Fara í efni

NORÐURLANDARÁÐ: SINNULEYSI OG SVIK VIÐ MÁLSTAÐ

Stoltenberg framkvæmdastjóri NATÓ var aufúsugestur á þingi Norðulandaráðs í Kaupmannahöfn í vikunni. Svo var okkur sagt í fjölmiðlum. Hann hefði verið mættur þar til að tala um öryggi og frið.

Árið 2020 námu hernaðarútgjöld NATÓ ríkja samanlagt meira en þúsund milljörðum Bandaríkjadala.

Mest voru útgjöld Bandaríkjanna eða um 40% hernaðarútgjalda á heimsvísu og höfðu farið vaxandi enda var Bandaríkjaher að uppfæra kjarnorkuvopnabúr sitt.

Næst í röðinni langt á eftir BNA kom Kína, þá Indland og síðan í svipaðri útgjaldaspyrðu, með innan við tólfta hluta af útgjöldum Bandaríkjanna hvert um stig voru Frakkland, Þýskaland, Bretland – og ógnin mikla Rússland.

Með öðrum orðum NATÓ-ríkin gnæfa yfir öll önnur ríki heims og hafa það umfram flest þeirra að vera að gefa í.

NATÓ þjónar ekki aðeins heimsauðvaldinu sem eins konar herlögregla heldur einnig hergagnaiðnaðinum sem hagnast óendanlega á kostnað almennings sem að sjálfsögðu borgar brúsann. Til að tryggja að þar verði framhald á þarf að viðhalda tortryggni og ótta og síðan fyrirheiti um að með auknum hernaðarúrgjöldum megi tryggja frið og öryggi.

Í þessum erindagjörðum var Stoltenberg framkvæmdastjóra NATÓ boðið sem sérstökum heiðursgesti á þing Norðurlandaráðs. Hann fór orðum um vaxandi ógnir og tilheyrandi öryggisleysi og svo kom áminningin um hvernig mætti tryggja frið og öryggi. Það gerði NATÓ og Evrópusambandið!

Hvernig gat þetta gerst? Einum helsta fulltrúa hernaðarhyggju í heiminum boðið inn á gafl hjá Norðurlandaráði sem fram til þessa hefur haft á sinni könnu samstarf Norðurlandanna á sviði menningar- og mannúðarmála, samvinnu í félagslegum málefnum og alls þess sem uppbyggilegt er, fjarri yfirgangi og vopnavaldi.
Hvert erum við eiginlega komin? Við? Já, fulltrúar Íslands tóku að sjálfsögðu þátt. Sigurður Ingi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins fagnaði þessu sérstaklega. Hann kom fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins og sagði að þetta væri til marks um að nú væri allt til umræðu í Norðurlandaráði, líka öryggismál og þar með NATÓ.

Þetta er náttúrlega alls ekki rétt hjá ráðherranum. Þarna fóru engar alvöru umræður fram heldur einhliða áróðursboðskapur.  

Ef ræða á NATÓ og öryggismál af einhverju viti þarf að skoða vígbúnaðarmál á hlutlægan hátt og ræða ofan í kjölinn raunverulega aðkomu NATÓ að heimsmálum á undanförum árum í Afganistan, Líbíu, Sýrlandi og víðar. Það hefði verið fróðlegt að heyra gagnrýna umræðu um útgjöld til drápstóla, njósnir NATÓ ríkjanna hvert um annað, aðallega Bandaríkjanna með aðstoð Svía og Dana! Var eitthvað af þessu rætt Sigurður Ingi?

Er þetta ekki svolítið hlægilegt allt saman? Eða er þetta kannski alls ekkert hlægilegt heldur grafalvarlegt hvernig komið er? Það sem mér finnst verst, svo litið sé okkur næst, er að þetta skuli gerast með velþóknun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, flokks sem var stofnaður gegn hernaðarhyggju og veru Íslands í NATÓ.

Nú fer hins vegar fram umræða í Norðurlandaráði með aðkomu NATÓ og réttlætingin meðal  annars skýrsla Björns Bjarnasonar eins harðasta NATÓ-sinna Íslands. Sú skýrsla bjó í haginn fyrir áróðursræður framkvæmdastjóra NATÓ hjá Norðurlandaráði. Sú skýrsla var unnin í umboði ríkisstjórnar þar sem Vinstrihreyfingin grænt framboð er í forsæti.

Stoltenberg sagði að á Norðurlöndum ríkti „djúpur friður“. Eflaust má lýsa því svo en nær sanni væri að tala um sinnuleysi eða meðvirkni og í sumum tilvikum svik við málstað. Það síðastnefnda er sennilega verst.