Fara í efni

NORÐFJARÐARGÖNG: EKKI HVORT, HELDUR HVENÆR


Hið hógværa Innanríkisráðuneyti segir að 250 manns hafi sótt opinn fund um Norðfjarðargöng í Neskaupsstað sl. miðvikudag. Mbl.is sagði milli 400 og 500. Sjálfur var ég búinn að slá á 300 en ég kann ekki á húsið - Egilsbúðina-  og taldi ekki sjálfur þannig að 250 stendur. Alla vega var þetta fjölmennur fundur, málefnalegur og kröftugur. Á honum færðu heimamenn rök fyrir nauðsyn þess að fá göng á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar. Þau rök voru mjög sannfærandi. Um Oddsskarð fara gríðarmiklir flutningar á fólki og vörum. Losni samfélagið við tafirnar  - að ógleymdum eldsneytiskostnaðinum - sem fjallvegurinn veldur, mun það skila sér í arðsemi og auknum lífsgæðum.
Sagt hefur verið að Fjarðabyggð verði aldrei í reynd eitt sveitarfélag fyrr en samgöngurnar eru komnar í það lag sem gerast myndi með tilkomu jarðganga. Þá fyrst yrðu Neskaupstaður, Eskifjörður og Reyðarfjörður, og svo Fáskrúsfjörður, sem bæjarhlutar í sama bæjarfélaginu - en fyrr ekki.
Allt þetta mælir með göngum. Þannig að þau koma. Spurningin er bara hvenær.
Þar eru engu hægt að lofa enn sem komið er vegna fjárþurrðar ríkissjóðs. Þessu gerði ég grein fyrir á fundinum. Hitt sagði ég líka, hve gott það væri að finna fyrir kraftinum í samfélaginu sem birtist á þessum fjölmenna fundi. Hann skapði traust og trú á framtíðina.
Um mikilvægi jarðganga á þessum stað þarf ekki að sannfæra mig frekar. Þar er ég samherji Norðfirðinga. En það er líka ástæðan fyrir því að ég læt ekki hafa mig út í gylliboð og ósannindi um eitthvað sem ég veit að gengur ekki upp að óbreyttu. Með slíkum málflutningi er engum greiði gerður. Þvert á móti. Enda er ég sannfærður um að fólk vill almennt láta tala við sig af alvöru og byggja á alvöru forsendum.
Sjá nánar: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27051