til sín"?
Mikilvægt mótunarafl
Í mínum huga er augljóst hvernig brugðist skuli við: Þetta á að verða öllu lýðræðislega þenkjandi fólki áminning um hve mikilvægt það er að láta til sín taka í kröftugri þjóðfélagsumræðu á komandi ári, hvort sem það er á vinnustaðnum, við nágrannann eða í fjölmiðlum. Þessi umræða er nefnilega mikilvægt mótunarafl. Þetta er sjálfur tíðarandinn og í lýðræðisþjóðfélagi getur hann skipt sköpum, haft úrslitaáhrif á hvað misvitrar ríkisstjórnir komast upp með.
Ráðamenn sem tala á þann drambsama hátt til þjóðarinnar, sem Davíð Oddsson gerði á gamlársdag, verða að fá orð í eyra. Þeir þurfa aðhald. Þeir þurfa hreinlega á leiðsögn að halda. Í því efni má þjóðin ekki bregðast þeim.